25.1.2022 | 12:57
RÖNG FORGANGSRÖÐUN segja SELFF - hópur einyrkja og lítilla fyrirtækja í ferðaþjónustu
"Bara forgangaröðunin, af hverju er ekki byrjað a heildinni og farið svo í sértæka aðstoð .. setja tappa i helvítis bátinn svo hann hætti að sökkva með manni og mús" Segir í athugasemd í hópnum.
Já og ekki nema von að spurt sé, enn þá eiga þessir aðilar að bíða eftir að tillögur um bætur til handa þessum rekstraraðilum, séu smíðaðar og lagðar svo fyrir þingið. Þetta þýða bara enn þá meiri tafir og á meðan er verið að róa lífróðurinn hjá þessum smærri fyrirtækjum, sem þó spanna allt að 90% af allri ferðaþjónustu á Íslandi. Ég vil enn og aftur undirstrika það, að vegna áræðni og dugnaðar fóru margir af þessum aðilum af stað í rekstur upp úr kreppunni 2008 og hreinlega komu Íslandi á lappirnar aftur fjárhagslega, þ.e. stórjuku gjaldeyrisforða Ríkisins.
Að byrja á því að einbeita sér að einum hópi umfram annan í stað þess að byrja á heildinni er sérkennileg nálgun og einungis til þess fallin að valda ójöfnuði innan ferðaþjónustunnar. Lausafjárstaða einyrkja og fyrirtækja er orðið áhyggjuefni þar sem faraldurinn hefur dregist á langinn og stjórnvöld hafa verið að setja á heftandi aðgerðir fram á þetta ár 2022.
Staðan er svona þrátt fyrir ríkisaðstoð, þar sem að t.d. viðspyrnustyrkurinn dekkaði aðeins 90% rekstrarkostnaðar, en það þýðir að hann var aldrei að dekka allan kostnað og sá rekstrarkostnaður sem hefur verið að safnast upp, hefur verið tekinn af lausafjáreigu fyrirtækjanna eða verið sótt í vasa rekstraraðila/eigenda. Það er því augljóst að lausafjárstaða mun hafa versnað til muna og skuldasöfnun aukist fyrirtækjum og rekstraraðilum.
Það liggur í augum uppi að til langframa gengur þetta ekki upp svona og nú við þessar síðustu sóttvarnaraðgerðir í desember 2021 og janúar 2022, sjá einyrkjar og lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu fram á mjög þungan róður og jafnvel skipsbrot rétt undan landi verði ekki tekið á þessu máli núna.
Það að bjóða upp á að þetta séu þá einhverjar vikur til viðbótar í óvissu er óásættanlegt t.a.m. ef það þarf þá að fara að segja upp fleira fólki og/ eða minnka starfshlutfall. Tekjulítið og tekjulaust fyrirtæki er ekki að fara að halda starfsfólki á launaskrá.
Það er því frumskilyrði að jafnaðar sé gætt og enginn tekin út fyrir sviga umfram annan.
Að áframhaldandi aðgerðir komist á fljótt og vel og eigi við um alla.
Að stór hópur þurfi ekki að bíða á meðan einum er sinnt, því það eru allir jafn vængbrotnir.
Síðan er ágætt að muna að skaðinn er skeður og hann þarf að bæta þó svo að sóttvarnaraðgerðum verði aflétt nú fljótlega, þá eru þær afbókanir sem hafa átt sér stað ekkert að fara koma aftur, það er endanlegt fjárhagslegt tjón og nýbókanir munu fara hægt af stað. Þetta er því skaði sem mun ná vel fram á vorið og jafnvel inn á fyrsta sumarmánuðinn, þ.e. júní 2022. Það er því mikið áhyggjuefni hvernig einyrkjum og litlum fyrirtækjum í ferðaþjónustu muni vegna, þá sérstaklega þau sem að eru úti á landi, ef ekki er tekið á málunum strax og af festu af Ríkisstjórninni og af Alþingi.
ps. Vitnað er í hópinn með leyfi SELFF G.Helga Ingadóttir
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
24.1.2022 | 17:30
ER VERIÐ AÐ GERA GRÍN AÐ SAUÐSVÖRTUM ALMÚGANUM???
Eftir að hafa skoðað hluthafaskrár hjá N1, Festi og Högum sést að 43 - 73% af eignarhaldi þessa félaga er í eigu hinna ýmsu Lífeyrissjóða. Það vekur hjá mér hugleiðingar um hverjir hafa mesta vægið hjá Samtökum Atvinnulífsins SA og hvernig það megi vera að ASÍ sem á að verja réttindi hins almenna launamanns, fékk það út að það væri kjarabót að semja um hærri prósentu af launaseðlinum til Lífeyrissjóðanna, að það að SA hækkaði mótframlagið á móti gerði í raun einhverja bót á kjörum væntanlegra lífeyrisþega. Þessi gjörningur varð til þess að farið var lengra oní vasa allra þeirra fyrirtækja sem ekki eru í eigu Sjóðanna, en hjá stóru fyrirtækjunum er þetta bara færsla úr einum vasa yfir í hinn, þar sem að þau eru jú að stærstum hluta í eigu Lífeyrissjóðanna.
Þetta er það sem hefur verið að gerast á undanförnum áratug, því að bæði tryggingargjald, sem fer í Ríkiskassann og Vinnumálastofnun og mótframlag til Lífeyrissjóðanna hefur hækkað umtalsvert upp úr kreppunni 2008 og þrátt fyrir loforð um að tryggingargjaldið lækkaði aftur síðar, en það hækkaði í einum vetfangi úr 5,75% í 8,75% í kreppunni, þá hefur ekki tekist að koma því aftur niður fyrir 6% á þessum 14 árum eftir hækkunina. En eru núverandi lífeyrisþegar í góðum málum? Nei - mig minnir að einmitt margir hafi fengið skertan hlut upp úr þeirri áðurnefndu kreppu 2008. Og í dag þurfa öryrkjar og ellilífeyrisþegar að herja kjarabaráttu sem aldrei fyrr í þvi velferðarþjóðfélagi sem Ísland á að vera.
En hjá FESTI er forstjórinn með ca 5 miljónir á mánuði í boði Lífeyrissjóðanna sem eiga jú 73% af því félagi. Er það í takt við það sem menn þekkja og hafa sér til lífsviðurværis?
Haustið 2021 keypti BLÁVARMI félag í eigu 14 lífeyrissjóða, 6,2% hlut í Bláa lóninu, en fyrir áttu þeir 30% og voru þar með komnir með 36,5% í sinn hlut. Kaupverðið var ca 3,8 miljarðar ISK og hefur því komið sér vel á erfiðum COVID tímum. Eftir því sem ég best man fjárfesti Bláa Lónið einnig í Iceland Air þegar að verið var að bjarga flugfélaginu frá gjaldþroti í Covid kreppunni. Bláa Lónið fékk umtalsverða styrki úr Ríkissjóði, en gátu samt borgað út arð til hluthafa, voru ekki blankari en það. Ég verð að viðurkenna að ég man ekki alveg hvort gerð var krafa um einhverja endurgreiðslu á hendur hluthöfunum, en rámar í það þó.
Það er því augljóst að í öllum stærstu fyrirtækjunum á Íslenskum markaði eiga lífeyrissjóðirnir stóran hlut. Menn líta kannski svo á að það sé þá almenningur sem eigi í þessum fyrirtækjum, þar sem að Sjóðirnir eiga jú að vera í eigu sjóðsfélaga. Það er samt ekki verið að fjárfesti í almenningsþágu, ég get ekki séð það, því að ef hægt er að þrengja að kjörum lífeyrisþeganna á sama tíma og þeir geta verið að fjárfesta á markaði, þá er þetta allt mjög einkennilegt. Eins það að vegna ávöxtunarkröfu Sjóðanna sé það í þeirra reglugerð að ekki megi byggja hjúkrunarheimili og eða íbúðir fyrir aldraða. En það má gamla með sjóðspeningana og fjárfesta í Icaland Air og Bláa Lóninu á tímum Covid. Ekki það að trúlega mun þessi fyrirtæki standa af sér þessa kreppu, enda nóg af fjármagninu þar, alla vega í Bláa Lóninu.
Hvað er ég að fara með því að spyrja hvort sé verið að gera grín að sauðsvörtum almúganum. Jú - Það er talað um ávöxtunarkröfur lífeyrissjóðanna, eins og það sé í þágu hins almenna borgara, en birtist mér sem leikur á exelskjali, þar sem að topparnir verðlauna sjálfa sig fyrir fallega útkomu á pappír, en ekki á borði lífeyrisþeganna. Ekki má byggja íbúðir fyrir aldraða og ekki má taka á þeim tví-og jafnvel þrísköttunum sem að lífeyrisþegar þurfa að þola. Og lífeyrir þeganna erfist ekki, heldur hirðir sjóðurinn lífeyrinn við dauða lífeyrisþegans að mestu leiti, einhver makalífeyrir er í mjög skamman tíma eftir dauða lífeyrisþegans. Sá lífeyrisþegi sem að deyr áður en hann fer að taka út lífeyri tapar öllum sínum lífeyrissparnaði til sjóðsins, að undanskildum séreignarsparnaði. Hvers vegna er ekki öll sú prósenta sem greiðist sannarlega af launaseðli launþegans - 4% - og jafnvel hluti af mótframlagi atvinnurekandans séreign lífeyrisþegans?
Lífeyrissjóðirnir eru í eigu almennings, en gagnast alls ekki sem skyldi, vegna þeirra reglugerða sem þeir hafa sett og bundið sig við. Ekki er mikill vilji til að breyta því fyrirkomulagi sem nú er, hvers vegna er það? Hverjir græða mest á núverandi fyrirkomulagi og reglugerð um lífeyrisgreiðslur, reglugerð um ávöxtunarkröfur og reglugerð um í hverju má fjárfesta og hverju ekki? ÞAÐ ER STÓRA SPURNINGIN!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
21.1.2022 | 21:18
Í fljótu bragði virðist eiga að svelta litlu ferðaþjónustufyrirtækin um allt land!!!
Maður spyr sig hvað vaki fyrir Ríkisstjórninni - hvað vakir fyrir Alþingi? Upp undir tvö ár eru komin í Covid og takmörkunum vegna þess í boði Sóttvarnarlæknis og Ríkisstjórnarinnar. Teiknaðar eru í gríð og erg faralds-sviðsmyndir vegna vandans sem að Landsspítalinn á í sökum faraldursins og ekki síst vegna þess að sóttvarnarráðstafanir eru að koma hart niður á starfsliði spítalans, sem og á hinum almenna borgara. Já og eins og ég sagði, sviðsmyndir eru teiknaðar til að hægt sé að bregðast við þessum vanda.
EN HVAR ERU SVIÐSMYNDIRNAR um þann vanda sem að skapast í atvinnulífinu vegna þessa SÓTTVARNA AÐGERÐA sem gripið er til vegna vanda spítalans.
Enn og aftur - enginn fyrirsjáleiki, ekki einu sinni gerð tilraun til að átta sig á afleiðingunum sem þessar aðgerðir hafa á atvinnulífið með því að gera af því SVIÐSMYND.
Ég rek ferðaþjónustufyrirtæki út á landi og vissulega hef ég reynt að sjá fyrir allt mögulegt og ómögulegt sem gæti komið fyrir í þessum faraldri og tekið ákvarðanir út frá því. En það hefur verið erfitt, þar sem að þú veist aldrei hvað má og má ekki, það sem er hægt í dag, er bannað á morgun. Þetta er í boði Sóttvarnalæknis, Ríkisstjórnarinnar og jú BÖLVAÐRAR VEIRUNNAR, sem að menn eru orðnir langþreyttir á.
Nú er loksins að glitta í aðgerðir fyrir atvinnulífið, aðgerðir sem að eru eyrnamerktar Veitingageiranum. Sjálf ætti ég að geta nýtt mér það að einhverju leiti, á eftir að skoða það betur, en stór hópur af mínum kollegum í ferðaþjónustunni eru fyrir utan þennan aðgerðapakka og það er afleitt.
Og þá kemur stóra spurningin. Hvar í þessu öllu saman standa þá þau fyrirtæki í ferðaþjónustu sem ekki eru nefnd í þessu tiltekna frumvarpi sem að nú liggur fyrir á Alþingi? Af hverju er það sér merkt Veitingageiranum, sem naut jú stuðnings einnig í fyrri aðgerðum? Hvar standa t.a.m. litlu fyrirtækin sem eru að bjóða upp á afþreyingu og eða setja saman pakkaferðir fyrir fólk? Hver er stefna stjórnvalda hvað varðar þessi fyrirtæki? já og gististaðirnir, sem upplifa hrun, enn og aftur. Það er bara alls ekki skýrt og svörin sem hafa fengist eru á frekar óskýr. Á aftur að skilja litlu fjölskyldufyrirtækin út undan í umræðunni um ríkisaðstoð? Eiga þau ekki að fá sömu tækifæri til að lifa af og veitingageirinn? Það er ljóst á þessu frumvarpi um aðgerðapakka, að þar er stærsti hluti þessara fyrirtækja á stór-Reykjavíkur svæðinu.
Já og þetta hangir allt á sömu spýtunni úti á landsbyggðinni, það er, ég er með veitingastað, en enga gesti, það eru ekki neinir litlir hópar að koma í mat, þessir litlu hópar sem að hin mörgu afþreyingarfyrirtæki sáu um að koma með, því að allir þurfa að borða. Afbókanir hjá mér, vegna afbókanna hjá mínum kollegum í ferðaþjónustunni. Á þessum árstíma, sem er haustið og veturinn, skiptir þetta öllu máli. Og það er búið að leggja mikla vinnu í að byggja upp ferðaþjónustu sem á að virka allt árið, þetta er sannkallað BYGGÐAMÁL og frumskilyrði að þessi fyrirtæki lifi af þessa Covid kreppu. Það eru allt of mikil verðmæti í sköpun og þekkingu áranna á undan, til að láta hana hrynja. Stuðningur við þessa aðila er svo mikilvægur, ef við viljum geta haft allt landið í blómlegri byggð. Ég get jú fengið stuðning, en ef stór hluti af því sem byggður hefur verið upp í mínum landshluta rúllar, hvernig verða þá komandi ár hjá mínu fyrirtæki. Við erum sitt hvor hliðin á sama peningnum. Til að gaman sé að ferðast um landið okkar, þarf þjónusta að vera til staðar og hana tekur tíma að byggja upp. Á AÐ FÓRNA LITLU LANDSBYGGÐA FERÐAÞJÓNUSTUFYRIRTÆKJUNUM Á ALTARI KÓRÓNA VEIRUNNAR Í BOÐI STJÓRNVALDA?
Vonandi sjá menn að sér og drifa i að koma með aðgerðir sem gagnast sem flestum. Í síðustu aðgerðum voru það hinir stóru sem mest fengu, þeir sem höfðu jafnvel getað greitt sínum hluthöfum feitan arð. Hvernig væri að draga af þessu einhvern lærdóm og hjálpa þeim sem raunverulega þurfa á því að halda. Þetta er jú sú ábyrgð sem að Stjórnvöldum ber að taka, menn vita hvað við er átt.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.1.2022 | 12:37
Erum á leið út af sporinu
Ólíklegt er að nýlegar sóttvarnaaðgerðir stjórnvalda muni skila tilætluðum árangri, enda er faraldurinn mestur meðal barna, unglinga og ungra fullorðinna í mennta- og háskóla. Þetta segir Ragnar Freyr Ingvarsson, sérfræðingur í lyf- og gigtarlækningum og fyrrverandi yfirmaður Covid-göngudeildar Landspítala. Sjá frétt á MBL
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.1.2022 | 18:37
Út að ganga, ræktin, næra sig rétt og sofa vel, en samt eru þyngslin undirliggjandi!
Þetta ástand bæði hér heima á Íslandi og um veröld víða, vegna Covid og sóttvarnaaðgerða í heiminum, er virkilega farið að taka sinn toll. Það sem hrellir mig þó hvað mest eru sóttvarnaraðgerðir, sem að mér finnast ekki vera að skila neinu nema ótta og kvíða, sem og samfélagslegu hruni, bæði félagslegu og fjárhagslegu.
Það ber ekki öllum saman um hversu hættuleg þessi veira er, það virðist sem hún sé að breytast í frekar sakleysislega pesti, hjá stærstum hópi þeirra sem eiga að bera veiruna í sér, samkvæmt mælingum. Það er sem sagt bannað í dag að fá pest, því þá verður maður að fara í einangrun frá öðru fólki.
Því er verið að eyða tíma og fjármunum í öll þessi test og það eru sko engar smá upphæðir, frekar en að nota þá í að leysa vanda heilbrigðiskerfisins og Landsspítalans. Veirunni verður ekki útrýmt, það hefur vissulega sýnt sig.
Ég sem ríkisborgari þessa lands finnst verið að skerða mín réttindi meir og meir, með hverjum deginum sem að líður, en rökin fyrir því eru míglek í meira lagi. Hömlur virðast vera settar hamlanna vegna, en ekki fyrir mig, ekki fyrir okkur almenning, ofurstjórnun sem t.d. er í gangi í Ástralíu, hugnast jafnvel mörgum hér á landi, sem að eru ekki mínir skoðanabræður.
Að búa til fallegu og ljótu börnin hennar Evu, bólusettir og óbólusettir. Fólki finnst það bara í lagi að neyða fólk í bólusetningar með tilraunalyfjum, þar sem að lyfjafyrirtækin eru án allrar ábyrgðar. Sjálf er ég bólusett með slíkum lyfjum, tók þá ákvörðun, þar sem að loforð voru gefin um að þá færi lífið aftur í eðlilegar skorður, þegar að búið væri að bólusetja u.þ.b. 70% þjóðarinnar. En svo er nú ekki og þeir fullorðnu einstaklingar sem að eru óbólusettir eru gerðir ábyrgir, ekki þetta tilraunabóluefni sem er ekki að virka eins og vonir stóðu til, en samt á að neyða fólk í að láta dæla meiru af því í sig, þar sem að bólusetningarpassinn minn eftir tvær sprautur er nú orðinn úrheldur.
Er það virkilega svo að menn láti bara leiða sig áfram án allrar gagnrýni, án þess að spyrja spurninga og án þess að sýnilegur árangur sé af þessum sprautum, eins og lagt var upp með.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)