Færsluflokkur: Ferðalög
4.8.2023 | 21:20
Enn og aftur missi ég af að sjá gosið !!!
En ekki er öll von úti enn, eftir því sem Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir, enda Reykjanesið lifnað við. Þorvaldur segir að gosið geti aftur á sama stað, eða fært sig, til dæmis í Brennisteinsfjöllin.
Hins vegar er komin Verslunarmannahelgi og fram hjá okkur í Eldstó Art Café (margir stoppa þó og koma við að fá sér veitingar) streymir fólk á Þjóðhátíð í Eyjum, sem og annað sem að hugurinn girnist út úr höfuðborginni.
Ennþá er sumar, þó svo að líðið sé á seinni hlutann og eftir helgina munum við hjónin taka fram Hondurnar okkar (mótorhjólin) og leggja af stað vestur á land. Gott að fara eftir þessa miklu umferðarhelgi, vonum að umferðin verði ekki of þung þá og veður þurrt að mestu. Ég hlakka virkilega til, alltaf gaman að fara á þessum mótorfákum og upplifa þetta frelsi sem mótorhjólafólk kannast við. Sjálf tók ég mótorhjóla prófið í fyrra, en maðurinn minn er búin að vera með sitt próf í áratugi. Finn að ég bý að því að hafa ferðast á fjallahjólum á eigin orku og því tengi ég vel við mótorhjólið og nýt þess að hafa þetta nýja sport.
Þannig - framundan er að heilsa kumpánlega öllu því mótorhjóla fólki sem við komum til með að mæta á ferð okkar um landið á næstunni.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.9.2021 | 11:14
Hvenær fær almenningur sinn stjórnarskrárvarinn einstaklingsrétt aftur?
Í þessu Covid 19 fári hefur undanfarin tvö ár verið smám saman að skerða rétt almennings alltaf meir og meir - þ.e. ferðafrelsi og skikkun á að hafa grímu fyrir vitunum. Þó að stór hluti almennings sé bólusettur, þá er ennþá verið að testa hvort við mögulega höfum Covid, þrátt fyrir að vera fullfrísk og einkennalaus. Hvað gefur stjórnvöldum þennan rétt, ég get ekki séð að hér sé verið að verja neitt, nema kannski valdið yfir almenningi, að sjá hversu langt er hægt að ganga með þessari ofurstjórnun.
Við hjónin fórum í frí í tvær vikur til Teneríve og keyptum flug með Play. Við erum það sem heitir fullbólusett og ég tek það fram, að ég lét einungis bólusetja mig vegna þess fyrirheitis að þá fengi ég aftur stjórn yfir eigin lífi, en ekki vegna ótta við Covíd. Ég hefði kannski bara betur sleppt því að fara í bólusetningu, þar sem það virðist litlu breyta.
Þegar við förum að tékka okkur inn í flugið út, kemur í ljós að ekki var nóg að tékka sig inn á síðu
Play og setja þar inn allar sínar persónuupplýsingar, kyn, aldur, ríkisfang, vegabréfsnúmer, heimilisfang, ástæðu ferðar - heldur áttum við að fylla út nákvæmlega sömu upplýsingar á einhverju öðru appi til að fá einhvern kóða, svo að við mættum fljúga út í frí. En til þess að einfalda málið, lét starfsmaður flugvallarins okkur fá blað til að fylla út og sagði að nóg væri að sýna það á flugvellinum úti við komuna, sem og að við gerðum. Þegar að út var komið dugði þetta ekki og þurfum við að hlaða niður þessu appi og fylla út, til að fá að fara í gegn um flugvöllinn.
Ekki tók svo betra við á leiðinni heim. Ég fór inn á Covid.is til að skoða reglurnar og las mér til um að ekki þyrftu fullbólusettur einstaklingur á þessu PCR testi að halda til að koma heim. Ég tékkaði okkur því inn í flugið áhyggjulaus. Þegar við erum komin að borðinu til að vigta farangurinn og fara í flugið, þá kom nú annað í ljós, því að ekki átti að hleypa okkur úr landi án þessa test, sem að kostar fleiri þúsund krónur að fá og það langa bið að við hefðum misst af fluginu. Ég neitað að hreyfa mig og sagðist ekki fara frá borðinu fyrr en mér yrði hleypt í gegn, ég væri íslenskur ríkisborgari og ef þeir vildu eitthvað test á Íslandi, þá yrði það bara tekið á flugvellinum þar. Þegar ég neitaði að fara frá tékk inn borðinu, var mér hótað lögreglu, en ég var tilbúin að taka slaginn. Ég vissi að ég á stjórnarskrá varinn rétt til að fara heim til mín, þar sem að ég var engin ógn við neinn, né hafði brotið eitthvað af mér. Eftir mikið þref og símhringingar í yfirstjórn Play var ákveðið að hleypa okkur í flugið, en þá vantaði okkur þennan kóða aftur. Við áttum sem sagt að ná í annað app og skrá aftur sömu upplýsingar og þegar að við fórum út. Upplýsingar sem að voru nú þegar til staðar og ég bara skil ekki þessa þvælu, vegabréfið og flugmiðinn ætti að vera alveg nóg. Þegar að heim var komið, var svo tekið test á flugvellinum, sem var að sjálfssögðu neikvætt, enda við fullfrísk.
Eigum við almenningur að sætta okkur við þetta. Hvenær ætlar almenningur að segja að nú sé komið nóg af þessu skrifræði og sviptingu á borgaralegum réttindum okkar allra.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2020 | 14:22
KPMG gerir fjárhagsgreiningu á stöðu ferðaþjónustunnar í árslok 2019
Það kemur fram í greiningu KPMG að ferðaþjónustan er búin að vera að takast á við sveiflur í gjaldmiðli, sem og önnur áföll á sama tíma og ferðaþjónustuiðnaðurinn hefur farið stækkandi sem atvinnugrein á Íslandi. Íslendingar eru mjög háðir þessari ört vaxandi atvinnugrein, mun meira en menn gerðu sér grein fyrir, ef að horft er til nágrannaríkjanna. Við erum svo fámenn þjóð, að ein og sér getum við illa haldið upp samkeppnishæfri verslun við aðrar þjóðir. Í því ljósi er ferðaþjónustuiðnaðurinn okkur mjög mikilvægur og stór þáttur í gjaldeyrissköpun þjóðarinnar.
Það er ánægjulegt að nú á haustdögum virðist vera sem svo að við sem rekum ferðaþjónustufyrirtæki, séum loksins heyrð á hinu háa Alþingi og er það vel. Við erum að verða örlítið bjartsýnni, þar sem að samtal er loksins farið að eiga sér stað, sem og hönnun aðgerða til stuðnings greininni, sem að er þó ekki að fullu lokið.
Eins vekur koma bóluefnis vissulega von um betri tíð og bata í heiminum öllum, von um að geta flogið um háloftin og upplifað kultúr mismunandi landa og heimssvæða.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.11.2020 | 17:43
UPPLIFUNAR FERÐAÞJÓNUSTA - HVAÐ ER ÞAÐ?
Það sem að markaðsfræðingar í ferðaþjónustu hafa boðað síðastliðin ár er UPPLIFUNAR-FERÐAÞJÓNUSTA það er nútíðin og framtíðin. Aukin eftirspurn eftir upplifun, framar öllu öðru.
Hér kemur smá saga; Þegar að við hjónin kynntumst stunduðum við hjólreiðar af miklu kappi. Við ferðuðumst bæði hér heima og einnig erlendis, á fjallahjólum. Vorum með allt sem við þurftum á hjólunum. Árið 1992 fórum við okkar fyrstu ferð yfir hálendið, nánar tiltekið Kjöl, frá Akureyri og yfir til Selfossar í suðrinu. Þegar að við bæði þreytt og banhungruð komum yfir á Geysi í Haukadal, var þar fyrir smáskúr, sem þjónaði hlutverki sjoppu og afgreiddi bensín. Meira var nú ekki í boði á þessum slóðum í denn tíð. Við fengum hins vegar frábærar viðtökur, fengum allt frítt sem við gátum í okkur látið, pylsur, prins polo og kók í gleri, fyrir það eitt að hafa sem íslendingar afrekað að hjóla yfir Kjöl. Allar götur síðan ilja ég mér við þessa minningu. Frábær íslensk gestrisnin.
Af þessari sögu má dæma að ekki var mikið í boði, fyrir utan Reykjavík og kannski Akureyri, fyrir ferðamanninn að njóta í mat og drykk á því herrans ári 1992. Tveimur árum seinna fórum við í brúðkaupsferð til Skotlands, tókum að sjálfssögðu hjólin okkar með og lögðum af velli 900 km á þremur vikum. Við byrjuðum í Glasgow, þræddum austurströndina, með viðkomu í Edinburgh til Aberdeen. Á Austurströndinni er mikið af þorpum og litlum bæjum. Ég heillaðist af þjónustustiginu sem var í boði, allstaðar BB og litlir krúttlegir veitingastaðir, barir og kaffihús. Eftir því sem að þorpin voru minni, því betri og fullkomnari voru tjaldstæðin, alveg í öfugum formerkjum við það sem ég þekkti frá Íslandi. Einnig var mikið um allskonar lítil söfn, auðvitað kastala og fl. Mér fannst þetta eins og að ganga inní málverk frá impressionist-a tímabilinu, allt svo gamalt, en vel við haldið. Sveitirnar alveg sérlega snyrtilegar og fallegt í kring um bæjarstæðin. Þetta var kultúr sjokk.
Á síðastliðnum árum höfum við íslendingar verið að byggja upp ferðaþjónustufyrirtæki, bæði lítil og stór til að mæta auknum áhuga á landi og þjóð. Allt í kring um landið hefur fólk með hugviti og krafti byggt upp starfssemi sem er meira í líkingu við það sem að ferðamenn fá notið annarsstaðar, þetta sem við köllum Local upplifun, beint frá býli, eða framleitt á staðnum, eitthvað sér íslenskt og reynt að kynna fyrir ferðamanninum allt það besta sem að landið getur boðið uppá. Allskonar ferðir um hálendið, jökla og ár, ferðamaðurinn hefur drukkið í sín einstaka náttúrufegurð og notið þjónustu sem að við Íslendingar getum verið stolt af. Við höfum lagt okkur fram við að komast frá sjoppu-menningunni, yfir í gömlu góðu sveitagestrisnina, þar sem allt það besta sem við getum boðið upp á er teflt fram. Svo ég tali nú ekki um okkar einstöku laugamenningu, sem fyrir finnst hvergi eins og á Íslandi, sundlaug í hverju Krummaskuði eða þannig, ha, ha ...
Þessi uppbygging hefur styrkt byggðirnar, fólk hefur skapað sjálfum sér og öðrum atvinnu og eins og Íslendingar uppgötvuðu í sumar, að þá er bara alveg frábærlega gaman að ferðast um Ísland og margt meiri háttar skemmtilegt í boði fyrir ferðamanninn, sem ekki áður var. UPPLIFUN!
Það sem hefur tekið mörg ár að byggja upp með blóði, svita og tárum, er nú verið að slátra með andvara- og þekkingarleysi á greininni. Hvað er á bak við allt þetta. Að stærstum hluta eru þetta lítil fyrirtæki með fáum starfsmönnum og alveg niður í einyrkja. Eins og regluverkið er í kring um atvinnulífið á Íslandi, þá rúmast þessir aðilar þar ekki inni, því miður og því þarf mun sértækarI og viðameiri aðgerðir en boðað er. Viljum við rústa þessu öllu, ÖLLU sem hefur áunnist vegna andvaraleysis. Við þurfum aðgerðir núna. EKKI GLEYMA ÞVÍ AÐ ÞESSU FÓLKI ER EKKI UM AÐ KENNA HVERNIG KOMIÐ ER ÞETTA ERU HAMFARIR Á HEIMSVÍSU!
Ferðalög | Breytt 11.11.2020 kl. 20:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.10.2020 | 16:20
Ferðaþjónustuaðilar á Dauðadeildinni og bíða aftökunnar
Er ekki allt bara pólitík. Það að bregðast seint og illa við vanda Ferðaþjónustunnar er litað af pólitík. Þeir flokkar sem að eiga nú sæti í Ríkisstjórn gætu mögulega misst atkvæði kjósenda, ef þeir myndu nú lyfta Grettistaki og hjálpa að alvöru þessari grein atvinnulífsins. Þessari grein sem að stimpluð er með ofurgræðgistimplinum og fyrir að misnota sitt vinnuafl. Þannig er umræðan og þannig tjá verkalýðsfélögin sig og hafa hátt. Vilja jafnvel boða til verkfalla, gegn hverjum, þegar enga vinnu er að fá. Er þetta ekki svolítið abbsúrt?
Í löndunum í kring um okkur er umræða almennings allt önnur en á Íslandi. Þar er litið á ferðaþjónustuna sem eina af mikilvægustu atvinnugreinunum, ef ekki þá stærstu. Almenningur gerir sér grein fyrir mikilvægi hennar og vill veg ferðaþjónustunnar sem bestan, enda mjög margir sem að starfa í henni og margfeldisárhrifin langt út fyrir greinina inní þær þjónustugreinar sem að þjónusta ferðaþjónustuaðila beint og óbeint. Hagkerfið á mikið undir velgegni ferðaþjónustunnar í hverju landi fyrir sig.
Á Íslandi er þessu eins farið, munurinn er bara sá að fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því. Ferðaþjónustan stendur ekki ein og sér undir sér, hún þarf hráefni, tæki og tól, iðnaðarmenn og tæknimenn, starfsfólk, heilbrigðisþjónustu, tryggingar og svo má lengi telja. Allir eru í ferðaþjónustu ALLIR meira og minna. Verslunin öll er í ferðaþjónustu, allt er þetta bara fólk eins og við, þó erlendir ferðamenn séu og vilja fá góða þjónustu, rétt eins og við, þegar að við íslendingar ferðumst erlendis.
Rekstarumhverfi ferðaþjónustuaðila á Íslandi er samt á margan hátt erfiðara en í öðrum Evrópulöndum. Við höfum ekki þann möguleika að kaupa áfengi og bjór, beint frá framleiðenda og verðið sem að veitingamaðurinn greiðir hérlendis, er margfalt hærra, ofurtollar og fákeppni ræður þar ríkjum. Íslendingar kvarta yfir því að dýrt sé léttvínsglasið á veitingastöðum hér. En t.d. á Spáni kostar léttvínsglasið á veitingastað jafnmikið og flaska af sama víni hjá kaupmanninum við hliðina á veitingastaðnum og enginn gerir athugasemd við það.
Málið er að oft er verið að vera saman epli og appelsínu, það vantar oft mikið inní reikninginn. Við sem að stöndum í þessum rekstri höfum látið þetta yfir okkur ganga og tekið oft ósanngjarnri gagnrýni, því lítill vandi er að slátra veitingastöðum á samfélagsmiðlunum. En núna þegar við bíðum hvort eð er aftökunnar - þá er bara best að láta þetta flakka.
Hvers vegna segi ég að við séum að bíða aftökunnar - jú "Stuðningslánið" sem margir ferðaþjónustuaðilar neyddust til að taka, því að engir voru styrkirnir í boði, er til 2,5 ára og án afborganna í 18 mánuði, en greiðist svo til baka á einu ári eftir það. Sem sagt uppgreitt 2023. Þetta er svo bratt að það þarf kraftaverk til að upp gangi. Hver átti þessa hugmynd eiginlega og hvernig má það vera að þetta fór svona í gegn um þingið? Þetta er frestun á aftöku, sniðin fyrir fjármálafyrirtækin, sem fá sitt, síðan er það Ríkisins að ákveða, hver á að lifa og hver á að deyja.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ég verð að segja að ég er orðin langeyg eftir úrræðin sem að kynnt voru til stuðnings fyrirtækjum í ferðaþjónustu verði virk til umsóknar. Ekki að ég sé svona spennt fyrir meiri skuldsetningu, en ég þarf að geta greitt fastan kostnað sem að fellur til mánaðarlega og tekjufall 100%.
Við erum að gera okkur klár í að opna fyrir sumarið, en framtíðin er óljós og þrátt fyrir að opnað verði fyrir komu ferðamanna að einhverju leiti, þá er allveg ljóst að það mun taka tíma að komu öllu í samt horf. Ég er bjartsýnis-manneskja að eðlisfari, en sem fyrirtækja eigandi verð ég að vera raunsæ og án loftkastala hugmynda.
Heimurinn þjáist ennþá af þessum sjúkdómi og fólk er ennþá að deyja vegna hans. Ekki er komið bóluefni á markaðinn, þannig að hvernig sjáum við fyrir okkur að þetta verði. Það er langt frá því að við sjáum vel til lands hvað verður í nánustu framtíð.
Við sem stöndum í rekstri erum gjarnan beðin um sviðsmynd af því sem við væntum í innkomu - að gera markaðs-og rekstraráætlun til einhverra ára í senn. Ég sé ekki fyrir mér að ferðaþjónustan geti á innan við þremur árum borgað til baka þau lán sem okkur eru boðin, vegna Covid 19, það er allveg fráleitt. Eins er allveg fráleitt að ætla að 6 mánaða frysting á lánum fyrirtækja í slíkum rekstri sé nóg, til þess er þetta allt of mikið tjón. Er til of mikils ætlað að stjórnvöld skilji það. Það er verið að biðja okkur um loftkastala-rekstraáætlun, en ekki raunsæa áætlun sem að virkar.
Er ekki mál til komið að kynna fleiri björgunar-pakka, já björgunar-pakka sem að virka.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)