Færsluflokkur: Kjaramál

Ferðaþjónustuaðilar á Dauðadeildinni og bíða aftökunnar

Er ekki allt bara pólitík. Það að bregðast seint og illa við vanda Ferðaþjónustunnar er litað af pólitík. Þeir flokkar sem að eiga nú sæti í Ríkisstjórn gætu mögulega misst atkvæði kjósenda, ef þeir myndu nú lyfta Grettistaki og hjálpa að alvöru þessari grein atvinnulífsins. Þessari grein sem að stimpluð er með ofurgræðgistimplinum og fyrir að misnota sitt vinnuafl. Þannig er umræðan og þannig tjá verkalýðsfélögin sig og hafa hátt. Vilja jafnvel boða til verkfalla, gegn hverjum, þegar enga vinnu er að fá. Er þetta ekki svolítið abbsúrt?

Í löndunum í kring um okkur er umræða almennings allt önnur en á Íslandi. Þar er litið á ferðaþjónustuna sem eina af mikilvægustu atvinnugreinunum, ef ekki þá stærstu. Almenningur gerir sér grein fyrir mikilvægi hennar og vill veg ferðaþjónustunnar sem bestan, enda mjög margir sem að starfa í henni og margfeldisárhrifin langt út fyrir greinina inní þær þjónustugreinar sem að þjónusta ferðaþjónustuaðila beint og óbeint. Hagkerfið á mikið undir velgegni ferðaþjónustunnar í hverju landi fyrir sig. 

Á Íslandi er þessu eins farið, munurinn er bara sá að fólk virðist ekki gera sér grein fyrir því. Ferðaþjónustan stendur ekki ein og sér undir sér, hún þarf hráefni, tæki og tól, iðnaðarmenn og tæknimenn, starfsfólk, heilbrigðisþjónustu, tryggingar og svo má lengi telja. Allir eru í ferðaþjónustu ALLIR meira og minna. Verslunin öll er í ferðaþjónustu, allt er þetta bara fólk eins og við, þó erlendir ferðamenn séu og vilja fá góða þjónustu, rétt eins og við, þegar að við íslendingar ferðumst erlendis. 

Rekstarumhverfi ferðaþjónustuaðila á Íslandi er samt á margan hátt erfiðara en í öðrum Evrópulöndum. Við höfum ekki þann möguleika að kaupa áfengi og bjór, beint frá framleiðenda og verðið sem að veitingamaðurinn greiðir hérlendis, er margfalt hærra, ofurtollar og fákeppni ræður þar ríkjum. Íslendingar kvarta yfir því að dýrt sé léttvínsglasið á veitingastöðum hér. En t.d. á Spáni kostar léttvínsglasið á veitingastað jafnmikið og flaska af sama víni hjá kaupmanninum við hliðina á veitingastaðnum og enginn gerir athugasemd við það.

Málið er að oft er verið að vera saman epli og appelsínu, það vantar oft mikið inní reikninginn. Við sem að stöndum í þessum rekstri höfum látið þetta yfir okkur ganga og tekið oft ósanngjarnri gagnrýni, því lítill vandi er að slátra veitingastöðum á samfélagsmiðlunum. En núna þegar við bíðum hvort eð er aftökunnar - þá er bara best að láta þetta flakka. 

Hvers vegna segi ég að við séum að bíða aftökunnar - jú "Stuðningslánið" sem margir ferðaþjónustuaðilar neyddust til að taka, því að engir voru styrkirnir í boði, er til 2,5 ára og án afborganna í 18 mánuði, en greiðist svo til baka á einu ári eftir það. Sem sagt uppgreitt 2023. Þetta er svo bratt að það þarf kraftaverk til að upp gangi. Hver átti þessa hugmynd eiginlega og hvernig má það vera að þetta fór svona í gegn um þingið? Þetta er frestun á aftöku, sniðin fyrir fjármálafyrirtækin, sem fá sitt, síðan er það Ríkisins að ákveða, hver á að lifa og hver á að deyja. 


Stórfelld eignaupptaka í boði Stjórnvalda

Það lítur út fyrir að stefnt sé í stórfellda eignaupptöku í boði Stjórnvalda. Aðgerðir til hjápar fyrirtækjum í rekstrarvanda vegna sóttvarna eru ómarkvissar og ekki er horft til framtíðar, heldur hafa þær aðgerðir verið plástur á svöðusár.

Ber þar að nefna "stuðningslánið" sem er skammtímalán og var strax fyrirséð að ekki væri hægt að greiða til baka á þeim skilmálum sem uppsett er. Engu síður neyddustu rekstraraðilar að nýta sér þau, þar sem að fjármálastofnanir hafa sett lás á annarskonar útlán til fyrirtækja í þessum mikla og ófyrirséða vanda. Stuðningslánið hefði átt að vera upp sett sem þolinmótt fé, eitthvað í líkingu við hin nýtilkomnu hlutdeildarlán til fyrstu íbúðarkaupa. 

Í seinni bylgju faraldurs virðist lítið sem ekkert að frétta. Þau fyrirtæki sem að geta ekki haldið opnu, lítil og meðalstór ferðaþjónustufyrirtæki á landsbyggðinni, geta illa nýtt sér hlutabótaleiðina. Það eru engir viðskiptavinir og þrátt fyrir hlutabótaleið væri hún þá dýrari heldur en að hafa lokað. Af hverju eru ekki viðskiptavinir, vegna sóttvarna sem ríkið stendur fyrir. 

Þær tryggingar sem að fyrirtækin hafa virka bara ekki, rekstrarstöðvunartryggingu er ekki hægt að kaupa fyrir slíkum aðgerðum og hver er þá ábyrgur. Eru stjórnvöld, Ríkið, ekki þeir sem eiga að hafa samfélagslega ábyrgð, eru það smáfyrirtæki sem eiga að bera slíka ábyrgð?

Við hjónin höfum í 16 ár verið að byggja upp okkar fyrirtæki á landsbyggðinni og erum ekki bóla sem að spratt upp vegna ofurtúristma. Engu síður höfum við þurft að fara í fjárfestingar til að mæta ferðamannastrauminum, til að geta þjónustað betur. Allt okkar er undir, við eigum enga feitar innistæður á Tortúla, við erum bara venjulegt fólk.

Um allt land er bara fólk sem að hefur haft af ferðaþjónustunni sitt lífsviðurværi, lagt hart að sér og unnið mikið. Þetta er ekki gullgröftur, bara svona líf, sjálfstæður atvinnurekstur, ekkert meira, ekkert flókið. Fólk sem að hefur haft kjark og þor og lagt allt sitt undir. Ekki neitt fjárhættuspil, heldur leið til að skapa fjölbreytt atvinnulíf um allt land. Hver bjóst við þessu, jú, Þórólfur kannski, en var þetta í umræðunni fyrir Covid, að þetta væri eitthvað sem almenningur ætti að vera viðbúinn fyrir. Eitthvað sem við ættum að tryggja okkur fyrir, en eins og áður er getið, þá eru ekki slíkar tryggingar í boði. Ef þetta væru náttúruhamfarir, þá væri það "Hamfarasjóður" sem að við gætum gert kröfu á um bætur, en menn forðast það sem heitan eldinn að kalla þetta "hamfarir" en þetta er "Alheims hamfara-farsótt" 

Því vil ég kalla Ríkið til ábyrgðar með að mæta ferðaþjónustufyrirtækjum og þeim fyrirtækjum sem verst hafa farið vegna sóttvarnaráðstafanna, að tala við okkur. Það eru fréttir mörgum sinnum á dag um Covid 19, um fjölda smita og þann vanda sem þar er, en ekkert að frétta um hvernig á að mæta okkar vanda. Við erum líka fólk og ég neita að trúa því að við eigum engan rétt til bóta. 


Aðgerðaleysi Stjórnvalda mun kosta mörg lítil og meðalstór fyrirtæki lífið

Það er með ólíkindum hvað Stjórnvöld bregðast seint og illa við vanda fyrirtækja á tímum Covid 19. Ef ekki væri fyrir atvinnulífið, þá væri Ríkissjóður ekki til, atvinnulífið er mjólkur-kúin, en hana á bara að svelta heilu hungri. 

80% ferðaþjónustufyrirtækja eru lítil eða meðalstór fyrirtæki og að stórum hluta úti á landsbyggðinni. Eins og staðan er núna, þá eru engir ferðamenn, hvorki innlendir né erlendir. Fólki er ráðlagt að halda sig í höfuðborginni, sökum veirunnar, svo að hún dreifi sér ekki um allt land. 

Einu tillögurnar sem ég hef heyrt um er að styrkja eigi fyrirtækin uppí launakostnað - en hvað um þau sem hafa þurft að skella í lás og sagt upp sínu fólki, með það í huga að endurráða þegar hægt er að hefja starfsemi að nýju?

Hvað með áframhaldandi frystingu lána, það úrræði var alltof stutt - þessi lán duttu aftur inn núna í október, þegar að faraldurinn er í veldisvexti. Ekki er minnst á þau. Sjálf hef ég sótt um áframhaldandi frystingu fram á næsta sumar, en bankinn vill fá rekstraráætlun fyrir 2020 - 2022, hvernig á að gera slíka áætlun í þessu árferði?

Og ástæðan fyrir þeirri kröfu er sú, að yfirvöld hafa ekki farið þess á leit við fjármálastofnanir að framkvæma slíkar frystingar áframhaldandi þar til að sést til lands. Ekkert er talað um að koma lífvænlegum fyrirtækjum í skuldaskjól. Er stefnan þá eignaupptaka???

Það er deginum ljósara að þessi vetur verður ákaflega þungur fyrir ferðaþjónustuaðila, sem og stóran hluta atvinnulífsins í landinu og atvinnuleysi mun aukast enn meir. Ef ekki á að hjálpa fyrirtækjunum til að lifa af veturinn, mun það seinka batanum þegar að storminn lægir. 

Ég kalla eftir raunhæfum aðgerðum fyrir ferðaþjónustuaðila, frystingu lána, að stuðningsláni verði breytt í styrk, ef ekki, þá í þolinmótt fé, lán sem að svipar til hlutdeildarlána sem samþykkt voru á Alþingi á dögunum. Nógu verður íþyngjandi að komast uppúr þessari kreppu, en að eigi að borga til baka þessi stuðningslán á einu ári, eins og þau eru uppsett núna, eiga að vera að fullu uppgreidd á tveimur og hálfu ári. Þarna er Ríkisábyrgðin fyrir fjármálastofnanirnar, en ekki fyrirtækin, bara gálgafrestur, eins og taka eigi fyrirtækin niður eitt af öðru eftir hentisemi þeirra sem valdið hafa. 

Hvar eru efndirnar um alla hjálparpakkana sem að átti að hafa klára, eftir því hvernig framvinda faraldursins yrði. Þetta eru hamfarir á heimsvísu, eiga lítil og meðalstór fyrirtæki að axla ábyrgðina ein af þessum hamförum, erum við ein ábyrg?


Bréf ti Ferðamálaráðherra "Eigum við að taka á okkur allar skuldbindingar vegna Covid 19"

Bréf til ferðamálaráðherra Þórdísi Kolbrúnu - endilega deilið þessu, sem hafa áhuga á að ferðaþjónustan lifi af þessar hremmingar
 
Sæl Þórdís. Helga heiti ég og rek, ásamt eiginmanni mínum Eldstó Art Café á Hvolsvelli
 
Ég verð að segja að mér þykja aðgerðir sem ættlaðar eru til stuðnigs fyrirtækjum í ferðaþjónustu koma á hraða snigilsins. Ég er rétt að byrja að undirrita vegna frystinga á lánum fyrirtækisins, sem að ég sótti um frystingu á strax í marz. Ekki hef ég getað sótt eina krónu í lausafjármagn hjá bönkunum, sem að halda þétt að sér höndunum á meðan beðið er eftir Ríkisábyrgðinni þeim til handa.
 
Eins vekur það furðu mína að ekki séu neinar sértækar aðgerðir ætlaðar ferðaþjónustu aðilum, sem að þó öðrum fremur fara mjög illa út í þessum faraldri, en fyrirtæki eins og t.d. hárgreiðslustofur og snyrtistofur geta sótt um styrki vegna lokunar sem þær voru skikkaðar í af stjórnvöldum, en munu koma inn núna af tvöföldu afli, samaber að ég verð að bíða í meira en viku til að komast að hjá minni hárgreiðslustofu. Því má deila um hvort þessi fyrirtæki hafi orðið fyrir verulegu tekjutapi.
 
Þessi fyrirtæki eru ekki háð ferðamönnum að neinu verulegu leiti, ég hef enga trú á því. Öðru gegnir um ferðaþjónustuaðila. Ég verð að segja að mér finnst það vera hlutverk Ríkisins öðrum fremur að bæta okkur þann mikla skaða sem að hlýst af þessari vá, sem eru hamfarir á heimsvísu, en ekki hagsveifla af manna völdum, nema kannski ef að þessi vírus var skapaður á tilraunastofu???
 
Það sem að okkur ferðaþjónustuaðilum er boðið uppá er meiri skuldsetning og það á fyrirtæki sem að eru skuldsett fyrir - sum verulega mikið. Það er enginn afsláttur gefinn af neinu, einungis frestur, sem er alls ekki nægilega langur. Sex mánaða frysting hefur lítið að segja - þar sem að vitað er að þetta mun taka lengri tíma en svo.
 
Ég vil skora á Stjórnvöld að gera betur, já mun betur, við eigum það svo sannarlega skilið, því að ferðaþjónustan hefur mokað inn fé í Ríkis-kassann og getur Ríkið þakkað okkur hve hár gjaldeyrisforði þess er orðinn, en það var ekki raunin í síðustu kreppu, þegar að fjármálakerfið, bankarnir voru á góðri leið með að gera þjóðina gjaldþrota.
 
Samt sem áður á enn og aftur á að setja bæði axlabönd og belti á bankana, með því að bjóða þeim Ríkisábyrgð, en litli maðurinn ber KROSSINN. Því Ríkisábyrgðin er fyrir bankana, en ekki okkur. Hvað gerist ef við getum ekki borgað til baka þær skuldir sem verða til vegna Covid 19? Fæ ég afskrfiaðar mína skuldir sem bera Ríkisábyrgðina, eða eru það bara bankarnir sem fylla sína reikninga af fé Ríkisins. Hvers vegna þeir, frekar en við, afhverju ekki að styrkja ferðaþjónustu aðlia með beinum styrkjum, ef að þið ætlið hvorð eð er að taka alla ábyrgð á þessu? Hvers vegna megum við ekki lifa? Er okkar framlag í uppbyggingu á þessari atvinnugrein ekki meira metin en svo, að það eru bara orðin tóm?
 
Kveðja - G.Helga Ingadóttir
 
P.S. Hef ekki fengið nein svör, hvorki frá Þórdísi eða Bjarna Ben, en ég sendi á hann líka

« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband