Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

Ekki má skrifa C0-vit - smá fölsun út af ritskoðun Facebook

Síðasta bloggið sem að ég setti inn þann 30.sept og deildi yfir á facebook á vegginn minn, fer ekki lengra en þangað og verða því vinir mínir á facebook ekki varir við færsluna - nema hreinlega fara inn á minn vegg. Eins held ég að sé með þessa skemmtilegu skopmynd út MBL sem að maðurinn minn setti inn á sinn vegg. Textinn sem að hann setti inn vísaði ekki til C0-við en aðeins er minnst á þetta í skopmyndinni sjálfri, þannig að það virðist vera að bæði mynd og texti séu ritskoðuð. Ég ætlaði að deila þessu yfir á minn vegg frá manninum mínu og upp kom gluggi með viðvörun frá facebook um C0/vi-d reglur. Ég deildi því engu síður, en myndin fór jú inn á vegginn minn, en ekki lengra, enginn af okkar vinum fékk þetta inn á sitt facebook hús, hefðu þurft að fara inn á okkar vegg til að sjá þetta, vinir sem að erum í miklum samskiptum við okkur bæði á facebook og utan hennar í raunveröld. Hér kemur svo myndin, ég mun deila þessu yfir á mitt facebook, en veit ekki hvernig facebook mun svo ritskoða. Mér finnst þetta skuggalegt - hvar er tjáningarfrelsið???

244027253_2736899013275657_3769265225134529936_n


Hvenær fær almenningur sinn stjórnarskrárvarinn einstaklingsrétt aftur?

Í þessu Covid 19 fári hefur undanfarin tvö ár verið smám saman að skerða rétt almennings alltaf meir og meir - þ.e. ferðafrelsi og skikkun á að hafa grímu fyrir vitunum. Þó að stór hluti almennings sé bólusettur, þá er ennþá verið að testa hvort við mögulega höfum Covid, þrátt fyrir að vera fullfrísk og einkennalaus. Hvað gefur stjórnvöldum þennan rétt, ég get ekki séð að hér sé verið að verja neitt, nema kannski valdið yfir almenningi, að sjá hversu langt er hægt að ganga með þessari ofurstjórnun.

Við hjónin fórum í frí í tvær vikur til Teneríve og keyptum flug með Play. Við erum það sem heitir fullbólusett og ég tek það fram, að ég lét einungis bólusetja mig vegna þess fyrirheitis að þá fengi ég aftur stjórn yfir eigin lífi, en ekki vegna ótta við Covíd. Ég hefði kannski bara betur sleppt því að fara í bólusetningu, þar sem það virðist litlu breyta. 

Þegar við förum að tékka okkur inn í flugið út, kemur í ljós að ekki var nóg að tékka sig inn á síðu 
Play og setja þar inn allar sínar persónuupplýsingar, kyn, aldur, ríkisfang, vegabréfsnúmer, heimilisfang, ástæðu ferðar - heldur áttum við að fylla út nákvæmlega sömu upplýsingar á einhverju öðru appi til að fá einhvern kóða, svo að við mættum fljúga út í frí. En til þess að einfalda málið, lét starfsmaður flugvallarins okkur fá blað til að fylla út og sagði að nóg væri að sýna það á flugvellinum úti við komuna, sem og að við gerðum. Þegar að út var komið dugði þetta ekki og þurfum við að hlaða niður þessu appi og fylla út, til að fá að fara í gegn um flugvöllinn. 

Ekki tók svo betra við á leiðinni heim. Ég fór inn á Covid.is til að skoða reglurnar og las mér til um að ekki þyrftu fullbólusettur einstaklingur á þessu PCR testi að halda til að koma heim. Ég tékkaði okkur því inn í flugið áhyggjulaus. Þegar við erum komin að borðinu til að vigta farangurinn og fara í flugið, þá kom nú annað í ljós, því að ekki átti að hleypa okkur úr landi án þessa test, sem að kostar fleiri þúsund krónur að fá og það langa bið að við hefðum misst af fluginu. Ég neitað að hreyfa mig og sagðist ekki fara frá borðinu fyrr en mér yrði hleypt í gegn, ég væri íslenskur ríkisborgari og ef þeir vildu eitthvað test á Íslandi, þá yrði það bara tekið á flugvellinum þar. Þegar ég neitaði að fara frá tékk inn borðinu, var mér hótað lögreglu, en ég var tilbúin að taka slaginn. Ég vissi að ég á stjórnarskrá varinn rétt til að fara heim til mín, þar sem að ég var engin ógn við neinn, né hafði brotið eitthvað af mér. Eftir mikið þref og símhringingar í yfirstjórn Play var ákveðið að hleypa okkur í flugið, en þá vantaði okkur þennan kóða aftur. Við áttum sem sagt að ná í annað app og skrá aftur sömu upplýsingar og þegar að við fórum út. Upplýsingar sem að voru nú þegar til staðar og ég bara skil ekki þessa þvælu, vegabréfið og flugmiðinn ætti að vera alveg nóg. Þegar að heim var komið, var svo tekið test á flugvellinum, sem var að sjálfssögðu neikvætt, enda við fullfrísk.

Eigum við almenningur að sætta okkur við þetta. Hvenær ætlar almenningur að segja að nú sé komið nóg af þessu skrifræði og sviptingu á borgaralegum réttindum okkar allra. 


Að gefnu tilefni og vissulega mjög þörf umræða

Takk fyrir viðbrögðin við fyrri færslu minni, þetta er þörf umræða. Ég er sjálf mjög hissa og ósátt með hvernig staðið er að þessu hjá Vinnumálastofnun. Eins og ég nefndi í blogginu mínu, þá fæ ég sem atvinnurekandi senda ferilskrá viðkomandi og ber mér síðan að reyna að ná í þann atvinnulausa, ef mér lýst svo á. Oft eru þetta afleitar ferilskrá, hvorki með símanúmeri, eða þá kannski röngu símanúmeri og netfangi, eða jafnvel ekki. Engar kennitölur og jafnvel oft ekki aldur viðkomandi, ef það er ekki nefnt í ferilskránni. 

Mér þykir það skrítið að það sé í höndum atvinnurekenda að reyna að ná sambandi við fólk sem er atvinnulaust, því ætti að vera öfugt farið, já það ættu að vera starfsmenn Vinnumálastofnunar sem tala við fólk og sendir í viðtöl. Þá gæti viðkomandi hafnað vinnu áður en í viðtalið er haldið með rökum um hvers vegna. Þau rök gætu vissulega ekki verið að það sé betra að vera á bótum. En fjarlægðir, vinnutími og þess háttar ætti að gilda, þar sem að aðstæður eru mismunandi hjá fólki. Þetta þýðir að starfsmenn Vinnumálastofnunnar þurfa að vinna vinnuna sína og ef að Stofnunin hefur ekki nægan mannskap, þá er jú fullt af fólki atvinnulaust og hlýtur að vera hægt að fá einhverja til vinnu hjá Stofnuninni, skapa störf til að skapa störf.

Það er algjörlega afleitt að menn telji að laun séu ekki þess virði að vinna fyrir, en atvinnuleysisbætur eru ekki hugsaðar til að koma í staðinn fyrir léleg laun, þær eru hugsaðar sem tímabundin lausn fyrir fólk í atvinnuleit. 


Eins og sauðir leiddir til slátrunar eru þeir sem einskis spyrja eða efast

Það er einkennilegt hvernig fólk misskilur skrifin mín, en í síðustu færslu er ég er að tala um íþyngjandi innanlands aðgerðir, en ekki hvað varða reglur um sóttkví í komu til landsins. Vil ég því skerpa á því hér með. 
 
Það er hins vegar staðreynd í mínum huga að fyrirtækjum er mismunað og það að óþörfu. Ég sé ekki hvers vegna það ætti að vera meiri hætta á smitum á veitingastað en í verslun, þar sem að á veitingastaðnum eru mun strangari reglur um sótthreinsanir á milli gesta en t.d. í verslunum.  Í verslunum er enginn er að skipta sér að því hvað kúnnarnir snerta, enda ekki mannskapur í það að elta hvern einasta kúnna.
 
Þar sem að ég rek sjálf veitingastað og kaffihús, þá tala ég af reynslu og við lögðum mikið á okkur við að halda öllu sótthreinsuðu og eins öruggu og okkur var unnt. Sóttvarnarreglur innan lands eru alltof hamlandi nú, þar sem að smitum er náð niður og strangar reglur fyrir komufarþega eru við landamærin.
 
Að fólk telji það löst að spyrja gagnrýnis spurninga og leyfa sér að efast um að aðgerðir séu til þess fallnar að vermda almenning án þess að fullnægjandi rök séu til staðar, er skortur á sjálfstæðri hugsun. Það eru lýðræðisleg mannréttindi að fá að hafa skoðun og láta hana í ljós, án þess að menn telji sig þurfa að skammast yfir því.
 
Ég er ekki ein af þeim sem set á mig skjöldinn - Ég hlýði Víði, en ég er ekki þar með að segja að ég hlýði honum ekki, enda löghlýðin með afdrifum. Hins vegar finnst mér að mönnum sé hollt að spyrja spurninga og leifa sér að efast um réttmæti aðgerðanna, ef ekki fullnægjandi svör og rök eru til staðar. Í mínum huga eru þau ekki til staðar nú. 
 

Íþyngjandi sóttvarnarlög - en lítið að smitum

Ég velti fyrir mér stundum hvort þessar miklu takmarkanir á frelsi til athafna standist lög um mannréttindi. Nú hefur í nokkuð langan tíma verið lítið sem ekkert um innanlands smit af Covid 19 og takmarkanir á landamærum miklar, þannig að í ljósi þess ætti lífið að geta verið á mun eðlilegri nótum en nú er. 

Það að ekki megi sitja inni á veitingastað fleiri en 20 gestir og ekki megi afgreiða fólk um veitingar eftir kl. 21 finnst mér vera svo mikil forræðishyggja - að ég velti fyrir mér hvort hér sé að verða til Fasisma þjóðfélag, þar sem menn verði að hlíða, þó svo rökin sé veik eða engin. 

Það vekur mér óhug hvað fólk virðist vera lítið meðvitað um persónuréttindi fullorðinna einstaklinga, sem eiga að hafa vit á að taka sjálft upplýstar ákvarðanir og tökum því sem sjálfsögðum hlut að láta segja okkur hvenær við megum fara út að borða og eða á mannamót, þar sem að fleiri en 20 manns koma saman.

Ég sé ekki rökin fyrir því að reglur séu svona stífar núna, ef að heilbrigðisyfirvöld telja að á þessu ári 2021 verði þjóðin bólusett. Nú þegar er búið að bólusetja stærstan hluta af viðkvæmustu hópunum og því eru engin rök fyrir því að létta ekki á miklum hluta þessara takmarkanna, en nei, höldum bara áfram að taka við fyrirskipunum frá Sóttvarnarlækni og yfirvöldum.

Nú var jú verið að auka við fjölda fólks sem að má fara á leiksýningar, tónleika og í verslanir að kaupa sér ýmsan varninginn, en ennþá mega veitingahús og barir þola miklar hömlur, sem að eiga ekki við rök að styðjast, nema þá helst forræðishyggju.

Í verslunum er fólk að snerta sömu hlutina og þar er engin starfsmaður sem að hleypur á eftir fólki með sprittbrúsann, en á veitingastöðum er því öðruvísi farið. Ég tala af reynslu minna starfsmanna, sem spritta allt í bak og fyrir og vakta að gestir spritti sig, áður en þeir setjast. Matseðillinn er á netinu, þannig að menn kíkja bara í sína eigin síma. Passað er að hafa rétta fjarlægð á milli borða og reynt að fara eftir ýtrustu sóttvarnarreglum. En engu síður er okkur ekki treyst fyrir nema takmörkuðum fjölda gesta -  20 mann í einu og opnunartíma sem að sæmir ekki fullorðnu fólki, að stjórna því á þennan hátt.  Þetta er óásættanlegt. 

Svona höfðum við það í sumar sem leið, pössuðum allt til hins ýtrasta. Það er ekki við okkur að sakast að smitum fór að fjölga aftur.

Fólk gat alveg eins hafa borði milli sín smit í verslunarferðum í Smáralindinni eða Kringlunni þar sem að menn voru á ferðinni, eins og inni á veitingastöðum og því frekar, þar sem erfitt var að stjórna hvar fólk var statt inn í verslunum. 

En nú eru aðstæður betri en í sumar sem leið, en þá var ekki einu sinni tilbúið bóluefnið, en nú erum við byrjuð að bólusetja og því er komin tíminn til að að þessum íþyngjandi boðum og bönnum linni.  

Niðurlag - Tek fram að það eru aðgerðir Ríkisstjórnarinnar og Sóttvarnarlæknis innanlands sem ég er ósátt við - en ekki aðgerðir á landamærum, eins og málum er háttað í Evrópu nú. 


Ríkið gefur Skattinum ansi rúman tíma í að afgreiða tekjufallsstyrkina - allt að tveimur mánuðum

Og á meðan eiga sumir ekki salt í grautinn. Bjarni Ben tilkynnti í enda nóvember síðast liðinn að tekjufallsstyrkirnir ættu að verða tilbúnir til umsóknar í byrjun desember, en það dróst fram í janúar, því vissulega þurfti þingheimur að fara í gott jólafrí, enda uppgefnir. 

Nú er allt á hvolfi hjá Skattinum að afgreiða þessa styrki út og eins ég nefndi í fyrirsögninni, þá er þeim gefinn mjög rúmur tími í að afgreiða þá. Tekjufallsstyrkirnir miðast við apríl - okt. 2020 og sama tímabil er notað til samanburðar frá árinu áður 2019, til að finna út tekjutapið.

Síðan í kjölfarið eiga að koma til svokallaðir Viðspyrnustyrkir, sem að telja tímabilið nóv - des 2020 og jan - mai 2021, þeir eru ekki tilbúnir til umsóknar, en meiningin er að þá eigi að afgreiða mánuð fyrir mánuð og því hefið verið eðlilegt að þeir hefðu verið tilbúnir til umsóknar ekki seinna en í jan. 2021 - en sú er ekki raunin. 

Þessir tímar eru miklir óvissutímar og engin veit með vissu, hvenær hagkerfið mun taka við sér, hvenær þjóðirnar hafa náð tökum á þessum faraldri. Við Íslendingar höfum oft komist langt á því að segja, "Þetta Reddast" og hvað annað á maður svo sem að segja. 

Ég vil ekki vanþakka það sem verið er að gera til að koma til móts við fólk og fyrirtæki í landinu, en vil samt brýna Stjórnvöld og segja, við byrgjum ekki brunninn eftir að barnið er dottið í hann. Því þarf að skoða og laga til fyrri aðgerðir og vil ég þar nefna til Stuðningslánin sem detta inn til afborganna í byrjun næsta árs og afborganir af lánunum úr Ferðaábyrgðasjóði detta inn 1.mars 2021, Þetta er brjálæði sem að engin ræður við. Eins mætti bara fjölga starfsmönnum tímabundið hjá Skattinum, ef það er orsökin á þessum seinagangi, það er jú nóg af fólki sem að er að mæla göturnar og vantar vinnu, ég segi bara svona 

 


Er SAF ekki að gagnast einyrkjum og litlum fyrirtækjum í ferðaþjónustu?

Nú á dögunum, seint í september 2020 varð til grúppa á Facebook, þar sem að einyrkjar og smærri fyrirtæki í ferðaþjónustunni söfnuðust inn í. Á ekki löngum tíma taldi grúppan yfir 300 einyrkja og fyrirtæki. Maður spyr sig hvort óánægja sé hjá þessum aðilum með yfirlýsingar SAF um aðgerðir Stjórnvalda til handa ferðaþjónustunnar, en SAF hafði lýst því yfir í sumar að þær hefðu gagnast flestum fyrirtækjum innan greinarinnar vel, en er það svo?

Fyrir grúppunni fara 3 einstaklingar og hafa þau unnið ötullega að því að kalla eftir tillögum frá meðlimum grúppunnar, hvað þeir vilji koma á framfæri við stjórnvöld, sem myndi gagnast þessum aðilum betur, því að staðreyndin er sú, þrátt fyrir ánægju SAF með aðgerðirnar, þá gagnast þær illa, eða bara alls ekki þessum litlu aðilum, sem eru þó u.þ.b. 85% af allri ferðaþjónustu á Íslandi. 

Ég get ekki betur séð en að SAF hafi sofið á vaktinni gagnvart þessum einstaklingum og fyrirtækjum, en einbeitt sér að risunum á markaði, sem að nóta bene Lífeyrissjóðirnir eiga stóran, ef ekki stærstan hluta í. Það vekur furðu mína, að þessi risafyrirtæki, sem að hafa geta greitt hluthöfum sínum miljarða í arð og eiga mikið eigið fé, hafi þurft svona mikinn stuðning og tekið stærstan hluta að þeirri upphæð sem að ætluð er til stuðnings atvinnulífinu. 

Menn geta jú fært fyrir því rök að Stjórnvöld verði að gæta jafnræðis í sínum aðgerðum gagnvart atvinnulífinu, er er þetta jafnræði? Reglurnar sem smíðaðar hafa verið í kring um aðgerðir Stjórnvalda gera þessum stóru fyrirtækjum mjög auðvelt að sækja í stuðninginn, en hamla hins vegar litlu aðilunum að sama skapi.

Það jákvæða í þessu öllu er þó það, að nú í byrjun desember voru þeir sem fara fyrir grúppunni kallaðar á fund hjá Efnahags-og Viðskiptanefnd til að kynna sínar tillögur fyrir nefndinni og virtist vera vilji til að heyra þær breytingatillögur sem að grúppan leggur til, í sambandi við væntanlega tekjufallsstyrki og síðan viðspyrnustyrkina. tilögur 1  og Minnisblað lagt fyrir Efnahags-og Viðskiptanefnd

Ég bíð því spennt að sjá hvernig breytingarnar munu gagnast litlu fyrirtækjunum og einyrkjunum þegar að opnast fyrir umsóknirnar þann 17.des. Vonandi hafa þeir verið lagaðir að þörfum sem flestra sem eru starfandi í þessari mikilvægu grein "ferðaþjónustunni" sem að bjargaði Íslandi upp úr síðustu kreppu og hver veit nema sú verði raunin aftur, þegar að heimurinn opnast. 


Samkeppniseftirlitið deilir sjónarmiðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Ferðaþjónustu til Stjórnvalda

 
Má segja að í þessu bréfi fari sjónarmið smærri ferðaþjónustuaðila og samkeppniseftirlitsins vel saman. 
 
Bjarnheiður Jóhannsdóttir skrifar í pistli inni á facebook grúppu
"Samstaða smærri fyrirtækja og einyrkja í ferðaþjónustu"
 
"Staða ferðaþjónustunnar og stuðningur hins opinbera
Mig langar að koma fram með sjónarhorn sem mér finnst hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá bæði Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa / Icelandic Tourist Board í þeirra umfjöllun um stöðuna og framtíðina í greininni.
Þær aðgerðir sem ríkið hefur staðið fyrir vegna covid og gagnast ferðaþjónustu, eins og öðrum greinum, hafa stutt við nokkurn hóp ferðaþjónustufyrirtækja, mestmegnis miðlungs stór fyrirtæki (á íslenskan mælikvarða), ein einnig nýst þeim stærstu, Þau hafa stærðar sinnar vegna óneitanlega fleiri bjargráð en þau minni, varðandi fjármögnun.
Litlu fyrirtækin hafa setið dálítið eftir. Stuðningslán hafa eflaust nýst einhverjum þeirra, en þó tæplega ráðið úrslitum, því ekki var um stóra mögulega upphæð að ræða, miðað við veltu fyrirtækjanna.
 
Tekjufalls- og viðspyrnustyrkirnir hafa verið útfærðir á dálítið ósanngjarnan máta, að því leyti að þak á stuðning á að miða við laun og reiknað endurgjald á hverjum tíma, en mörg minnstu fyrirtækin eru með talsvert af útvistuðum verkefnum, s.s. bókhald, markaðsmál og fleira, á meðan stærri fyrirtæki eru með þessi störf innan dyra. Þannig myndast skekkja. Eins er umhugsunarefni hvort endilega eigi yfirleitt að hengja stuðninginn við störf, en kannski meira við tekjufall almennt. Tæknilega eru þessar lausnir þannig að það þarf að verja talsverðum tíma í að lesa sig í gegnum reglurnar til að skilja þær. Skatturinn hefur m.a. misskilið og oftúlkað/rangtúlkað lög sem fram hafa komið, en sem betur fer hafa þingmenn veitt aðhald og komið í veg fyrir mistök Skattsins. Gott og vel, kannski ágætt að hafa tekjufallsstyrkinn af þessum toga, en hvers vegna líka viðspyrnuna?
 
Ég hef ekki séð góðan rökstuðning fyrir því að það þurfi endilega að miða við laun eða reiknað endurgjald, en ekki annan rekstrarkostnað, við styrkveitingar. Það er nefnilega ekki lengur verið að verja störf, þau eru feykilega mörg farin í bili og það þarf að einbeita sér að því að verja innviði fyrirtækjanna næst, þannig að þeir hverfi ekki líka. Kannski hefði þessi aðferð virkað betur fyrr í faraldrinum, en það lifir ekkert fyrirtæki í nærri ár með fólk á launaskrá, en engar tekjur.
Sértæku aðgerðirnar fyrir ferðaþjónustuna hafa ekki verið ýkja margar, en þó nokkrar, í formi markaðssetningar og ímyndarmála. Ekki með beinum stuðningi við fyrirtækin, heldur undir hatti Íslandsstofu og markaðastofanna. Sumt heppnast vel og skilað sér, en annað kannski ekki eins vel, enda erfitt að skipuleggja markaðsstarf í miðjum heimsfaraldri.
En hvaða áhrif hefur það að láta litlu aðilana sitja eftir?
Það eru allskonar fyrirtæki í ferðaþjónustu, allt frá gistingu í heimahúsum, veitingum, menningarstarfsemi og flúðasiglingum, til alls lags sérhæfðrar þjónustu við einstaklinga og hópa á ferðinni. Eðlilega eru hlutfallslega fleiri af aðilunum á landsbyggðinni litlir og jafnvel ekki opið alveg allt árið, á meðan öfugri aðilarnir eru frekar í þéttbýli og tengdir fjölförnum stöðum, s.s. Gullna hringnum. Ef aðilum í dreifðari byggðum fækkar vegna ástandsins og skorts á heppilegum stuðningi, þá má búast við að nokkrir hlutir gerist samhliða.
 
1. Fjölförnu leiðirnar verða fyrir meiri ágangi, þar sem valkostum fækkar, sem þýðir að fleiri ferðamenn fá ekki þá upplifun af landinu sem þeir eru að leita að.
2. Einn aðal markhópur í ferðaþjónustunni, „sjálfstæði landkönnuðurinn“ kemst ekki ferða sinna, nema yfir stutt tímabil á árinu og ekki eins víða um landið og áður. Jafnvel þótt hann finni gistingu, er hætta á því að hann skilji líka minna eftir sig, þar sem þjónusta við hann að öðru leyti er minni.
3. Sérstaða og þjónustufjölbreytni í ferðaþjónustu á Íslandi minnkar verulega og þannig tapast verðmætar syllur á markaði, sem jafnvel hefur tekið langan tíma að byggja upp.
4. Færri gestir sem hingað koma kynnast venjulegum Íslendingum, sem geta boðið persónulega þjónustu, smæðar sinnar vegna.
5. Annars konar þjónusta á landsbyggðinni, sem hefur talsverðar tekjur af ferðamönnum, þótt hún þjóni einnig heimamönnum, mun þurfa að draga saman seglin. (t.d. bílaverkstæði og matvöruverslanir).
6. Með mikilli fækkun fyrirtækja í ferðaþjónustu tapast viðskiptasambönd og þekking í miklum mæli, sem mun taka langan tíma að byggja upp aftur.
 
Þeir sem starfa í hefðbundnum greinum, þar sem innviðirnir eru fasteignir og tæki eiga kannski erfitt með að átta sig á því hvar verðmætin liggja í ferðaþjónustunni. Félagslynt fólk, persónuleg tengsl, markaðsefni, sérstaða, þekking á menningarheimum, gott skipulag, reynsla af akstri í ófærð, húmor, hlýja, þekking á náttúrunni og sögunni, þetta eru allt perlurnar sem skapa verðmætin, en ekki rúturnar og hótelin, sem slík.
Ég varð satt að segja ansi hissa þegar ég sá viðtal við ferðamálastjóra í síðustu viku, þar sem hann taldi greinina geta hrokkið hratt í gang aftur. Það er gríðarmikið horfið af viðskiptatengslum, mikið horfið af hæfni í formi starfsfólks og það er nánast búið haustið, sem er jú tíminn til að markaðssetja næsta ár. Tengslin eru ekki aðeins brotin hér á landi, heldur hafa ferðaskrifstofur erlendis misst mikið af sínu fólki og ekki sjálfgefið að nýtt starfsfólk þeirra kaupi Ísland við fyrsta símtal.
Ég held að það sé kominn tími til að taka niður rósrauðu gleraugun. Auðvitað tökum við sem á annað borð lifum þetta af á honum stóra okkar þegar allt fer í gang, en það verður eitthvað svolítið fátæklegra um að litast. Hið opinbera má líka virkilega fara að bretta upp ermarnar og fara að beita fleiri meðulum. Eins má gjarnan fara að horfa til bankanna, þeir hafa setið svolítið hjá í þessu öllu. Nema reyndar að þeir hafa verið að leysa til sín fyrirtæki…sem er ekki að hjálpa greininni neitt."
 
Birt með leifi Bjarnheiðar Jóhannsdóttur og hefur hún kæra þökk fyrir

Lokunarstyrkir ekki fyrir ferðaþjónustuaðila og veitingastaði.

Við þurftum að skella í lás í október, reyna að klára sem mest af okkar birgðum, slökkva á öllum þeim tækjum sem við gátum, til að spara rafmagn, skila inn sorpílátum, sem kostað okkur tæp 45.000 kr. 4000 kr. fyrir að smúla hverja tunnu. Engu síður er kostnaður af afgreiðslukerfi og fl. sem ekki er hægt að skila inn, þar sem allar rekstraupplýsingar fyrirtækisins eru inni á vef þjónustuaðila. Það er síðan ekki alveg einfalt að opna aftur, það þarf meira en bara að opna dyrnar. Þetta er veitingastaður og það fylgir því mikill kostnaður að starta opnun aftur. Þetta held ég að menn geri sér almennt ekki grein fyrir.

Ríkisstjórnin skipaði okkur ekki að loka, en 10 manna hámark viðskiptavina gerir veitingastöðum algjörlega ókleift að hafa opið. Það er mun dýrara að hafa opið en lokað með þeim takmörkunum sem að eru í gildi. Þetta er patt staða sem enginn óskar sér að vera í. Ábyrgð Ríkisins er algjör í þessum efnum, og þeim væri nær að kalla þessa styrki sínu rétta nafni, bætur til handa atvinnulífinu, bara rétt eins og atvinnuleysisbætur eru kallaðar bætur, sem sagt réttur fólks til bóta, til að geta lifað.

Ég er vissulega ánægð með að þessar auglýstu aðgerðir, sem Ríkisstjórnin kynnti sé á leið í gagnið, en undraðist að ekki voru neinir fjölmiðlar sem máttu beina spurningum að þessum fjórum ráðherrum. Ég hefði t.d. viljað fá betri útlistanir á ráðningastyrkjunum, hvernig þeim verður úthlutað og hvenær. Engu síður finnst mér enn þá vanta uppá, eins og t.d. að víkka út hverjir geta sótt um lokunarstyrkina, en einnig varðandi stuðningslánin, það þarf að lengja verulega í þeim. Þau lán verða að vera þolinmótt fé, ekkert fyrirtæki mun geta greitt það niður á þeim hraða sem upp er settur. Það er ég alveg viss um.

En vonandi komast þessar aðgerðir hratt og vel í gangið. Sjáum hvað setur. 

 


Tekjufallsstyrkir, sem ætlaðir voru litlum fyrirtækjum og einyrkjum opnir fyrir alla!

Nú í endann nóvember munu mörg fyrirtæki fara á gapastokkinn, fjölda-eignaupptaka mun eiga sér stað. Lán sem að fóru í frystingu i marz síðastliðinn, duttu inn aftur í byrjun október og bankarnir fengu frjálsar hendur með hvað gera ætti við þessa skuldara. 

Ennþá eru úrræði Ríkisstjórnarinnar á hraða snigilsins, ennþá er verið að föndra saman leiðir, ennþá verða minnstu rekstraraðilarnir í ferðaþjónustunni fyrir barðinu á þessari bið, sem mun kosta marga allt. 

Útlit er fyrir að þeir fjármunir sem ætlaðir eru í væntanlega tekjufalls-styrki fara að mestu í vasa þeirra sem ekki flokkast sem litlir rekstraaðilar, þar sem að ekkert þak er á hversu stórt fyrirtækið er, né er neitt þak á ársveltu fyrirtækisins. Því munu fyrirtæki sem hafa kannski 200 starfsmenn, geta sótt um tekjufalls-styrki fyrir allt að 5 starfsmenn, hafi fyrirtækið orðið fyrir því að velta hafi minnkað milli ára, allt að 40%. 

Þar sem að fjármunir þeir sem að ætlað er í þessa styrki eru takmarkaðir, þá munu örugglega færri fá en þurfa og líkur á að það verði þeir sem að minnst hafa, eins og virðist tíðkast svo gjarnan á okkar ástkæra landi. 

Lítil fyrirtæki og einyrkjar gerðu ákall um að á þá yrði hlustað, að skjótt yrði gripið til aðgerða, en þetta óp virðist hljóma eins og aumlegt væl í eyrum þeirra sem hafa afdrif almennings í sínum höndum. Ekki verður opnað fyrr en í desember fyrir umsóknir um tekjufalls-styrki, það passar, því að þá verður búið að keyra nokkra vel útvalda í gjaldþrot. Síðan taka menn sér allt að tvo mánuði til að afgreiða þessi mál, því að vissulega þurfa þau að halda jólin og fá gott frí, í það minnsta tvær vikur, til að safna kröftum í þessi krefjandi verkefni. Ekki er búið að hanna viðspyrnu-styrkina, ætli þeir verði tilbúnir til umsóknar undir vorið 2021?

Þetta eru staðreyndir, en ekki finnst samt Ríkisstjórninni nein þörf á að koma þessum aðilum í skuldaskjól og beina tilmælum sínum til fjármálafyrirtækja að frysta áframhaldandi skuldir þessara fyrirtækja, meðan verið er að vinna í þeirra málum. Einkennileg afstaða, verð ég að segja, eða kannski ekki. Kannski er það stefnan að keyra sem flesta í þrot, þá þarf ekki að styðja við þau fyrirtæki, þau eru ekki lengur til.

Síðan er það önnur saga hvernig þessir styrkir líta út;

Þetta segir  Bjarni Ben í viðtali 16 okt 2020.

„Eins og áður segir er frumvarpinu ætlað að aðstoða einyrkja og litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi og er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna faraldursins og leggja grunn fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.

Tekjufallsstyrkjum er m.a. ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri. Styrkirnir munu jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en geta þó ekki orðið hærri en 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á tímabilinu.“

Þetta er það sem samþykkt hefur verið, er þó ekki tilbúið til umsóknar

Stöðugildi verði skilgreint sem starfshlutfall er jafngildi fullu starfi launamanns í einn mánuð. Í þessu felst að einn launamaður getur í hæsta lagi jafngilt einu stöðugildi enda starfi hann í fullu starfi hjá rekstraraðila í heilan mánuð. Tveir launamenn í hálfu starfi í einn mánuð jafngilda samtals einu stöðugildi. Að sama skapi jafngildir launamaður sem starfar í heilu starfi hjá rekstraraðila hálfan mánuð 50% stöðugildi. Ekki verður talið að einn launamaður geti numið meira en einu stöðugildi í skilningi laganna enda þótt hann vinni í einum mánuði fullt starf auk yfirvinnu.

Með stöðugildi er átt við starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð, sbr. umfjöllun hér að framan um 3. gr. frumvarpsins. Því er ekki endilega samhengi á milli fjölda launamanna, sbr. lög um fjárstuðning við minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, og fjölda stöðugilda. Rekstraraðili getur t.d. haft fimm launamenn en einungis tvö stöðugildi ef fjórir þeirra eru í 25% starfshlutfalli.

Það að tengja Rekstrarstyrki einungis við stöðugildi, hentar afar illa Ferðaþjónustuaðilum, sem að hafa sagt upp sínu starfsfólki og lokað tímabundið til að bíða af sér Covid. Við erum að tala um fyrirtæki sem að lifa af ferðamanninum og nú eins og allir vita, eru fáir eða bara engir ferðamenn. Það er því engin innkoma, en engu síður er enn þá ákveðinn rekstrakostnaður til staðar. Það sem að þessir aðilar þurfa er áframhaldandi frysting lána fram að opnun og einhverja fasta upphæð á mánuði til að þreyja Þorrann. Sem sagt fyrirgreiðslur hjá lánastofnunum og ákveðin styrk á mánuði fyrir föstum kostnaði. Hjá litlum aðilum og einyrkjum þarf það ekki að vera svo mikið, en engu síður kostar mikið að skulda, ef að ekkert kemur inn. Enn og aftur vil ég taka fram að þessu fólki er ekki um að kenna þessi faraldur, né eru þau ábyrg fyrir sóttvarnaraðgerðum Ríkisstjórnarinnar, sem að kemur hvað harðast niður á þessu fólki. Ríkið er fast í að hanna aðgerðir sem að henta ekki litlum fyrirtækjum og einyrkjum í ferðaþjónustu. Það er enginn vilji til að hlusta á þessa aðila, sem hafa þó unnið það starf að þarfagreina þessi fyrirtæki og einyrkja og afhent það Ríkisstjórninni með á þriðja hundrað undirskriftum lítilla rekstraraðila.

Fyrirtæki sem að þarf að hafa lokað, er í 100% tekjufalli, það kemur ekkert inn. Menn spyrja kannski, af hverju að hafa ekki opið þá? Svar: Það eru engir viðskiptavinir. Af hverju ertu þá að streða þetta, láttu þetta bara rúlla!  Jamm, en það þýðir gjaldþrot fyrir marga persónulega og var það ekki það sem menn töluðu um að forðast, að fólk missti allt sitt, heimili sín og afkomu. Við erum að tala um örfyrirtæki, einyrkja sem að eru í persónulegum ábyrgðum. Ríkið er ábyrgt fyrir þeim aðgerðum sem að rændu þetta fólk afkomunni. Það á rétt á bótum.  Taka ber fram að rekstrarstöðvunartryggingar sem sum að þessum fyrirtækjum borga fyrir dýrum dómum, dekka þetta ekki, þú getur ekki tryggt þitt fyrirtæki fyrir heimsfaraldri, frekar en náttúruhamförum. Þar er það alltaf ríkisstjórn hvers lands fyrir sig, sem á að axla þá ábyrgð, ekki einstaklingurinn, eða atvinnulífið eitt og sér.

ENN OG AFTUR – AÐGERÐIR FYRIR EINYRKJA OG LÍTIL FYRIRTÆKI SEM HJÁLPA ÞEIM Í GEGN UM COVID, FRAMUNDAN ERU BETRI TÍMAR, ÞANGAÐ TIL ÞURFUM VIÐ AÐ HALDA LÍFI.

 

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband