Færsluflokkur: Vinir og fjölskylda

Stórfelld eignaupptaka í boði Stjórnvalda

Það lítur út fyrir að stefnt sé í stórfellda eignaupptöku í boði Stjórnvalda. Aðgerðir til hjápar fyrirtækjum í rekstrarvanda vegna sóttvarna eru ómarkvissar og ekki er horft til framtíðar, heldur hafa þær aðgerðir verið plástur á svöðusár.

Ber þar að nefna "stuðningslánið" sem er skammtímalán og var strax fyrirséð að ekki væri hægt að greiða til baka á þeim skilmálum sem uppsett er. Engu síður neyddustu rekstraraðilar að nýta sér þau, þar sem að fjármálastofnanir hafa sett lás á annarskonar útlán til fyrirtækja í þessum mikla og ófyrirséða vanda. Stuðningslánið hefði átt að vera upp sett sem þolinmótt fé, eitthvað í líkingu við hin nýtilkomnu hlutdeildarlán til fyrstu íbúðarkaupa. 

Í seinni bylgju faraldurs virðist lítið sem ekkert að frétta. Þau fyrirtæki sem að geta ekki haldið opnu, lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni, geta illa nýtt sér hlutabótaleiðina. Það eru engir viðskiptavinir og þrátt fyrir hlutabótaleið væri hún þá dýrari heldur en að hafa lokað. Af hverju eru ekki viðskiptavinir, vegna sóttvarna sem ríkið stendur fyrir. 

Þær tryggingar sem að fyrirtækin hafa virka bara ekki, rekstrarstöðvunartryggingu er ekki hægt að kaupa fyrir slíkum aðgerðum og hver er þá ábyrgur. Eru stjórnvöld, Ríkið, ekki þeir sem eiga að hafa samfélagslega ábyrgð, eru það smáfyrirtæki sem eiga að bera slíka ábyrgð?

Við hjónin höfum í 16 ár verið að byggja upp okkar fyrirtæki á landsbyggðinni og erum ekki bóla sem að spratt upp vegna ofurtúristma. Engu síður höfum við þurft að fara í fjárfestingar til að mæta ferðamannastrauminum, til að geta þjónustað betur. Allt okkar er undir, við eigum enga feitar innistæður á Tortúla, við erum bara venjulegt fólk.

Um allt land er bara fólk sem að hefur haft af ferðaþjónustunni sitt lífsviðurværi, lagt hart að sér og unnið mikið. Þetta er ekki gullgröftur, bara svona líf, sjálfstæður atvinnurekstur, ekkert meira, ekkert flókið. Fólk sem að hefur haft kjark og þor og lagt allt sitt undir. Ekki neitt fjárhættuspil, heldur leið til að skapa fjölbreytt atvinnulíf um allt land. Hver bjóst við þessu, jú, Þórólfur kannski, en var þetta í umræðunni fyrir Covid, að þetta væri eitthvað sem almenningur ætti að vera viðbúinn fyrir. Eitthvað sem við ættum að tryggja okkur fyrir, en eins og áður er getið, þá eru ekki slíkar tryggingar í boði. Ef þetta væru náttúruhamfarir, þá væri það "Hamfarasjóður" sem að við gætum gert kröfu á um bætur, en menn forðast það sem heitan eldinn að kalla þetta "hamfarir" en þetta er "Alheims hamfara-farsótt" 

Því vil ég kalla Ríkið til ábyrgðar með að mæta ferðaþjónustufyrirtækjum og þeim fyrirtækjum sem verst hafa farið vegna sóttvarnaráðstafanna, að tala við okkur. Það eru fréttir mörgum sinnum á dag um Covid 19, um fjölda smita og þann vanda sem þar er, en ekkert að frétta um hvernig á að mæta okkar vanda. Við erum líka fólk og ég neita að trúa því að við eigum engan rétt til bóta. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband