Færsluflokkur: Kjaramál

ER VERIÐ AÐ GERA GRÍN AÐ SAUÐSVÖRTUM ALMÚGANUM???

Eftir að hafa skoðað hluthafaskrár hjá N1, Festi og Högum sést að 43 - 73% af eignarhaldi þessa félaga er í eigu hinna ýmsu Lífeyrissjóða. Það vekur hjá mér hugleiðingar um hverjir hafa mesta vægið hjá Samtökum Atvinnulífsins SA og hvernig það megi vera að ASÍ sem á að verja réttindi hins almenna launamanns, fékk það út að það væri kjarabót að semja um hærri prósentu af launaseðlinum til Lífeyrissjóðanna, að það að SA hækkaði mótframlagið á móti gerði í raun einhverja bót á kjörum væntanlegra lífeyrisþega. Þessi gjörningur varð til þess að farið var lengra oní vasa allra þeirra fyrirtækja sem ekki eru í eigu Sjóðanna, en hjá stóru fyrirtækjunum er þetta bara færsla úr einum vasa yfir í hinn, þar sem að þau eru jú að stærstum hluta í eigu Lífeyrissjóðanna.

Þetta er það sem hefur verið að gerast á undanförnum áratug, því að bæði tryggingargjald, sem fer í Ríkiskassann og Vinnumálastofnun og mótframlag til Lífeyrissjóðanna hefur hækkað umtalsvert upp úr kreppunni 2008 og þrátt fyrir loforð um að tryggingargjaldið lækkaði aftur síðar, en það hækkaði í einum vetfangi úr 5,75% í 8,75% í kreppunni, þá hefur ekki tekist að koma því aftur niður fyrir 6% á þessum 14 árum eftir hækkunina.  En eru núverandi lífeyrisþegar í góðum málum? Nei - mig minnir að einmitt margir hafi fengið skertan hlut upp úr þeirri áðurnefndu kreppu 2008. Og í dag þurfa öryrkjar og ellilífeyrisþegar að herja kjarabaráttu sem aldrei fyrr í þvi velferðarþjóðfélagi sem Ísland á að vera. 

En hjá FESTI er forstjórinn með ca 5 miljónir á mánuði í boði Lífeyrissjóðanna sem eiga jú 73% af því félagi. Er það í takt við það sem menn þekkja og hafa sér til lífsviðurværis? 

Haustið 2021 keypti BLÁVARMI félag í eigu 14 lífeyrissjóða, 6,2% hlut í Bláa lóninu, en fyrir áttu þeir 30% og voru þar með komnir með 36,5% í sinn hlut. Kaupverðið var ca 3,8 miljarðar ISK og hefur því komið sér vel á erfiðum COVID tímum.  Eftir því sem ég best man fjárfesti Bláa Lónið einnig í Iceland Air þegar að verið var að bjarga flugfélaginu frá gjaldþroti í Covid kreppunni. Bláa Lónið fékk umtalsverða styrki úr Ríkissjóði, en gátu samt borgað út arð til hluthafa, voru ekki blankari en það. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvort gerð var krafa um einhverja endurgreiðslu á hendur hluthöfunum, en rámar í það þó. 

Það er því augljóst að í öllum stærstu fyrirtækjunum á Íslenskum markaði eiga lífeyrissjóðirnir stóran hlut. Menn líta kannski svo á að það sé þá almenningur sem eigi í þessum fyrirtækjum, þar sem að Sjóðirnir eiga jú að vera í eigu sjóðsfélaga. Það er samt ekki verið að fjárfesti í almenningsþágu, ég get ekki séð það, því að ef hægt er að þrengja að kjörum lífeyrisþeganna á sama tíma og þeir geta verið að fjárfesta á markaði, þá er þetta allt mjög einkennilegt. Eins það að vegna ávöxtunarkröfu Sjóðanna sé það í þeirra reglugerð að ekki megi byggja hjúkrunarheimili og eða íbúðir fyrir aldraða. En það má gamla með sjóðspeningana og fjárfesta í Icaland Air og Bláa Lóninu á tímum Covid. Ekki það að trúlega mun þessi fyrirtæki standa af sér þessa kreppu, enda nóg af fjármagninu þar, alla vega í Bláa Lóninu.  

Hvað er ég að fara með því að spyrja hvort sé verið að gera grín að sauðsvörtum almúganum. Jú - Það er talað um ávöxtunarkröfur lífeyrissjóðanna, eins og það sé í þágu hins almenna borgara, en birtist mér sem leikur á exelskjali, þar sem að topparnir verðlauna sjálfa sig fyrir fallega útkomu á pappír, en ekki á borði lífeyrisþeganna. Ekki má byggja íbúðir fyrir aldraða og ekki má taka á þeim tví-og jafnvel þrísköttunum sem að lífeyrisþegar þurfa að þola. Og lífeyrir þeganna erfist ekki, heldur hirðir sjóðurinn lífeyrinn við dauða lífeyrisþegans að mestu leiti, einhver makalífeyrir er í mjög skamman tíma eftir dauða lífeyrisþegans. Sá lífeyrisþegi sem að deyr áður en hann fer að taka út lífeyri tapar öllum sínum lífeyrissparnaði til sjóðsins, að undanskildum séreignarsparnaði. Hvers vegna er ekki öll sú prósenta sem greiðist sannarlega af launaseðli launþegans - 4% - og jafnvel hluti af mótframlagi atvinnurekandans séreign lífeyrisþegans?

Lífeyrissjóðirnir eru í eigu almennings, en gagnast alls ekki sem skyldi, vegna þeirra reglugerða sem þeir hafa sett og bundið sig við. Ekki er mikill vilji til að breyta því fyrirkomulagi sem nú er, hvers vegna er það? Hverjir græða mest á núverandi fyrirkomulagi og reglugerð um lífeyrisgreiðslur, reglugerð um ávöxtunarkröfur og reglugerð um í hverju má fjárfesta og hverju ekki? ÞAÐ ER STÓRA SPURNINGIN!

   

 

 


Umræðan fyrir kosningar

Ég var að hlusta á Silfrið í gær, þar sem að formenn stjórnmálaflokkanna komu saman ásamt spyrlum. Náði í þáttinn á appið hjá RÚV. Það sló mig hvað bæði Samfylkingin og Píratar tala niður ferðaþjónustuna sem mikilvæga atvinnugrein og þeirra megin áhersla væri nýsköpunarfyrirtæki, menning og listir. Eins og ferðaþjónustan á Íslandi hafi ekki neina nýsköpun innanborðs, menningu og listir.

Þegar að ferðamönnum fór að fjölga ört á Íslandi, spruttu upp fyrirtæki um allt land, til að mæta þessari eftirspurn fyrir þjónustu og alls konar frumkvöðla-, menningar- og nýsköpun í greininni varð til. En hjá formanni Píratar var ekki að heyra að hún hafi orðið vör við það.

Okkar fyrirtæki varð til árið 2000 sem leirkeraverkstæði og við erum fyrst og fremst listafólk, ég og maðurinn minn. Við höfum unnið saman í list okkar í yfir 20 ár og Eldstó varð til sem ferðaþjónustufyrirtæki í kring um okkar list, hugsað sem upplifun, fyrst og fremst, ekki með neinar hugmyndir um að verða risastór á markaði, heldur vildum við getað haft af því okkar lifibrauð, og haldið áfram að vinna að okkar list saman, hjónin. 

Börnin okkar, orðin fullorðin nú öll, hafa tekið þátt í þessu með okkur, meðfram því að mennta sig. Við erum fjölskyldufyrirtæki og mörgum þykir það afar sjarmerandi, finnst vera tekið persónulega utan um sig, njóta þess að vera í fallegu umhverfi, þar sem passlega margir eru á staðnum. 

Það sem að okkur sem að erum ekki í miljarða-viðskiptum, þykir erfitt og afar ósanngjarnt, er umræðan um okkur sem stöndum í fyrirtækjarekstri. Upp til hópa er er umræðan sú að við séum gírug og jafnvel glæpamenn, sem að hugsum ekki um annað en að græða á hinum lágt-launaða starfshópi sem að vinnur við greinina. Vil ég samt nefna hér, að mörg af þessum smáfyrirtækjum, hafa aldrei greitt eigendum sínum arð, þar sem að það kostar mjög mikið að byggja upp fyrirtæki, sem á að blómstra og uppfæra sig - til að vera gjaldgeng á markaði. 

Þetta hljómar kannski sem væl í eyrum sumra, en engu síður er þetta sannleikurinn. Ekki allir komast í feitan tékka hjá Ríkinu, ekki geta allir verið Ríkisstarfsmenn. Allskonar fólk er til, og margir hafa þann draum að geta skapað sér og sínum lífsviðurværi á eigin vegum. Einkaframtakið er dýrmætt, þar kemstu að því hvers þú ert megnugur, allt stendur og fellur með þínum ákvörðunum og getu, en ekki síður því umhverfi sem þú ert í, þá á ég við að fólki sé gert kleift að byggja upp fyrirtæki, að þau fái meðbyr sér til hjálpar í byrjun.

Ég tel það bráðnauðsynlega aðgerð að hækka skattleysismörkin upp að 300.000 kr til að ná meiri sátt á vinnumálamarkaði, þar sem að ekki er neitt svigrúm til launahækkana, umfram það sem um er samið. Lág laun eru ofurskattlögð, þessa peninga ætti frekar að sækja í hærri sköttum á ofur-arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem eru stór á markaði, sem og fjármálastofnunum. Því eins og ég nefndi, þá eru mörg þessi smáfyrirtæki ekki aflögufær um að greiða nokkurn arð til sinna eigenda, allt fer aftur í rekstur og viðhald. 

Fjármagnseigendur eru í lykilstöðu til að velja hvernig þeir borga sína skatta, hvort þeir greiði sér ofurlaun, eða ofurarð. Og valið hlýtur að vera þar sem að skattprósentan er lægri. En það virðist vera þannig, þegar að nýir skattstofnar verða til, að þá bitni það oftast á þeim sem að minnst hafa og miðstéttinni, hina ofurríku má ekki styggja. 

Fjármagnið er því með ofurhraða að safnast á æ færri hendur, jú og peningar hafa völd, það er víst deginum ljósara. 

En stóra spurningin er, hafa Stjórnmálamenn og flokkar, kjark til þess að styggja fjármagnseigndur, eða hafa þeir verið keyptir. 


Að gefnu tilefni og vissulega mjög þörf umræða

Takk fyrir viðbrögðin við fyrri færslu minni, þetta er þörf umræða. Ég er sjálf mjög hissa og ósátt með hvernig staðið er að þessu hjá Vinnumálastofnun. Eins og ég nefndi í blogginu mínu, þá fæ ég sem atvinnurekandi senda ferilskrá viðkomandi og ber mér síðan að reyna að ná í þann atvinnulausa, ef mér lýst svo á. Oft eru þetta afleitar ferilskrá, hvorki með símanúmeri, eða þá kannski röngu símanúmeri og netfangi, eða jafnvel ekki. Engar kennitölur og jafnvel oft ekki aldur viðkomandi, ef það er ekki nefnt í ferilskránni. 

Mér þykir það skrítið að það sé í höndum atvinnurekenda að reyna að ná sambandi við fólk sem er atvinnulaust, því ætti að vera öfugt farið, já það ættu að vera starfsmenn Vinnumálastofnunar sem tala við fólk og sendir í viðtöl. Þá gæti viðkomandi hafnað vinnu áður en í viðtalið er haldið með rökum um hvers vegna. Þau rök gætu vissulega ekki verið að það sé betra að vera á bótum. En fjarlægðir, vinnutími og þess háttar ætti að gilda, þar sem að aðstæður eru mismunandi hjá fólki. Þetta þýðir að starfsmenn Vinnumálastofnunnar þurfa að vinna vinnuna sína og ef að Stofnunin hefur ekki nægan mannskap, þá er jú fullt af fólki atvinnulaust og hlýtur að vera hægt að fá einhverja til vinnu hjá Stofnuninni, skapa störf til að skapa störf.

Það er algjörlega afleitt að menn telji að laun séu ekki þess virði að vinna fyrir, en atvinnuleysisbætur eru ekki hugsaðar til að koma í staðinn fyrir léleg laun, þær eru hugsaðar sem tímabundin lausn fyrir fólk í atvinnuleit. 


Formaður VR tjáir sig um seinagang Ríkisins

"Þau vita, þau geta en ekkert gerist"

"Ragnar Þór Ingólfsson skrifar 25. janúar 2021 09:30
Síðustu mánuði höfum við í VR brýnt fyrir stjórnvöldum mikilvægi þess að fara í aðgerðir til að bregðast við tekjufalli þeirra sem misst hafa atvinnu. Við höfum ítrekað gert grein fyrir alvarleika málsins og hvaða langvarandi afleiðingar það mun hafa á 26.473 einstaklinga, og fjölskyldur þeirra, sem nú eru án atvinnu að hluta eða öllu leyti, ef ekkert verður gert." Sjá frétt
 
Ég vil benda formanni VR að á bak við fjölda lítilla fyrirtækja er fólk sem þarf líka að lifa, borga af persónulegum skuldum, bara eins og hver annar. Þetta fólk er sumt hvert að reka sín fyrirtæki á sinni persónulegu kennitölu, svo ekki er nú auðvelt að nota hið margnefnda kennitöluflakk þar, eins og margir vilja meina að eigi að vera svo auðvelt. Síðan eru það þeir aðilar sem að reka fyrirtæki á fyrirtækja-kennitölu, en eru engu síður í persónulegum ábyrgðum og með allt undir, heimili og lifibrauð. Laun skapast af vinnu og það eru skrítnar áherslur að gaspra þannig, eins og hagsmunir einstaklinga og atvinnulífsins séu eitthvað sitt hvað.
 
 
Á fyrirtækja markaðinum eru lítil og meðalstór fyrirtæki alls ekki boðin að sama næktarborði og þessi stóru. Við höfum ekki greiðan aðgang að fjármagni, bara ef við opnum munninn.

Það er því orðið mjög þreytt að þurfa að hlusta á þessa umræðu, sem að lítil þekking er á málefninu. Spurning er, í hvernig þjóðfélagi viljum við lifa. Eiga bara að vera risar á fyrirtækjamarkaðinum, en enginn möguleiki fyrir skapandi einstaklinga með góðar hugmyndir, til að skapa atvinnu sjálfum sér og öðrum?
 
Það er ekki boðlegt að þurfa að hlusta á veraklíðsfélögin tala til okkar sem að stöndum í atvinnurekstri, eins og við séum með það að sérstöku áhugamáli að arðræna fólk. Launavandinn er mun djúpstæðari en það. Það er skattkerfið sem að er meingallað og kafar alltof djúpt niður í vasana hjá þeim sem að lítið hafa. Það ætti að vera sameiginlegt áhugamál okkar allra, að lámarkslaun og lífeyrir sé ekki skattlagður til Helvítis og afsakið orðalagið, en mér verður bara óglatt að hugsa til hvað sumar hafa mikið meira en þeir þurfa, á meðan að aðrir varla skrimta. Þar er það Ríkisvaldið sem að ber ábyrgðina og  líka lífeyrissjóðirnir, sem semja um hærri iðngjöld inní sameignarsjóði Lífeyrissjóðanna, upphæðir sem erfast ekki, ef við nú hrökkvum upp af áður en við getum nýtt lífeyrisréttindin, enda eru þeir stórir hluthafar í stærstu fyrirtækjum landsins og sitja þar með báðum megin við borðið. Þannig geta þeir kafað dýpra í vasann á öllum öðrum fyrirtækjum, en launþeginn fær lítið sem ekkert út úr þeim gjörningi. Það væri nær að Veraklíðsfélögin og SA færu að einbeita sér að því að fá tekjuskattslækkanir - þar sem að skattleysismörkin lægju við 300 þús áður en menn færu að greiða tekjuskattinn. Það kæmi til baka í neyslusköttum fyrir Ríkið, það er alveg víst. 
 
Já og eins og ég nefndi áður, að þá er fólk sem rekur lítil og meðalstór fyrirtæki, sum hver ekki búin að fá neina aðstoð vegna sinna fyrirtækja, allt árið 2020, þar sem að þau úrræði sem hönnuð hafa verið, hafa holur sem margir falla í. Þetta fólk þarf líka að lifa, en hætta er á að það missi ekki bara fyrirtæki, vinnu og lifibrauð, heldur líka heimili sín. 

Ríkið gefur Skattinum ansi rúman tíma í að afgreiða tekjufallsstyrkina - allt að tveimur mánuðum

Og á meðan eiga sumir ekki salt í grautinn. Bjarni Ben tilkynnti í enda nóvember síðast liðinn að tekjufallsstyrkirnir ættu að verða tilbúnir til umsóknar í byrjun desember, en það dróst fram í janúar, því vissulega þurfti þingheimur að fara í gott jólafrí, enda uppgefnir. 

Nú er allt á hvolfi hjá Skattinum að afgreiða þessa styrki út og eins ég nefndi í fyrirsögninni, þá er þeim gefinn mjög rúmur tími í að afgreiða þá. Tekjufallsstyrkirnir miðast við apríl - okt. 2020 og sama tímabil er notað til samanburðar frá árinu áður 2019, til að finna út tekjutapið.

Síðan í kjölfarið eiga að koma til svokallaðir Viðspyrnustyrkir, sem að telja tímabilið nóv - des 2020 og jan - mai 2021, þeir eru ekki tilbúnir til umsóknar, en meiningin er að þá eigi að afgreiða mánuð fyrir mánuð og því hefið verið eðlilegt að þeir hefðu verið tilbúnir til umsóknar ekki seinna en í jan. 2021 - en sú er ekki raunin. 

Þessir tímar eru miklir óvissutímar og engin veit með vissu, hvenær hagkerfið mun taka við sér, hvenær þjóðirnar hafa náð tökum á þessum faraldri. Við Íslendingar höfum oft komist langt á því að segja, "Þetta Reddast" og hvað annað á maður svo sem að segja. 

Ég vil ekki vanþakka það sem verið er að gera til að koma til móts við fólk og fyrirtæki í landinu, en vil samt brýna Stjórnvöld og segja, við byrgjum ekki brunninn eftir að barnið er dottið í hann. Því þarf að skoða og laga til fyrri aðgerðir og vil ég þar nefna til Stuðningslánin sem detta inn til afborganna í byrjun næsta árs og afborganir af lánunum úr Ferðaábyrgðasjóði detta inn 1.mars 2021, Þetta er brjálæði sem að engin ræður við. Eins mætti bara fjölga starfsmönnum tímabundið hjá Skattinum, ef það er orsökin á þessum seinagangi, það er jú nóg af fólki sem að er að mæla göturnar og vantar vinnu, ég segi bara svona 

 


Er SAF ekki að gagnast einyrkjum og litlum fyrirtækjum í ferðaþjónustu?

Nú á dögunum, seint í september 2020 varð til grúppa á Facebook, þar sem að einyrkjar og smærri fyrirtæki í ferðaþjónustunni söfnuðust inn í. Á ekki löngum tíma taldi grúppan yfir 300 einyrkja og fyrirtæki. Maður spyr sig hvort óánægja sé hjá þessum aðilum með yfirlýsingar SAF um aðgerðir Stjórnvalda til handa ferðaþjónustunnar, en SAF hafði lýst því yfir í sumar að þær hefðu gagnast flestum fyrirtækjum innan greinarinnar vel, en er það svo?

Fyrir grúppunni fara 3 einstaklingar og hafa þau unnið ötullega að því að kalla eftir tillögum frá meðlimum grúppunnar, hvað þeir vilji koma á framfæri við stjórnvöld, sem myndi gagnast þessum aðilum betur, því að staðreyndin er sú, þrátt fyrir ánægju SAF með aðgerðirnar, þá gagnast þær illa, eða bara alls ekki þessum litlu aðilum, sem eru þó u.þ.b. 85% af allri ferðaþjónustu á Íslandi. 

Ég get ekki betur séð en að SAF hafi sofið á vaktinni gagnvart þessum einstaklingum og fyrirtækjum, en einbeitt sér að risunum á markaði, sem að nóta bene Lífeyrissjóðirnir eiga stóran, ef ekki stærstan hluta í. Það vekur furðu mína, að þessi risafyrirtæki, sem að hafa geta greitt hluthöfum sínum miljarða í arð og eiga mikið eigið fé, hafi þurft svona mikinn stuðning og tekið stærstan hluta að þeirri upphæð sem að ætluð er til stuðnings atvinnulífinu. 

Menn geta jú fært fyrir því rök að Stjórnvöld verði að gæta jafnræðis í sínum aðgerðum gagnvart atvinnulífinu, er er þetta jafnræði? Reglurnar sem smíðaðar hafa verið í kring um aðgerðir Stjórnvalda gera þessum stóru fyrirtækjum mjög auðvelt að sækja í stuðninginn, en hamla hins vegar litlu aðilunum að sama skapi.

Það jákvæða í þessu öllu er þó það, að nú í byrjun desember voru þeir sem fara fyrir grúppunni kallaðar á fund hjá Efnahags-og Viðskiptanefnd til að kynna sínar tillögur fyrir nefndinni og virtist vera vilji til að heyra þær breytingatillögur sem að grúppan leggur til, í sambandi við væntanlega tekjufallsstyrki og síðan viðspyrnustyrkina. tilögur 1  og Minnisblað lagt fyrir Efnahags-og Viðskiptanefnd

Ég bíð því spennt að sjá hvernig breytingarnar munu gagnast litlu fyrirtækjunum og einyrkjunum þegar að opnast fyrir umsóknirnar þann 17.des. Vonandi hafa þeir verið lagaðir að þörfum sem flestra sem eru starfandi í þessari mikilvægu grein "ferðaþjónustunni" sem að bjargaði Íslandi upp úr síðustu kreppu og hver veit nema sú verði raunin aftur, þegar að heimurinn opnast. 


KPMG gerir fjárhagsgreiningu á stöðu ferðaþjónustunnar í árslok 2019

Það kemur fram í greiningu KPMG að ferðaþjónustan er búin að vera að takast á við sveiflur í gjaldmiðli, sem og önnur áföll á sama tíma og ferðaþjónustuiðnaðurinn hefur farið stækkandi sem atvinnugrein á Íslandi. Íslendingar eru mjög háðir þessari ört vaxandi atvinnugrein, mun meira en menn gerðu sér grein fyrir, ef að horft er til nágrannaríkjanna. Við erum svo fámenn þjóð, að ein og sér getum við illa haldið upp samkeppnishæfri verslun við aðrar þjóðir. Í því ljósi er ferðaþjónustuiðnaðurinn okkur mjög mikilvægur og stór þáttur í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar. 

Það er ánægjulegt að nú á haustdögum virðist vera sem svo að við sem rekum ferðaþjónustufyrirtæki, séum loksins heyrð á hinu háa Alþingi og er það vel. Við erum að verða örlítið bjartsýnni, þar sem að samtal er loksins farið að eiga sér stað, sem og hönnun aðgerða til stuðnings greininni, sem að er þó ekki að fullu lokið.

Eins vekur koma bóluefnis vissulega von um betri tíð og bata í heiminum öllum, von um að geta flogið um háloftin og upplifað kultúr mismunandi landa og heimssvæða. 


Samkeppniseftirlitið deilir sjónarmiðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Ferðaþjónustu til Stjórnvalda

 
Má segja að í þessu bréfi fari sjónarmið smærri ferðaþjónustuaðila og samkeppniseftirlitsins vel saman. 
 
Bjarnheiður Jóhannsdóttir skrifar í pistli inni á facebook grúppu
"Samstaða smærri fyrirtækja og einyrkja í ferðaþjónustu"
 
"Staða ferðaþjónustunnar og stuðningur hins opinbera
Mig langar að koma fram með sjónarhorn sem mér finnst hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá bæði Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa / Icelandic Tourist Board í þeirra umfjöllun um stöðuna og framtíðina í greininni.
Þær aðgerðir sem ríkið hefur staðið fyrir vegna covid og gagnast ferðaþjónustu, eins og öðrum greinum, hafa stutt við nokkurn hóp ferðaþjónustufyrirtækja, mestmegnis miðlungs stór fyrirtæki (á íslenskan mælikvarða), ein einnig nýst þeim stærstu, Þau hafa stærðar sinnar vegna óneitanlega fleiri bjargráð en þau minni, varðandi fjármögnun.
Litlu fyrirtækin hafa setið dálítið eftir. Stuðningslán hafa eflaust nýst einhverjum þeirra, en þó tæplega ráðið úrslitum, því ekki var um stóra mögulega upphæð að ræða, miðað við veltu fyrirtækjanna.
 
Tekjufalls- og viðspyrnustyrkirnir hafa verið útfærðir á dálítið ósanngjarnan máta, að því leyti að þak á stuðning á að miða við laun og reiknað endurgjald á hverjum tíma, en mörg minnstu fyrirtækin eru með talsvert af útvistuðum verkefnum, s.s. bókhald, markaðsmál og fleira, á meðan stærri fyrirtæki eru með þessi störf innan dyra. Þannig myndast skekkja. Eins er umhugsunarefni hvort endilega eigi yfirleitt að hengja stuðninginn við störf, en kannski meira við tekjufall almennt. Tæknilega eru þessar lausnir þannig að það þarf að verja talsverðum tíma í að lesa sig í gegnum reglurnar til að skilja þær. Skatturinn hefur m.a. misskilið og oftúlkað/rangtúlkað lög sem fram hafa komið, en sem betur fer hafa þingmenn veitt aðhald og komið í veg fyrir mistök Skattsins. Gott og vel, kannski ágætt að hafa tekjufallsstyrkinn af þessum toga, en hvers vegna líka viðspyrnuna?
 
Ég hef ekki séð góðan rökstuðning fyrir því að það þurfi endilega að miða við laun eða reiknað endurgjald, en ekki annan rekstrarkostnað, við styrkveitingar. Það er nefnilega ekki lengur verið að verja störf, þau eru feykilega mörg farin í bili og það þarf að einbeita sér að því að verja innviði fyrirtækjanna næst, þannig að þeir hverfi ekki líka. Kannski hefði þessi aðferð virkað betur fyrr í faraldrinum, en það lifir ekkert fyrirtæki í nærri ár með fólk á launaskrá, en engar tekjur.
Sértæku aðgerðirnar fyrir ferðaþjónustuna hafa ekki verið ýkja margar, en þó nokkrar, í formi markaðssetningar og ímyndarmála. Ekki með beinum stuðningi við fyrirtækin, heldur undir hatti Íslandsstofu og markaðastofanna. Sumt heppnast vel og skilað sér, en annað kannski ekki eins vel, enda erfitt að skipuleggja markaðsstarf í miðjum heimsfaraldri.
En hvaða áhrif hefur það að láta litlu aðilana sitja eftir?
Það eru allskonar fyrirtæki í ferðaþjónustu, allt frá gistingu í heimahúsum, veitingum, menningarstarfsemi og flúðasiglingum, til alls lags sérhæfðrar þjónustu við einstaklinga og hópa á ferðinni. Eðlilega eru hlutfallslega fleiri af aðilunum á landsbyggðinni litlir og jafnvel ekki opið alveg allt árið, á meðan öfugri aðilarnir eru frekar í þéttbýli og tengdir fjölförnum stöðum, s.s. Gullna hringnum. Ef aðilum í dreifðari byggðum fækkar vegna ástandsins og skorts á heppilegum stuðningi, þá má búast við að nokkrir hlutir gerist samhliða.
 
1. Fjölförnu leiðirnar verða fyrir meiri ágangi, þar sem valkostum fækkar, sem þýðir að fleiri ferðamenn fá ekki þá upplifun af landinu sem þeir eru að leita að.
2. Einn aðal markhópur í ferðaþjónustunni, „sjálfstæði landkönnuðurinn“ kemst ekki ferða sinna, nema yfir stutt tímabil á árinu og ekki eins víða um landið og áður. Jafnvel þótt hann finni gistingu, er hætta á því að hann skilji líka minna eftir sig, þar sem þjónusta við hann að öðru leyti er minni.
3. Sérstaða og þjónustufjölbreytni í ferðaþjónustu á Íslandi minnkar verulega og þannig tapast verðmætar syllur á markaði, sem jafnvel hefur tekið langan tíma að byggja upp.
4. Færri gestir sem hingað koma kynnast venjulegum Íslendingum, sem geta boðið persónulega þjónustu, smæðar sinnar vegna.
5. Annars konar þjónusta á landsbyggðinni, sem hefur talsverðar tekjur af ferðamönnum, þótt hún þjóni einnig heimamönnum, mun þurfa að draga saman seglin. (t.d. bílaverkstæði og matvöruverslanir).
6. Með mikilli fækkun fyrirtækja í ferðaþjónustu tapast viðskiptasambönd og þekking í miklum mæli, sem mun taka langan tíma að byggja upp aftur.
 
Þeir sem starfa í hefðbundnum greinum, þar sem innviðirnir eru fasteignir og tæki eiga kannski erfitt með að átta sig á því hvar verðmætin liggja í ferðaþjónustunni. Félagslynt fólk, persónuleg tengsl, markaðsefni, sérstaða, þekking á menningarheimum, gott skipulag, reynsla af akstri í ófærð, húmor, hlýja, þekking á náttúrunni og sögunni, þetta eru allt perlurnar sem skapa verðmætin, en ekki rúturnar og hótelin, sem slík.
Ég varð satt að segja ansi hissa þegar ég sá viðtal við ferðamálastjóra í síðustu viku, þar sem hann taldi greinina geta hrokkið hratt í gang aftur. Það er gríðarmikið horfið af viðskiptatengslum, mikið horfið af hæfni í formi starfsfólks og það er nánast búið haustið, sem er jú tíminn til að markaðssetja næsta ár. Tengslin eru ekki aðeins brotin hér á landi, heldur hafa ferðaskrifstofur erlendis misst mikið af sínu fólki og ekki sjálfgefið að nýtt starfsfólk þeirra kaupi Ísland við fyrsta símtal.
Ég held að það sé kominn tími til að taka niður rósrauðu gleraugun. Auðvitað tökum við sem á annað borð lifum þetta af á honum stóra okkar þegar allt fer í gang, en það verður eitthvað svolítið fátæklegra um að litast. Hið opinbera má líka virkilega fara að bretta upp ermarnar og fara að beita fleiri meðulum. Eins má gjarnan fara að horfa til bankanna, þeir hafa setið svolítið hjá í þessu öllu. Nema reyndar að þeir hafa verið að leysa til sín fyrirtæki…sem er ekki að hjálpa greininni neitt."
 
Birt með leifi Bjarnheiðar Jóhannsdóttur og hefur hún kæra þökk fyrir

Lokunarstyrkir ekki fyrir ferðaþjónustuaðila og veitingastaði.

Við þurftum að skella í lás í október, reyna að klára sem mest af okkar birgðum, slökkva á öllum þeim tækjum sem við gátum, til að spara rafmagn, skila inn sorpílátum, sem kostað okkur tæp 45.000 kr. 4000 kr. fyrir að smúla hverja tunnu. Engu síður er kostnaður af afgreiðslukerfi og fl. sem ekki er hægt að skila inn, þar sem allar rekstraupplýsingar fyrirtækisins eru inni á vef þjónustuaðila. Það er síðan ekki alveg einfalt að opna aftur, það þarf meira en bara að opna dyrnar. Þetta er veitingastaður og það fylgir því mikill kostnaður að starta opnun aftur. Þetta held ég að menn geri sér almennt ekki grein fyrir.

Ríkisstjórnin skipaði okkur ekki að loka, en 10 manna hámark viðskiptavina gerir veitingastöðum algjörlega ókleift að hafa opið. Það er mun dýrara að hafa opið en lokað með þeim takmörkunum sem að eru í gildi. Þetta er patt staða sem enginn óskar sér að vera í. Ábyrgð Ríkisins er algjör í þessum efnum, og þeim væri nær að kalla þessa styrki sínu rétta nafni, bætur til handa atvinnulífinu, bara rétt eins og atvinnuleysisbætur eru kallaðar bætur, sem sagt réttur fólks til bóta, til að geta lifað.

Ég er vissulega ánægð með að þessar auglýstu aðgerðir, sem Ríkisstjórnin kynnti sé á leið í gagnið, en undraðist að ekki voru neinir fjölmiðlar sem máttu beina spurningum að þessum fjórum ráðherrum. Ég hefði t.d. viljað fá betri útlistanir á ráðningastyrkjunum, hvernig þeim verður úthlutað og hvenær. Engu síður finnst mér enn þá vanta uppá, eins og t.d. að víkka út hverjir geta sótt um lokunarstyrkina, en einnig varðandi stuðningslánin, það þarf að lengja verulega í þeim. Þau lán verða að vera þolinmótt fé, ekkert fyrirtæki mun geta greitt það niður á þeim hraða sem upp er settur. Það er ég alveg viss um.

En vonandi komast þessar aðgerðir hratt og vel í gangið. Sjáum hvað setur. 

 


Tekjufallsstyrkir, sem ætlaðir voru litlum fyrirtækjum og einyrkjum opnir fyrir alla!

Nú í endann nóvember munu mörg fyrirtæki fara á gapastokkinn, fjölda-eignaupptaka mun eiga sér stað. Lán sem að fóru í frystingu i marz síðastliðinn, duttu inn aftur í byrjun október og bankarnir fengu frjálsar hendur með hvað gera ætti við þessa skuldara. 

Ennþá eru úrræði Ríkisstjórnarinnar á hraða snigilsins, ennþá er verið að föndra saman leiðir, ennþá verða minnstu rekstraraðilarnir í ferðaþjónustunni fyrir barðinu á þessari bið, sem mun kosta marga allt. 

Útlit er fyrir að þeir fjármunir sem ætlaðir eru í væntanlega tekjufalls-styrki fara að mestu í vasa þeirra sem ekki flokkast sem litlir rekstraaðilar, þar sem að ekkert þak er á hversu stórt fyrirtækið er, né er neitt þak á ársveltu fyrirtækisins. Því munu fyrirtæki sem hafa kannski 200 starfsmenn, geta sótt um tekjufalls-styrki fyrir allt að 5 starfsmenn, hafi fyrirtækið orðið fyrir því að velta hafi minnkað milli ára, allt að 40%. 

Þar sem að fjármunir þeir sem að ætlað er í þessa styrki eru takmarkaðir, þá munu örugglega færri fá en þurfa og líkur á að það verði þeir sem að minnst hafa, eins og virðist tíðkast svo gjarnan á okkar ástkæra landi. 

Lítil fyrirtæki og einyrkjar gerðu ákall um að á þá yrði hlustað, að skjótt yrði gripið til aðgerða, en þetta óp virðist hljóma eins og aumlegt væl í eyrum þeirra sem hafa afdrif almennings í sínum höndum. Ekki verður opnað fyrr en í desember fyrir umsóknir um tekjufalls-styrki, það passar, því að þá verður búið að keyra nokkra vel útvalda í gjaldþrot. Síðan taka menn sér allt að tvo mánuði til að afgreiða þessi mál, því að vissulega þurfa þau að halda jólin og fá gott frí, í það minnsta tvær vikur, til að safna kröftum í þessi krefjandi verkefni. Ekki er búið að hanna viðspyrnu-styrkina, ætli þeir verði tilbúnir til umsóknar undir vorið 2021?

Þetta eru staðreyndir, en ekki finnst samt Ríkisstjórninni nein þörf á að koma þessum aðilum í skuldaskjól og beina tilmælum sínum til fjármálafyrirtækja að frysta áframhaldandi skuldir þessara fyrirtækja, meðan verið er að vinna í þeirra málum. Einkennileg afstaða, verð ég að segja, eða kannski ekki. Kannski er það stefnan að keyra sem flesta í þrot, þá þarf ekki að styðja við þau fyrirtæki, þau eru ekki lengur til.

Síðan er það önnur saga hvernig þessir styrkir líta út;

Þetta segir  Bjarni Ben í viðtali 16 okt 2020.

„Eins og áður segir er frumvarpinu ætlað að aðstoða einyrkja og litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi og er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna faraldursins og leggja grunn fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.

Tekjufallsstyrkjum er m.a. ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri. Styrkirnir munu jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en geta þó ekki orðið hærri en 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á tímabilinu.“

Þetta er það sem samþykkt hefur verið, er þó ekki tilbúið til umsóknar

Stöðugildi verði skilgreint sem starfshlutfall er jafngildi fullu starfi launamanns í einn mánuð. Í þessu felst að einn launamaður getur í hæsta lagi jafngilt einu stöðugildi enda starfi hann í fullu starfi hjá rekstraraðila í heilan mánuð. Tveir launamenn í hálfu starfi í einn mánuð jafngilda samtals einu stöðugildi. Að sama skapi jafngildir launamaður sem starfar í heilu starfi hjá rekstraraðila hálfan mánuð 50% stöðugildi. Ekki verður talið að einn launamaður geti numið meira en einu stöðugildi í skilningi laganna enda þótt hann vinni í einum mánuði fullt starf auk yfirvinnu.

Með stöðugildi er átt við starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð, sbr. umfjöllun hér að framan um 3. gr. frumvarpsins. Því er ekki endilega samhengi á milli fjölda launamanna, sbr. lög um fjárstuðning við minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, og fjölda stöðugilda. Rekstraraðili getur t.d. haft fimm launamenn en einungis tvö stöðugildi ef fjórir þeirra eru í 25% starfshlutfalli.

Það að tengja Rekstrarstyrki einungis við stöðugildi, hentar afar illa Ferðaþjónustuaðilum, sem að hafa sagt upp sínu starfsfólki og lokað tímabundið til að bíða af sér Covid. Við erum að tala um fyrirtæki sem að lifa af ferðamanninum og nú eins og allir vita, eru fáir eða bara engir ferðamenn. Það er því engin innkoma, en engu síður er enn þá ákveðinn rekstrakostnaður til staðar. Það sem að þessir aðilar þurfa er áframhaldandi frysting lána fram að opnun og einhverja fasta upphæð á mánuði til að þreyja Þorrann. Sem sagt fyrirgreiðslur hjá lánastofnunum og ákveðin styrk á mánuði fyrir föstum kostnaði. Hjá litlum aðilum og einyrkjum þarf það ekki að vera svo mikið, en engu síður kostar mikið að skulda, ef að ekkert kemur inn. Enn og aftur vil ég taka fram að þessu fólki er ekki um að kenna þessi faraldur, né eru þau ábyrg fyrir sóttvarnaraðgerðum Ríkisstjórnarinnar, sem að kemur hvað harðast niður á þessu fólki. Ríkið er fast í að hanna aðgerðir sem að henta ekki litlum fyrirtækjum og einyrkjum í ferðaþjónustu. Það er enginn vilji til að hlusta á þessa aðila, sem hafa þó unnið það starf að þarfagreina þessi fyrirtæki og einyrkja og afhent það Ríkisstjórninni með á þriðja hundrað undirskriftum lítilla rekstraraðila.

Fyrirtæki sem að þarf að hafa lokað, er í 100% tekjufalli, það kemur ekkert inn. Menn spyrja kannski, af hverju að hafa ekki opið þá? Svar: Það eru engir viðskiptavinir. Af hverju ertu þá að streða þetta, láttu þetta bara rúlla!  Jamm, en það þýðir gjaldþrot fyrir marga persónulega og var það ekki það sem menn töluðu um að forðast, að fólk missti allt sitt, heimili sín og afkomu. Við erum að tala um örfyrirtæki, einyrkja sem að eru í persónulegum ábyrgðum. Ríkið er ábyrgt fyrir þeim aðgerðum sem að rændu þetta fólk afkomunni. Það á rétt á bótum.  Taka ber fram að rekstrarstöðvunartryggingar sem sum að þessum fyrirtækjum borga fyrir dýrum dómum, dekka þetta ekki, þú getur ekki tryggt þitt fyrirtæki fyrir heimsfaraldri, frekar en náttúruhamförum. Þar er það alltaf ríkisstjórn hvers lands fyrir sig, sem á að axla þá ábyrgð, ekki einstaklingurinn, eða atvinnulífið eitt og sér.

ENN OG AFTUR – AÐGERÐIR FYRIR EINYRKJA OG LÍTIL FYRIRTÆKI SEM HJÁLPA ÞEIM Í GEGN UM COVID, FRAMUNDAN ERU BETRI TÍMAR, ÞANGAÐ TIL ÞURFUM VIÐ AÐ HALDA LÍFI.

 

 

 


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband