Í fljótu bragði virðist eiga að svelta litlu ferðaþjónustufyrirtækin um allt land!!!

Maður spyr sig hvað vaki fyrir Ríkisstjórninni - hvað vakir fyrir Alþingi? Upp undir tvö ár eru komin í Covid og takmörkunum vegna þess í boði Sóttvarnarlæknis og Ríkisstjórnarinnar.  Teiknaðar eru í gríð og erg faralds-sviðsmyndir vegna vandans sem að Landsspítalinn á í sökum faraldursins og ekki síst vegna þess að sóttvarnarráðstafanir eru að koma hart niður á starfsliði spítalans, sem og á hinum almenna borgara. Já og eins og ég sagði, sviðsmyndir eru teiknaðar til að hægt sé að bregðast við þessum vanda.

EN HVAR ERU SVIÐSMYNDIRNAR um þann vanda sem að skapast í atvinnulífinu vegna þessa SÓTTVARNA AÐGERÐA sem gripið er til vegna vanda spítalans. 

Enn og aftur - enginn fyrirsjáleiki, ekki einu sinni gerð tilraun til að átta sig á afleiðingunum sem þessar aðgerðir hafa á atvinnulífið með því að gera af því SVIÐSMYND.  

Ég rek ferðaþjónustufyrirtæki út á landi og vissulega hef ég reynt að sjá fyrir allt mögulegt og ómögulegt sem gæti komið fyrir í þessum faraldri og tekið ákvarðanir út frá því. En það hefur verið erfitt, þar sem að þú veist aldrei hvað má og má ekki, það sem er hægt í dag, er bannað á morgun. Þetta er í boði Sóttvarnalæknis, Ríkisstjórnarinnar og jú BÖLVAÐRAR VEIRUNNAR, sem að menn eru orðnir langþreyttir á.

Nú er loksins að glitta í aðgerðir fyrir atvinnulífið, aðgerðir sem að eru eyrnamerktar Veitingageiranum. Sjálf ætti ég að geta nýtt mér það að einhverju leiti, á eftir að skoða það betur, en stór hópur af mínum kollegum í ferðaþjónustunni eru fyrir utan þennan aðgerðapakka og það er afleitt. 

Og þá kemur stóra spurningin. Hvar í þessu öllu saman standa þá þau fyrirtæki í ferðaþjónustu sem ekki eru nefnd í þessu tiltekna frumvarpi sem að nú liggur fyrir á Alþingi? Af hverju er það sér merkt Veitingageiranum, sem naut jú stuðnings einnig í fyrri aðgerðum? Hvar standa t.a.m. litlu fyrirtækin sem eru að bjóða upp á afþreyingu og eða setja saman pakkaferðir fyrir fólk? Hver er stefna stjórnvalda hvað varðar þessi fyrirtæki? já og gististaðirnir, sem upplifa hrun, enn og aftur. Það er bara alls ekki skýrt og svörin sem hafa fengist eru á frekar óskýr. Á aftur að skilja litlu fjölskyldufyrirtækin út undan í umræðunni um ríkisaðstoð? Eiga þau ekki að fá sömu tækifæri til að lifa af og veitingageirinn? Það er ljóst á þessu frumvarpi um aðgerðapakka, að þar er stærsti hluti þessara fyrirtækja á stór-Reykjavíkur svæðinu. 

Já og þetta hangir allt á sömu spýtunni úti á landsbyggðinni, það er, ég er með veitingastað, en enga gesti, það eru ekki neinir litlir hópar að koma í mat, þessir litlu hópar sem að hin mörgu afþreyingarfyrirtæki sáu um að koma með, því að allir þurfa að borða. Afbókanir hjá mér, vegna afbókanna hjá mínum kollegum í ferðaþjónustunni.  Á þessum árstíma, sem er haustið og veturinn, skiptir þetta öllu máli. Og það er búið að leggja mikla vinnu í að byggja upp ferðaþjónustu sem á að virka allt árið, þetta er sannkallað BYGGÐAMÁL og frumskilyrði að þessi fyrirtæki lifi af þessa Covid kreppu. Það eru allt of mikil verðmæti í sköpun og þekkingu áranna á undan, til að láta hana hrynja. Stuðningur við þessa aðila er svo mikilvægur, ef við viljum geta haft allt landið í blómlegri byggð. Ég get jú fengið stuðning, en ef stór hluti af því sem byggður hefur verið upp í mínum landshluta rúllar, hvernig verða þá komandi ár hjá mínu fyrirtæki. Við erum sitt hvor hliðin á sama peningnum. Til að gaman sé að ferðast um landið okkar, þarf þjónusta að vera til staðar og hana tekur tíma að byggja upp. Á AÐ FÓRNA LITLU LANDSBYGGÐA FERÐAÞJÓNUSTUFYRIRTÆKJUNUM Á ALTARI KÓRÓNA VEIRUNNAR Í BOÐI STJÓRNVALDA?

Vonandi sjá menn að sér og drifa i að koma með aðgerðir sem gagnast sem flestum. Í síðustu aðgerðum voru það hinir stóru sem mest fengu, þeir sem höfðu jafnvel getað greitt sínum hluthöfum feitan arð. Hvernig væri að draga af þessu einhvern lærdóm og hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á því að halda. Þetta er jú sú ábyrgð sem að Stjórnvöldum ber að taka, menn vita hvað við er átt.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband