31.5.2021 | 12:46
Umræðan fyrir kosningar
Ég var að hlusta á Silfrið í gær, þar sem að formenn stjórnmálaflokkanna komu saman ásamt spyrlum. Náði í þáttinn á appið hjá RÚV. Það sló mig hvað bæði Samfylkingin og Píratar tala niður ferðaþjónustuna sem mikilvæga atvinnugrein og þeirra megin áhersla væri nýsköpunarfyrirtæki, menning og listir. Eins og ferðaþjónustan á Íslandi hafi ekki neina nýsköpun innanborðs, menningu og listir.
Þegar að ferðamönnum fór að fjölga ört á Íslandi, spruttu upp fyrirtæki um allt land, til að mæta þessari eftirspurn fyrir þjónustu og alls konar frumkvöðla-, menningar- og nýsköpun í greininni varð til. En hjá formanni Píratar var ekki að heyra að hún hafi orðið vör við það.
Okkar fyrirtæki varð til árið 2000 sem leirkeraverkstæði og við erum fyrst og fremst listafólk, ég og maðurinn minn. Við höfum unnið saman í list okkar í yfir 20 ár og Eldstó varð til sem ferðaþjónustufyrirtæki í kring um okkar list, hugsað sem upplifun, fyrst og fremst, ekki með neinar hugmyndir um að verða risastór á markaði, heldur vildum við getað haft af því okkar lifibrauð, og haldið áfram að vinna að okkar list saman, hjónin.
Börnin okkar, orðin fullorðin nú öll, hafa tekið þátt í þessu með okkur, meðfram því að mennta sig. Við erum fjölskyldufyrirtæki og mörgum þykir það afar sjarmerandi, finnst vera tekið persónulega utan um sig, njóta þess að vera í fallegu umhverfi, þar sem passlega margir eru á staðnum.
Það sem að okkur sem að erum ekki í miljarða-viðskiptum, þykir erfitt og afar ósanngjarnt, er umræðan um okkur sem stöndum í fyrirtækjarekstri. Upp til hópa er er umræðan sú að við séum gírug og jafnvel glæpamenn, sem að hugsum ekki um annað en að græða á hinum lágt-launaða starfshópi sem að vinnur við greinina. Vil ég samt nefna hér, að mörg af þessum smáfyrirtækjum, hafa aldrei greitt eigendum sínum arð, þar sem að það kostar mjög mikið að byggja upp fyrirtæki, sem á að blómstra og uppfæra sig - til að vera gjaldgeng á markaði.
Þetta hljómar kannski sem væl í eyrum sumra, en engu síður er þetta sannleikurinn. Ekki allir komast í feitan tékka hjá Ríkinu, ekki geta allir verið Ríkisstarfsmenn. Allskonar fólk er til, og margir hafa þann draum að geta skapað sér og sínum lífsviðurværi á eigin vegum. Einkaframtakið er dýrmætt, þar kemstu að því hvers þú ert megnugur, allt stendur og fellur með þínum ákvörðunum og getu, en ekki síður því umhverfi sem þú ert í, þá á ég við að fólki sé gert kleift að byggja upp fyrirtæki, að þau fái meðbyr sér til hjálpar í byrjun.
Ég tel það bráðnauðsynlega aðgerð að hækka skattleysismörkin upp að 300.000 kr til að ná meiri sátt á vinnumálamarkaði, þar sem að ekki er neitt svigrúm til launahækkana, umfram það sem um er samið. Lág laun eru ofurskattlögð, þessa peninga ætti frekar að sækja í hærri sköttum á ofur-arðgreiðslur frá fyrirtækjum sem eru stór á markaði, sem og fjármálastofnunum. Því eins og ég nefndi, þá eru mörg þessi smáfyrirtæki ekki aflögufær um að greiða nokkurn arð til sinna eigenda, allt fer aftur í rekstur og viðhald.
Fjármagnseigendur eru í lykilstöðu til að velja hvernig þeir borga sína skatta, hvort þeir greiði sér ofurlaun, eða ofurarð. Og valið hlýtur að vera þar sem að skattprósentan er lægri. En það virðist vera þannig, þegar að nýir skattstofnar verða til, að þá bitni það oftast á þeim sem að minnst hafa og miðstéttinni, hina ofurríku má ekki styggja.
Fjármagnið er því með ofurhraða að safnast á æ færri hendur, jú og peningar hafa völd, það er víst deginum ljósara.
En stóra spurningin er, hafa Stjórnmálamenn og flokkar, kjark til þess að styggja fjármagnseigndur, eða hafa þeir verið keyptir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2021 | 14:20
Erfitt að fá fólk af atvinnuleysisskrá hjá Vinnumálastofnun - er þetta atvinnuleysi misskilningur
Síðast liðinn mánuð er ég búin að hafa samband við u.þ.b. 18 atvinnulausa sem að eru á skrá hjá Vinnumálastofnun, en nú er eins og menn vita, eitt mesta atvinnuleysi sem hefur mælst í langan tíma í landinu. Stærsti fjöldi atvinnulausra eru útlendingar sem að hafa komið til að vinna í ferðaþjónustunni, sem er komin í startholurnar aftur og jafnvel starfssemin hafin að nýju.
Við eins og aðrir viljum vera viðbúin og vel mönnuð vönu fólki í greininni. En ekkert gengur að fá þetta fólk til vinnu. Allavega ekki hér á Suðurlandi og ég veit að ég er ekki sú eina sem er að upplifa þetta. Að vísu eru umsóknir í pósthólfinu sem að koma erlendis frá, fólk sem vill koma til íslands að vinna, annað hvort í fyrsta sinn eða aftur. Þetta fólk er ekki á atvinnuleysis skrá hér og því getum við ekki nýtt okkur ráðningarstyrkina með því fólki og erum einnig að flytja þá inn fólk til vinnu, á meðan aðrir sem komu til Íslands erlendis frá og hafa unnið nógu lengi til að öðlast bótarétt, lýður svo vel í okkar íslenska bótakerfi að það neitar vinnu, sem að býðst.
Vinnumálastofnun virðist ekki beita neinum viðurlögum þó svo að fólk hafni störfum sem bjóðast. Ég man þá tíð, að menn þurftu að fara daglega inn á vinnumálastofnun til að stimpla sig og misstu bætur, ef þeir höfnuðu vinnu oftar en tvisvar. Þannig var það þegar ég á sínum tíma þurfti að þiggja atvinnuleysisbætur. Mér finnst sjálfsagt að fólk fái bætur, þegar að enga vinnu er að fá, en að hægt sé að gera út á að vera bara á bótum er ekki í lagi.
Eins er það afleytt að ekki sé hægt að hringja inn til Vinnumálastofnunar að tala við þá sem eru að vinna í þessum málalið "Hefjum Störf" fyrir atvinnurekendur, þegar ég hringi, þá bíð ég í ca 20 - 30 mínútur eftir að ná sambandi, bara eitt símanúmer sem að hægt er að hringja í, já og svo þegar að samband næst loksins, þá er ekki hægt að fá að tala við neinn sem að veit eitthvað, sem að getur leiðbeint og hefur svör. Engin deild sem að má gefa símann á, sem getur leiðbeint atvinnurekendum í sambandi við þessi úrræði sem að eru í gangi.
Þetta er sorgleg staðreynd og alls ekki í lagi að ekki sé hægt að nota það fólk sem er atvinnulaust á Íslandi, vegna þess að það hafnar vinnu sem að býðst. Mitt næsta skref er að hafa samband við þetta fólk sem er að leita eftir vinnu erlendis frá og ég geri það með miklum þunga í hug og hjarta. Við sem að störfum í ferðaþjónustu höfum legið undir ámæli að vilja bara útlendinga til að hægt sé að svíkja þá og pretta í launakjörum. Ef svo væri, þá hefði þetta fólk engin réttindi til atvinnuleysisbóta, því að öll uppgefin eðlileg laun koma með tryggingargjaldi frá atvinnurekenda og kaupir þennan bótarétt launþeganna, hjá Vinnumálastofnun, því að til þess er tryggingargjaldið. Spurningin er hvort að Svarti Pétur sé á hendi Vinnumálastofnunar? Alla vega er hann ekki í minni hendi.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.5.2021 | 09:37
Að gefnu tilefni og vissulega mjög þörf umræða
Takk fyrir viðbrögðin við fyrri færslu minni, þetta er þörf umræða. Ég er sjálf mjög hissa og ósátt með hvernig staðið er að þessu hjá Vinnumálastofnun. Eins og ég nefndi í blogginu mínu, þá fæ ég sem atvinnurekandi senda ferilskrá viðkomandi og ber mér síðan að reyna að ná í þann atvinnulausa, ef mér lýst svo á. Oft eru þetta afleitar ferilskrá, hvorki með símanúmeri, eða þá kannski röngu símanúmeri og netfangi, eða jafnvel ekki. Engar kennitölur og jafnvel oft ekki aldur viðkomandi, ef það er ekki nefnt í ferilskránni.
Mér þykir það skrítið að það sé í höndum atvinnurekenda að reyna að ná sambandi við fólk sem er atvinnulaust, því ætti að vera öfugt farið, já það ættu að vera starfsmenn Vinnumálastofnunar sem tala við fólk og sendir í viðtöl. Þá gæti viðkomandi hafnað vinnu áður en í viðtalið er haldið með rökum um hvers vegna. Þau rök gætu vissulega ekki verið að það sé betra að vera á bótum. En fjarlægðir, vinnutími og þess háttar ætti að gilda, þar sem að aðstæður eru mismunandi hjá fólki. Þetta þýðir að starfsmenn Vinnumálastofnunnar þurfa að vinna vinnuna sína og ef að Stofnunin hefur ekki nægan mannskap, þá er jú fullt af fólki atvinnulaust og hlýtur að vera hægt að fá einhverja til vinnu hjá Stofnuninni, skapa störf til að skapa störf.
Það er algjörlega afleitt að menn telji að laun séu ekki þess virði að vinna fyrir, en atvinnuleysisbætur eru ekki hugsaðar til að koma í staðinn fyrir léleg laun, þær eru hugsaðar sem tímabundin lausn fyrir fólk í atvinnuleit.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)