3.11.2024 | 15:44
Þjónustustörf fyrir neðan virðingu Kristrúnar Frostadóttur!
Ég legg mig fram við að fylgjast vel með öllu sem menn hafa að segja í þessari kosningabaráttu sem nú er hafin. Ekki það að ég hafi ekki gert upp minn hug, en það er mikilvægt að fylgjast vel með loforðaflaumnum, til að átta sig á hvort efndir verði á þeim loforðum í fyllingu tímans og hvet ég því alla kosningabæra menn (konur eru líka menn) að gera slíkt hið sama.
Ég hef tekið eftir því að Kristrúnu er tíðrætt um hið góða og skilvirka plan sem að Samfylkingin er með á prjónum, er ég er samt engu nær um hvar þau gæði liggja, þar sem að hún bendir bara á heimasíðu Samfylkingarinnar, frekar en að gefa með eigin orðum innsýn inn í það plan, nema kannski að hún hafi nefnt skattahækkanir. Ekki samt á almenning segir hún, en þá sem að hún telur að hafi meiri peninga en þeim er hollt.
Hvar mörkin liggja þar, er mér ekki alveg ljóst, við hvað mikla innkomu miðar Samfylkingin? Ég er samt ekki að segja að hinir ofurríku eigi ekki að greiða meira, ég vil bara fá að vita hvar þessar skattheimtur ættu að byrja, við hvaða þak.
Því segi ég að það væri í fínu lagi mín vegna, svo lengi sem að skattheimtan væri skýr og skilvirk, væri sótt þar sem að menn baða sig í svo miklum auði að þeir hreinlega vita ekki hvað á að gera við hann og þess vegna flott að setja stærri hluta í almannaþágu í hærri sköttum, en svo lengi sem að það kemur ekki til baka í formi hærra vöruverðs.
Eins gæti það líka leitt til þess að menn flytji höfuðstöðvar sínar út landi þar sem að skattparadís er til staðar og þá er nú ekki mikið að græða á þeirri skattheimtu.
Annað mál er mér þó mikilvægara og snertir mig meira persónulega. Það eru yfirlýsingar Kristrúnar Frostadóttur og Þórhildar Sunnu (Pírata) um störf í ferðaþjónustu og mikilvægi þeirrar atvinnugreinar, sem að þær virðast sjá í allt öðru ljósi en við sem að störfum í henni.
Að hafa orðræðuna með þeim hætti að í henni starfi nánast einungis útlendingar á lélegum launum sem að við sjálf, íslendingar leggjum okkur ekki svo lágt til að vinna við. Þessi orðræða lýsir að mínu viti mikilli útlendinga andúð og mann fyrirlitningu. Þar sem að mér er málið skylt og í mínu fyrirtæki hef ég jú í vinnu fólk frá hinum ýmsu löndum og þar á meðal íslendinga sem að eru greinilega svo vitlausir að láta fá sig út í að vinna svo auvirðileg störf. Þar á meðal hlýt ég sjálf að vera talin, þar sem að við hjónin höfum verið allt frá árinu 2000 að koma þessu fyrirtæki upp, fyrst mjög lítið á minni kennitölu og síðan sem ehf frá árinu 2004 og er sú kennitala óflekkuð.
Það virðist alveg hafa farið framhjá Kristrúnu og Þórhildi Sunnu hve ferðaþjónustan hefur byggt upp samfélög allt í kring um landið og skapað fólki betri lífskjör. Það að útlendingar hafi komið til starfa er í sjálfu sér ekki óeðlilegt, þar sem að íslendingar eru jú, mjög fámenn þjóð. En að beina umræðunni að öllu því mögulega neikvæða sem hefur átt sér stað, eins og t.d. mannsals, á kostnað þess jákvæða, t.d. hvernig vöxtur ferðaþjónustunnar kom Íslandi á réttan kjöl eftir heimskreppu, er látið liggja á milli hluta og nú er orðræðan sú, að ferðaþjónustan sé helsti óvinur íslensks þjóðlífs.
En hverjir eru það sem að starfa í ferðaþjónustu? Eru það einungs þeir sem að hýsa ferðamenn og fara með þá í ferðir? Þar sem að ferðamenn eru fólk / manneskjur, þá liggur það í hlutarins eðli að þeir nota alla þá þjónustu sem að við sjálf notum og þá erum við öll sem þetta land byggjum, meira og minna í ferðaþjónustu. Þar eru engar skýrar línur á milli. Eins njóta þeir sem að hér búa einnig þeirrar sömu þjónustu og okkar gestir, á ferðum sínum um landið.
Kristrúnu er tíðrætt um að hafa heilstæða sýn á málin og vil ég svo sannarlega hvetja hana í þeim ásetningi. Ég vona svo sannarlega að hún endurskoði málflutning sinn í okkar garð, en ég tek þetta mjög persónulega og finnst að mér vegið og kollegum mínum í öllum þeim þjónustustörfum þvert um landið, sem og á höfuðborgarsvæðinu. Ég vil bara benda á það að það eru samningar milli ASÍ og SA sem laun eru greidd eftir og skattar og önnur gjöld greiðast einnig til Sveitarfélaga og Ríkisins. Ég frábið því þessa orðræðu á þessu láglauna tali, þar sem að það er ljós staðreynd að t.d. Veitingageirinn greiðir allt of háan hluta af sinni veltu í launakostnað og ekki þykir Ísland vera ódýrt land, þegar kemur að þeirri þjónustu. Síðast og ekki síst, Ríkið og þar með Alþingi er rekið af atvinnulífinu, gleymum því ekki. Því finnst mér það lámarks kurteisi að sýna okkur þá kurteisi að njóta sannmælis, en vera ekki með dylgjur um þá atvinnugrein sem að við höfum valið að starfa í, sem að er Veitingageirinn hjá undirritaðri.
Höfundur er eigandi Eldstó Art Café á Hvolsvelli
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Orð í tíma töluð!
Guðjón Bragi Benediktsson, 4.11.2024 kl. 20:57
Ekki eru nú heldur skrif Kristrúnar í Morgunblaðinu í dag um þetta "plan"
trúverðug
"Það gerum við með því að taka til í ríkisrekstri og fara betur með fé – auk þess að ráðast í bráðaaðgerðir í húsnæðismálum, afla tekna með sanngjörnum hætti og lögfesta stöðug leikareglu í ríkisfjármálum"
Þetta er ekki plan bara fögur óraunhæf fyrirheit
Grímur Kjartansson, 5.11.2024 kl. 08:53
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.