Enn og aftur missi ég af að sjá gosið !!!

En ekki er öll von úti enn, eftir því sem Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir, enda Reykjanesið lifnað við. Þorvaldur segir að gosið geti aftur á sama stað, eða fært sig, til dæmis í Brennisteinsfjöllin.

Hins vegar er komin Verslunarmannahelgi og fram hjá okkur í Eldstó Art Café (margir stoppa þó og koma við að fá sér veitingar) streymir fólk á Þjóðhátíð í Eyjum, sem og annað sem að hugurinn girnist út úr höfuðborginni. 

Ennþá er sumar, þó svo að líðið sé á seinni hlutann og eftir helgina munum við hjónin taka fram Hondurnar okkar (mótorhjólin) og leggja af stað vestur á land. Gott að fara eftir þessa miklu umferðarhelgi, vonum að umferðin verði ekki of þung þá og veður þurrt að mestu. Ég hlakka virkilega til, alltaf gaman að fara á þessum mótorfákum og upplifa þetta frelsi sem mótorhjólafólk kannast við. Sjálf tók ég mótorhjóla prófið í fyrra, en maðurinn minn er búin að vera með sitt próf í áratugi. Finn að ég bý að því að hafa ferðast á fjallahjólum á eigin orku og því tengi ég vel við mótorhjólið og nýt þess að hafa þetta nýja sport. 

Þannig - framundan er að heilsa kumpánlega öllu því mótorhjóla fólki sem við komum til með að mæta á ferð okkar um landið á næstunni. 


Opið bréf til Stjórnvalda - ein bara að springa af gremju

Komið þið sæl, ég velti fyrir mér hvernig vextir stuðningslána til fyrirtækja fóru á innan við þremur árum úr 1% í 8.75%

Ég tók þetta lán fyrir mitt fyrirtæki í góðri trú að þetta væri sérstakur stuðningur með vöxtum sem að héldust fastir á lánstíma. Mér fannst reyndar að þetta hefði frekar átt að vera styrkur, en ekki lán, þar sem að reglur Stjórnvalda gerðu fyrirtækjum í minni stöðu ómögulegt að reka sig. Hins vegar það, að ef ég hefði ekki tekið lánið, þá hefði mitt fyrirtæki ekki verið styrkhæft, þegar að þær aðgerðir loksins tóku að kræla á sér upp undir ári eftir að Covid skall á í marz 2020 og allir viðskiptavinir hurfu í einum vettvangi, þ.e. ekki fyrr en í jan – feb 2021 til umsóknar, voru ekki greiddir út fyrr en í marz – maí 2021.

Ég rek ferðaþjónustufyrirtæki úti á landsbyggðinni – veitingastað sem að þarf mikið af starfsfólki í þjónustu og eldamennsku. Við höfum tekið á okkur þvílíkar hækkanir frá birgjum, launakostnað og glæpsamlegar vaxtahækkanir bankastofnana studdar dyggilega af stjórnvöldum.

Ég hreinlega botna ekkert í því á hvaða plánetu þið búið sem eigið að heita hæf til að stjórna þessu landi og þjóna almenningi. Ef að ekki væri fyrir einkaframtakið, þá væri ekkert Ríkisbákn til, því ekki er það sjálfbært sem rekstrareining.

Hvað er það sem að vakir fyrir ykkur, ef einungis fjármálafyrirtæki eru tryggð fyrir öllu tapi, en við hinir litlu og meðalstóru vesalingar megum bara rúlla. Bankarnir tapa engu, þið borgið þeim, allt Ríkistryggt vegna þeirra, en síðan má ekki skattleggja þá of skart, ekki skera niður hagnaðinn, svo að þeir geti nú áfram byggt sínar hallir og lifað sínu lífi. Þeir vaða áfram með ofurvöxtum og þjónustugjöldum, ef þeir svo mikið sem prumpa, þá skal almenningur og litlu fyrirtækin rekin af venjulegu fólki en ekki fjármála gúrúum, bara borga eða rúlla.  

Ég er reið, já ÆVAREIÐ !!! ´

Í einfeldni minni hélt ég að ég gæti bara endurfjármagnað þetta svokallaða stuðningslán og komið því í það form að mitt fyrirtæki gæti greitt það, en NEI, þá var mér tjáð að það mætti ekki, bankinn endurfjármagnar ekki þessi lán og tapar Ríkisábyrgðinni, alveg sama þó að allt sé í skilum hjá fyrirtækinu – engar svartar syndir. Það bara má ekki.

Hvað á það að þýða að láta sem að Covid hafi aldrei skeð og gleyma okkur, sem erum að reyna að standa í lappirnar og reka okkur áfram, láta sem við séum ekki til.

Nánast aldrei minnst á það í þingsal að enn séu byrgðar á okkar herðum. Við erum ekki búin að ná jafnvægi korteri eftir Covid. Við getum ekki og eigum ekki að bera aftur alla ábyrgð á því að þetta land jafni sig aftur efnahagslega. Ferðaþjónustan gerði það eftir hrunið og enn og aftur er sú krafa að við eigum bara að redda þessu. Ég segi NEI – við eigum ekkert að redda þessu, við eigum öll að taka þá ábyrgð og ekki síst Stjórnvöld. Ég vil samtal og ég vil að okkur sé gert það raunverulega kleift að geta greitt til baka þessi lán og þeim sé breitt í þolinmótt fé, að hægt sé að semja á forsendum fyrirtækjanna á þann hátt sem að hægt er, en ekki sem snara að hengja okkur í. Eins að vextirnir séu lægri á þessum lánum, en ég var svo vitlaus að halda að þeir yrðu það áfram, en svo er bara alls ekki.

Ég verð að segja að ég upplifi að ég sé í viðskiptum við Mafíuna en ekki lög verndaðar fjármálastofnanir, þeim leyfist að blóðmjólka almenning með gjaldtökum fyrir minnsta viðvik og vaxtaokri, sem að er engu líkt, allt með blessun Stjórnvalda.

 

Með kv. G. Helga Ingadóttir


Atvinnurekendur - GLÆPAMENN OG RUMPULÍÐUR?

Ég get ekki lengur orða bundist. Verð samt að viðurkenna að ég veigra mér við að tjá mig, eins og umræðan er orðin - yfirlýsingar sem hafðar eru í almennu tali, sem að ég flokka sem níð og rangfærslu á staðreyndum. 

Ég rek lítið fyrirtæki úti á landsbyggðinni, sem að telur ca 10 - 12 starfsmenn á háannatíma og er ekki ein um að vera í slíkum rekstri, en á Íslandi eru stærsti hluti fyrirtækja lítil eða meðalstór fyrirtæki. Sólveig Anna í yfirlýsingum sínu, segir atvinnurekendur lifa í vellystingum og lúxuslífi á kostnað láglaunafólks í landinu, við eigum að vaða í seðlum og vera algjörlega ótengd við hvað þetta fólk er að fást við.

Ég er sjálf bara verkalýður, kem úr þannig fjölskyldu og hef aldrei á ævinni fengið feitan launatékka. Stundum skil ég ekki sjálf hvernig við hjónin fórum að því að byggja upp okkar fyrirtæki, en eitt veit ég, að við fórum ekki í frí í 9 ár og því muna börnin okkar vel eftir. Bíóferðir, að fara á veitingastaði eða önnur afþreying sem þurfti að greiða fyrir var í svo miklu lámarki að telja mætti á fingrum annarrar handar ef út í það væri farið, á þessum tíma.  Börnin okkar sem að nú eru öll orðin fullorðin hafa tekið þátt frá unga aldri í þessari uppbyggingu og allri hafa fært sínar fórnir, til að fyrirtæki gæti lifað af, kreppu, eldgos, Covid og öll önnur þau áföll sem að dunið hafa yfir.

Við erum bara venjulegt fólk og við lifum ekki í búblu hins ofurríka. Því svíður þessi umræða, sem er ósanngjörn og ósönn um stóran hluta af þeim sem að hafa farið út í að skapa sér sitt eigið lífsviðurværi. Þau fyrirtæki sem að þessar yfirlýsingar Sólveigar Önnu gætu mögulega átt við eru að stórum hluta í eigu Íslensku Lífeyrissjóðanna og annarra fjárfesta á markaði.

Allir atvinnurekendur eru skyldugir til að greiða mótframlag ofan á laun hvers launþega sem er 11,5% og rennur það inn í hýdd Lífeyrissjóðanna, en er ekki eign launþegans. Fyrir þetta fé sem að Lífeyrissjóðirnir hirða af öllum fyrirtækjum landsins eru þeir að fjárfesta á mörkuðum, bæði hér heima og erlendis. Segjast þeir vera að fjárfesta í þágu lífeyrissþeganna, en eru þeir það? Forstjóri lífeyrissjóðs getur hæglega haft í árstekjur jafnmikið og eitt lítið fyrirtæki veltir á ársgrundvelli og greiðir af því laun, skatta og álögur, sem og allan annan rekstrarkostnað sem að til fellur. Lífeyrissjóðirnir eru síðan oft á tíðum stærstu hluthafar í þeim fyrirtækjum sem að Sólveigu Önnu er svo tíðrætt um, svo sem Bláa Lónið, Icelandair, N1, allar stóru verslunarkeðjurnar í kringum landið, sem og á höfuðborgarsvæðinu og svo mætti lengi telja. Þetta eru þau fyrirtæki sem að hagnast hvað mest og geta greitt út feitan arð.

Eitthvað sem að við höfum aldrei gert á þeim 20 árum sem að við höfum verið í rekstri, að greiða okkur út arð. Og ég þori að fullyrða að svo er um mörg smærri og meðalstór fyrirtæki í landinu, en hagnaðurinn fer oftast í uppbyggingu og nauðsynlegar endurbætur, oft á tíðum til að skapa betra vinnu umhverfi fyrir starfsmenn.  

Hvað með þátt Ríkis og Alþingis, hvar er þeirra ábyrgð? Hvað varð um Félagsbústaðakerfið, við hjónin gátum keypt okkar fyrstu íbúð þar og vegna mjög lágra afborganna af þeim íbúðalánum sem við höfðum í því kerfi gátum við lagt fyrir af lágum launum og komist inn á frjálsa íbúðamarkaðinn. Þetta var frábær stökkpallur og skapaði okkur tækifæri, þrátt fyrir að vera með verðtryggt lán sem lækkaði ekki neitt, bara hækkaði af því höfuðstóllinn. Hvað með þá ábyrgð að skattleggja ekki lægstu laun svo mikið ekki ekki er hægt að lifa af.

Hvað með að setja þak á íbúðalánavexti og leiguverð íbúðarhúsnæðis? Hvað með að aftengja hækkun fasteignaverðs á Íbúðamarkaði við vísitölu verðbólgu. Hvað með að ná betri stjórn á verði fasteigna á markaði, t.d. með að byggja upp félagsíbúðakerfi, sem að gæti örugglega hægt á þessari brjálæðislegu hækkunum á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu. 

 

Hvað með að semja við sérfræðilækna svo að fólk geti með einhverjum hætti nýtt sér þá þjónustu án þess að eiga svo ekki fyrir mat, eftir að þurfa að fara til læknis. Hvað með að skemmdar tennur og eða veikindi í tannholdi, sjónleysi og heyrnarskerðing flokkist sem heilbrigðismál sem að niðurgreiðist á sambærilegan hátt og vegna annarra sjúkdóma.  

Hvað með að minnka yfirbyggingu báknsins, í stað þess að bæta stöðugt við það og nota fjármuni í almannaþágu, sem að er hlutverk Ríkisins að gera, að þjónusta almenning. Við erum Ríkið og eigum þetta fé, sem að þetta fólk er að höndla með og oftar en ekki á svo óábyrgan hátt að manni verður bara illt við þá tilhugsun. 

Hvers vegna er fólk ekki að ræða þessi mál á alþingi, hvað er þetta fólk að gera þar, er það í leikskólanum ennþá, úti að leika í SANDKASSANUM?

 


Viðspyrnustyrkir og sérstakir styrkir fyrir veitingarekstur - engin hraðferð

Svörin sem að koma frá RSK er að verið sé að vinna i þessu, engin tímamörk, einnig mikið að gera í öðrum málum hjá tæknimönnum. Og við aumingjarnir sem að stöndum í rekstri á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, héldum að þetta væri forgangsmál, heimsku við. 

Það er nú svo að formið fyrir Viðspyrnustyrkina er til, það þarf bara smá uppfærslu á það, engin hönnun á nýju forriti, eða þannig. Hvað varðar styrki fyrir Veitingahúsa-rekstraraðila, þá ætti nú ekki að vera svo flókið að hanna þetta, þar sem að styðjast mætti við það sem að þegar er til í forritun á öðrum leiðum. Við erum á 21.öldinni og erum ekki að finna upp hjólið. 

Það er algjörlega afleitt að ekki sé spítt í lófana með þessi mál, en byrjað var að tala um nauðsyn þessara aðgerða strax um áramótin og nú er komið fram í marz. Enginn að flýta sér, eða þannig.

Í SELFF (Samstöðuhópur smærri fyrirtækja og einyrkja í ferðaþjónustu) hafa menn miklar áhyggjur af því að ef þessir styrkir komi ekki til afgreiðslu núna í marz, þá eigi margir eftir að detta út sem styrkhæfir, vegna þess

 Birt með leifi SELFF

"að 1. apríl, þá er komið að því að skila inn gögnum vegna endurmats tryggingafjárhæða, þar er m.a. krafist vottorðs um skuldleysi opinberra gjalda og við lífeyrissjóði!!! ... nú erum við að tala um aðila í ferðaþjónustu, sem vegna aðgerða stjórnvalda eru að lenda í skuld á opinberum gjöldum og við lífeyrissjóði... skili fyrirtæki þessu ekki inn er hætta á að þau missi ferðaskrifstofuleyfi sín... ERUÐ ÞIÐ AÐ ÁTTA YKKUR Á ÞVÍ HVERSU ALVARLEGT ÞAÐ ER!"

Því eru allar þessar tafir á að koma þessum styrkjum í umsóknarlegt ferli skelfilegar fyrir rekstaraðila. 

Úr tölvupósti Ferðamálastofu, sendur til leyfishafa 3. mars 2022

"Skilafrestur gagna vegna endurmats tryggingafjárhæða er til 1. apríl

Opnað hefur verið fyrir skil á gögnum vegna endurmats tryggingafjárhæða ferðaskrifstofa (Árleg skil). Frestur til skila er 1. apríl n.k. Það er því mikilvægt að ferðaskrifstofur fari að huga að skilum og að gera ráðstafanir þar sem ársreikningur þarf að vera tilbúinn 1. apríl n.k.

Ársreikningar

Minnt er á að frestur til skila ársreiknings til Ferðamálastofu er annar en frestur til skila til ársreikningaskrár. Það gilda sérreglur um skil ársreikninga ferðaskrifstofa til Ferðamálastofu sem ber að fara eftir og ganga sérreglurnar framar almennum lögum um skil ársreikninga.

Vottorð um skuldleysi vegna opinberra gjalda og við lífeyrissjóði

Ferðatryggingasjóði ber að tryggja hagsmuni sjóðsins og sjóðsaðila, ákveða hlutfall iðgjalda ár hvert og meta mögulega áhættu á útgreiðslum úr sjóðnum með því að horfa til rekstraráhættu ferðaskrifstofa. Til að Ferðatryggingasjóður geti með sem bestum hætti gegnt hlutverki sínu fer sjóðurinn fram á að ferðaskrifstofur leggi fram eftirfarandi vottorð:

  • Skuldleysisvottorðvegna opinberra gjalda,
  • Vottorð frá lífeyrissjóði/-sjóðunum greiðslustöðu gagnvart lífeyrissjóði/-sjóðum.

...

Ekki veittir frestir

Ekki er unnt að verða við beiðnum um fresti eða undanþágur þar sem skilafrestur árlegra gagna er lögbundinn. Ferðatryggingasjóður er samtryggingarkerfi ferðaskrifstofa. Jafnræði þarf að gilda og allar að lúta sömu reglum.

Leiðbeiningar og ný eyðublöð má finna á . Ef eitthvað er óljóst er hægt að hafa samband við Ferðamálastofu á símatíma stofnunarinnar milli 10 og 12 alla virka daga eða senda fyrirspurn á arlegskil@ferdamalastofa.is." (tilvitnun lýkur)

Af þessu má vera ljóst, að margir aðilar í ferðaþjónustu hafa ekkert meiri tíma til ráðstöfunar til þess að stöðva skuldasöfnun, 1. apríl er dagurinn sem Ferðamálastofa gefur og eins og hér kemur fram þá eru ekki veittir neinir frestir... og ef Skattinum og yfirboðurum Skattsins finnst það í lagi að þetta taki þennan tíma þá er ljóst að hér er pottur brotinn. Sé skuldleysi ekki til staðar 1. apríl.... hvað þá? Bendum á að meginhluti viðspyrnustyrkja fer í rekstarkostnað er viðkemur sköttum og gjöldum ríkis og sveitarfélaga og greiðslu til lífeyrissjóða!

Skuldir safnast upp þar sem ekki er hægt að komast í úrræðin sem félög og fyrirtæki eiga rétt á! Séu þessar skuldir orðnar uppsafnaðar í lok mars... og krafan frá Ferðamálastofu er um skuldleysi við opinberar stofnanir... hvað eiga fyrirtæki þá til bragðs að taka! ... hér hefur verið hent út björgunarhring en það er búið að setja vaselín á hann svo enginn nær að grípa í hann og halda sér til þess að komast að landi... þetta er bara verulega illa gert gagnvart þessum aðilum." tilvitnun lýkur 

Sjálf stend ég ekki í rekstri á ferðaskrifstofu, en fyrir okkur sem að erum með rekstur úti á landi, hangir þetta allt á sömu spýtunni, öll ferðaþjónustan, við styðjum hvort við annað. Fákeppni er ekki góð í stóra samhenginu, fjölbreytni og val er mun meira aðlaðandi en ein sjoppa, eða þannig. Það er því einlæg ósk mín að öll sú fjölbreytni sem hefur orðið til á síðasta áratug í ferðaþjónustu, lifi þetta af. Lítil og meðalstór fyrirtæki skipta máli og gera lífið fjölbreyttara og fallegra. Ég skora því á Stjórnvöld að beita sér við RSK að setja okkar mál í þann forgang sem lofað var. 


RÖNG FORGANGSRÖÐUN segja SELFF - hópur einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu

"Bara forgangaröðunin, af hverju er ekki byrjað a heildinni og farið svo í sértæka aðstoð .. setja tappa i helvítis bátinn svo hann hætti að sökkva með manni og mús"    Segir í athugasemd í hópnum. 

Já og ekki nema von að spurt sé, enn þá eiga þessir aðilar að bíða eftir að tillögur um bætur til handa þessum rekstraraðilum, séu smíðaðar og lagðar svo fyrir þingið. Þetta þýða bara enn þá meiri tafir og á meðan er verið að róa lífróðurinn hjá þessum smærri fyrirtækjum, sem þó spanna allt að 90% af allri ferðaþjónustu á Íslandi. Ég vil enn og aftur undirstrika það, að vegna áræðni og dugnaðar fóru margir af þessum aðilum af stað í rekstur upp úr kreppunni 2008 og hreinlega komu Íslandi á lappirnar aftur fjárhagslega, þ.e. stórjuku gjaldeyrisforða Ríkisins. 

Að byrja á því að einbeita sér að einum hópi umfram annan í stað þess að byrja á heildinni er sérkennileg nálgun og einungis til þess fallin að valda ójöfnuði innan ferðaþjónustunnar.  Lausafjárstaða einyrkja og fyrirtækja er orðið áhyggjuefni þar sem faraldurinn hefur dregist á langinn og stjórnvöld hafa verið að setja á heftandi aðgerðir fram á þetta ár 2022.

Staðan er svona þrátt fyrir ríkisaðstoð, þar sem að t.d. viðspyrnustyrkurinn dekkaði aðeins 90% rekstrarkostnaðar, en það þýðir að hann var aldrei að dekka allan kostnað og sá rekstrarkostnaður sem hefur verið að safnast upp,  hefur verið tekinn af lausafjáreigu fyrirtækjanna eða verið sótt í vasa rekstraraðila/eigenda. Það er því augljóst að lausafjárstaða mun hafa versnað til muna og skuldasöfnun aukist fyrirtækjum og rekstraraðilum.

Það liggur í augum uppi að til langframa gengur þetta ekki upp svona og nú við þessar síðustu sóttvarnaraðgerðir í desember 2021 og janúar 2022, sjá einyrkjar og lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu fram á mjög þungan róður og jafnvel skipsbrot rétt undan landi verði ekki tekið á þessu máli núna.

Það að bjóða upp á að þetta séu þá einhverjar vikur til viðbótar í óvissu er óásættanlegt t.a.m. ef það þarf þá að fara að segja upp fleira fólki og/ eða minnka starfshlutfall. Tekjulítið og tekjulaust fyrirtæki er ekki að fara að halda starfsfólki á launaskrá.

Það er því frumskilyrði að jafnaðar sé gætt og enginn tekin út fyrir sviga umfram annan.

Að áframhaldandi aðgerðir komist á fljótt og vel og eigi við um alla.

Að stór hópur þurfi ekki að bíða á meðan einum er sinnt, því það eru allir jafn vængbrotnir.

Síðan er ágætt að muna að skaðinn er skeður og hann þarf að bæta þó svo að sóttvarnaraðgerðum verði aflétt nú fljótlega, þá eru þær afbókanir sem hafa átt sér stað ekkert að fara koma aftur, það er endanlegt fjárhagslegt tjón og nýbókanir munu fara hægt af stað.  Þetta er því skaði sem mun ná vel fram á vorið og jafnvel inn á fyrsta sumarmánuðinn, þ.e. júní 2022. Það er því mikið áhyggjuefni hvernig einyrkjum og litlum fyrirtækjum í ferðaþjónustu muni vegna, þá sérstaklega þau sem að eru úti á landi, ef ekki er tekið á málunum strax og af festu af Ríkisstjórninni og af Alþingi.

 

ps. Vitnað er í hópinn með leyfi SELFF  G.Helga Ingadóttir


ER VERIÐ AÐ GERA GRÍN AÐ SAUÐSVÖRTUM ALMÚGANUM???

Eftir að hafa skoðað hluthafaskrár hjá N1, Festi og Högum sést að 43 - 73% af eignarhaldi þessa félaga er í eigu hinna ýmsu Lífeyrissjóða. Það vekur hjá mér hugleiðingar um hverjir hafa mesta vægið hjá Samtökum Atvinnulífsins SA og hvernig það megi vera að ASÍ sem á að verja réttindi hins almenna launamanns, fékk það út að það væri kjarabót að semja um hærri prósentu af launaseðlinum til Lífeyrissjóðanna, að það að SA hækkaði mótframlagið á móti gerði í raun einhverja bót á kjörum væntanlegra lífeyrisþega. Þessi gjörningur varð til þess að farið var lengra oní vasa allra þeirra fyrirtækja sem ekki eru í eigu Sjóðanna, en hjá stóru fyrirtækjunum er þetta bara færsla úr einum vasa yfir í hinn, þar sem að þau eru jú að stærstum hluta í eigu Lífeyrissjóðanna.

Þetta er það sem hefur verið að gerast á undanförnum áratug, því að bæði tryggingargjald, sem fer í Ríkiskassann og Vinnumálastofnun og mótframlag til Lífeyrissjóðanna hefur hækkað umtalsvert upp úr kreppunni 2008 og þrátt fyrir loforð um að tryggingargjaldið lækkaði aftur síðar, en það hækkaði í einum vetfangi úr 5,75% í 8,75% í kreppunni, þá hefur ekki tekist að koma því aftur niður fyrir 6% á þessum 14 árum eftir hækkunina.  En eru núverandi lífeyrisþegar í góðum málum? Nei - mig minnir að einmitt margir hafi fengið skertan hlut upp úr þeirri áðurnefndu kreppu 2008. Og í dag þurfa öryrkjar og ellilífeyrisþegar að herja kjarabaráttu sem aldrei fyrr í þvi velferðarþjóðfélagi sem Ísland á að vera. 

En hjá FESTI er forstjórinn með ca 5 miljónir á mánuði í boði Lífeyrissjóðanna sem eiga jú 73% af því félagi. Er það í takt við það sem menn þekkja og hafa sér til lífsviðurværis? 

Haustið 2021 keypti BLÁVARMI félag í eigu 14 lífeyrissjóða, 6,2% hlut í Bláa lóninu, en fyrir áttu þeir 30% og voru þar með komnir með 36,5% í sinn hlut. Kaupverðið var ca 3,8 miljarðar ISK og hefur því komið sér vel á erfiðum COVID tímum.  Eftir því sem ég best man fjárfesti Bláa Lónið einnig í Iceland Air þegar að verið var að bjarga flugfélaginu frá gjaldþroti í Covid kreppunni. Bláa Lónið fékk umtalsverða styrki úr Ríkissjóði, en gátu samt borgað út arð til hluthafa, voru ekki blankari en það. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvort gerð var krafa um einhverja endurgreiðslu á hendur hluthöfunum, en rámar í það þó. 

Það er því augljóst að í öllum stærstu fyrirtækjunum á Íslenskum markaði eiga lífeyrissjóðirnir stóran hlut. Menn líta kannski svo á að það sé þá almenningur sem eigi í þessum fyrirtækjum, þar sem að Sjóðirnir eiga jú að vera í eigu sjóðsfélaga. Það er samt ekki verið að fjárfesti í almenningsþágu, ég get ekki séð það, því að ef hægt er að þrengja að kjörum lífeyrisþeganna á sama tíma og þeir geta verið að fjárfesta á markaði, þá er þetta allt mjög einkennilegt. Eins það að vegna ávöxtunarkröfu Sjóðanna sé það í þeirra reglugerð að ekki megi byggja hjúkrunarheimili og eða íbúðir fyrir aldraða. En það má gamla með sjóðspeningana og fjárfesta í Icaland Air og Bláa Lóninu á tímum Covid. Ekki það að trúlega mun þessi fyrirtæki standa af sér þessa kreppu, enda nóg af fjármagninu þar, alla vega í Bláa Lóninu.  

Hvað er ég að fara með því að spyrja hvort sé verið að gera grín að sauðsvörtum almúganum. Jú - Það er talað um ávöxtunarkröfur lífeyrissjóðanna, eins og það sé í þágu hins almenna borgara, en birtist mér sem leikur á exelskjali, þar sem að topparnir verðlauna sjálfa sig fyrir fallega útkomu á pappír, en ekki á borði lífeyrisþeganna. Ekki má byggja íbúðir fyrir aldraða og ekki má taka á þeim tví-og jafnvel þrísköttunum sem að lífeyrisþegar þurfa að þola. Og lífeyrir þeganna erfist ekki, heldur hirðir sjóðurinn lífeyrinn við dauða lífeyrisþegans að mestu leiti, einhver makalífeyrir er í mjög skamman tíma eftir dauða lífeyrisþegans. Sá lífeyrisþegi sem að deyr áður en hann fer að taka út lífeyri tapar öllum sínum lífeyrissparnaði til sjóðsins, að undanskildum séreignarsparnaði. Hvers vegna er ekki öll sú prósenta sem greiðist sannarlega af launaseðli launþegans - 4% - og jafnvel hluti af mótframlagi atvinnurekandans séreign lífeyrisþegans?

Lífeyrissjóðirnir eru í eigu almennings, en gagnast alls ekki sem skyldi, vegna þeirra reglugerða sem þeir hafa sett og bundið sig við. Ekki er mikill vilji til að breyta því fyrirkomulagi sem nú er, hvers vegna er það? Hverjir græða mest á núverandi fyrirkomulagi og reglugerð um lífeyrisgreiðslur, reglugerð um ávöxtunarkröfur og reglugerð um í hverju má fjárfesta og hverju ekki? ÞAÐ ER STÓRA SPURNINGIN!

   

 

 


Í fljótu bragði virðist eiga að svelta litlu ferðaþjónustufyrirtækin um allt land!!!

Maður spyr sig hvað vaki fyrir Ríkisstjórninni - hvað vakir fyrir Alþingi? Upp undir tvö ár eru komin í Covid og takmörkunum vegna þess í boði Sóttvarnarlæknis og Ríkisstjórnarinnar.  Teiknaðar eru í gríð og erg faralds-sviðsmyndir vegna vandans sem að Landsspítalinn á í sökum faraldursins og ekki síst vegna þess að sóttvarnarráðstafanir eru að koma hart niður á starfsliði spítalans, sem og á hinum almenna borgara. Já og eins og ég sagði, sviðsmyndir eru teiknaðar til að hægt sé að bregðast við þessum vanda.

EN HVAR ERU SVIÐSMYNDIRNAR um þann vanda sem að skapast í atvinnulífinu vegna þessa SÓTTVARNA AÐGERÐA sem gripið er til vegna vanda spítalans. 

Enn og aftur - enginn fyrirsjáleiki, ekki einu sinni gerð tilraun til að átta sig á afleiðingunum sem þessar aðgerðir hafa á atvinnulífið með því að gera af því SVIÐSMYND.  

Ég rek ferðaþjónustufyrirtæki út á landi og vissulega hef ég reynt að sjá fyrir allt mögulegt og ómögulegt sem gæti komið fyrir í þessum faraldri og tekið ákvarðanir út frá því. En það hefur verið erfitt, þar sem að þú veist aldrei hvað má og má ekki, það sem er hægt í dag, er bannað á morgun. Þetta er í boði Sóttvarnalæknis, Ríkisstjórnarinnar og jú BÖLVAÐRAR VEIRUNNAR, sem að menn eru orðnir langþreyttir á.

Nú er loksins að glitta í aðgerðir fyrir atvinnulífið, aðgerðir sem að eru eyrnamerktar Veitingageiranum. Sjálf ætti ég að geta nýtt mér það að einhverju leiti, á eftir að skoða það betur, en stór hópur af mínum kollegum í ferðaþjónustunni eru fyrir utan þennan aðgerðapakka og það er afleitt. 

Og þá kemur stóra spurningin. Hvar í þessu öllu saman standa þá þau fyrirtæki í ferðaþjónustu sem ekki eru nefnd í þessu tiltekna frumvarpi sem að nú liggur fyrir á Alþingi? Af hverju er það sér merkt Veitingageiranum, sem naut jú stuðnings einnig í fyrri aðgerðum? Hvar standa t.a.m. litlu fyrirtækin sem eru að bjóða upp á afþreyingu og eða setja saman pakkaferðir fyrir fólk? Hver er stefna stjórnvalda hvað varðar þessi fyrirtæki? já og gististaðirnir, sem upplifa hrun, enn og aftur. Það er bara alls ekki skýrt og svörin sem hafa fengist eru á frekar óskýr. Á aftur að skilja litlu fjölskyldufyrirtækin út undan í umræðunni um ríkisaðstoð? Eiga þau ekki að fá sömu tækifæri til að lifa af og veitingageirinn? Það er ljóst á þessu frumvarpi um aðgerðapakka, að þar er stærsti hluti þessara fyrirtækja á stór-Reykjavíkur svæðinu. 

Já og þetta hangir allt á sömu spýtunni úti á landsbyggðinni, það er, ég er með veitingastað, en enga gesti, það eru ekki neinir litlir hópar að koma í mat, þessir litlu hópar sem að hin mörgu afþreyingarfyrirtæki sáu um að koma með, því að allir þurfa að borða. Afbókanir hjá mér, vegna afbókanna hjá mínum kollegum í ferðaþjónustunni.  Á þessum árstíma, sem er haustið og veturinn, skiptir þetta öllu máli. Og það er búið að leggja mikla vinnu í að byggja upp ferðaþjónustu sem á að virka allt árið, þetta er sannkallað BYGGÐAMÁL og frumskilyrði að þessi fyrirtæki lifi af þessa Covid kreppu. Það eru allt of mikil verðmæti í sköpun og þekkingu áranna á undan, til að láta hana hrynja. Stuðningur við þessa aðila er svo mikilvægur, ef við viljum geta haft allt landið í blómlegri byggð. Ég get jú fengið stuðning, en ef stór hluti af því sem byggður hefur verið upp í mínum landshluta rúllar, hvernig verða þá komandi ár hjá mínu fyrirtæki. Við erum sitt hvor hliðin á sama peningnum. Til að gaman sé að ferðast um landið okkar, þarf þjónusta að vera til staðar og hana tekur tíma að byggja upp. Á AÐ FÓRNA LITLU LANDSBYGGÐA FERÐAÞJÓNUSTUFYRIRTÆKJUNUM Á ALTARI KÓRÓNA VEIRUNNAR Í BOÐI STJÓRNVALDA?

Vonandi sjá menn að sér og drifa i að koma með aðgerðir sem gagnast sem flestum. Í síðustu aðgerðum voru það hinir stóru sem mest fengu, þeir sem höfðu jafnvel getað greitt sínum hluthöfum feitan arð. Hvernig væri að draga af þessu einhvern lærdóm og hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á því að halda. Þetta er jú sú ábyrgð sem að Stjórnvöldum ber að taka, menn vita hvað við er átt.

 

 


Erum á leið út af sporinu

Ólík­legt er að ný­leg­ar sótt­varnaaðgerðir stjórn­valda muni skila til­ætluðum ár­angri, enda er far­ald­ur­inn mest­ur meðal barna, ung­linga og ungra full­orðinna í mennta- og há­skóla. Þetta seg­ir Ragn­ar Freyr Ingvars­son, sér­fræðing­ur í lyf- og gigt­ar­lækn­ing­um og fyrr­ver­andi yf­ir­maður Covid-göngu­deild­ar Land­spít­ala. Sjá frétt á MBL

1237787


Út að ganga, ræktin, næra sig rétt og sofa vel, en samt eru þyngslin undirliggjandi!

Þetta ástand bæði hér heima á Íslandi og um veröld víða, vegna Covid og sóttvarnaaðgerða í heiminum, er virkilega farið að taka sinn toll. Það sem hrellir mig þó hvað mest eru sóttvarnaraðgerðir, sem að mér finnast ekki vera að skila neinu nema ótta og kvíða, sem og samfélagslegu hruni, bæði félagslegu og fjárhagslegu. 

Það ber ekki öllum saman um hversu hættuleg þessi veira er, það virðist sem hún sé að breytast í frekar sakleysislega pesti, hjá stærstum hópi þeirra sem eiga að bera veiruna í sér, samkvæmt mælingum. Það er sem sagt bannað í dag að fá pest, því þá verður maður að fara í einangrun frá öðru fólki. 

Því er verið að eyða tíma og fjármunum í öll þessi test og það eru sko engar smá upphæðir, frekar en að nota þá í að leysa vanda heilbrigðiskerfisins og Landsspítalans. Veirunni verður ekki útrýmt, það hefur vissulega sýnt sig. 

Ég sem ríkisborgari þessa lands finnst verið að skerða mín réttindi meir og meir, með hverjum deginum sem að líður, en rökin fyrir því eru míglek í meira lagi. Hömlur virðast vera settar hamlanna vegna, en ekki fyrir mig, ekki fyrir okkur almenning, ofurstjórnun sem t.d. er í gangi í Ástralíu, hugnast jafnvel mörgum hér á landi, sem að eru ekki mínir skoðanabræður. 

Að búa til fallegu og ljótu börnin hennar Evu, bólusettir og óbólusettir. Fólki finnst það bara í lagi að neyða fólk í bólusetningar með tilraunalyfjum, þar sem að lyfjafyrirtækin eru án allrar ábyrgðar. Sjálf er ég bólusett með slíkum lyfjum, tók þá ákvörðun, þar sem að loforð voru gefin um að þá færi lífið aftur í eðlilegar skorður, þegar að búið væri að bólusetja u.þ.b. 70% þjóðarinnar. En svo er nú ekki og þeir fullorðnu einstaklingar sem að eru óbólusettir eru gerðir ábyrgir, ekki þetta tilraunabóluefni sem er ekki að virka eins og vonir stóðu til, en samt á að neyða fólk í að láta dæla meiru af því í sig, þar sem að bólusetningarpassinn minn eftir tvær sprautur er nú orðinn úrheldur.  

Er það virkilega svo að menn láti bara leiða sig áfram án allrar gagnrýni, án þess að spyrja spurninga og án þess að sýnilegur árangur sé af þessum sprautum, eins og lagt var upp með. 


Heimilismenn búinir að fá 3ja skammtinn af bóluefni - en eru samt fangar

Þrátt fyrir að vera búin að fá örvunarskammtinn gegn Covid eru reglur inni á dvalarheimilum aldraðra svo stífar að meira frelsi er á Litla Hrauni.

Bréf til aðstandanda

Kæru aðstandendur

Við viljum ítreka fyrri sendingu til ykkar um reglur sem eru í gildi hér á Lundi vegna ástandsins í samfélaginu sökum Covid.

 Allir gestir eru beðnir um:

1. Að spritta sig við komu í hús

2. að bera grímu á meðan á dvöl stendur

3. að dvelja eingöngu á herbergi heimilismanns á meðan á heimsókn stendur

4. að staldra ekki við á göngum og tala við starfsfólk heldur hringja í okkur

5. að dvelja ekki í sameiginlegum rýmum

6. að fara ekki með íbúa af heimilinu

 Við biðjum gesti að koma ekki í heimsókn ef þeir:

Eru í sóttkví eða smitgát.

Eru í einangrun (einnig meðan beðið er niðurstöðu úr sýnatöku).

Hafa verið í einangrun vegna COVID-19 smits og ekki eru liðnir 14 dagar frá útskrift.

Eru með einkenni (kvef, hósta, hita, höfuðverk, beinverki, þreytu, kviðverki, niðurgang).

Hafa dvalið erlendis undanfarna daga og eru ekki komnir með neikvæða niðurstöðu úr skimun eftir komuna til landsins. Þetta á við um bólusetta gesti, óbólusettir þurfa að gangast undir tvöfalda skimun og sóttkví einsog reglur á landamærum segja til um.

Þessar reglur eru til þess gerðar að vernda íbúa okkar fyrir smiti

 

Jú jú reglurnar eru til að vermda íbúa gegn smiti, en til hvers er þá bólusetningin og örvunarskammturinn?


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband