Svörin sem að koma frá RSK er að verið sé að vinna i þessu, engin tímamörk, einnig mikið að gera í öðrum málum hjá tæknimönnum. Og við aumingjarnir sem að stöndum í rekstri á litlum og meðalstórum fyrirtækjum, héldum að þetta væri forgangsmál, heimsku við.
Það er nú svo að formið fyrir Viðspyrnustyrkina er til, það þarf bara smá uppfærslu á það, engin hönnun á nýju forriti, eða þannig. Hvað varðar styrki fyrir Veitingahúsa-rekstraraðila, þá ætti nú ekki að vera svo flókið að hanna þetta, þar sem að styðjast mætti við það sem að þegar er til í forritun á öðrum leiðum. Við erum á 21.öldinni og erum ekki að finna upp hjólið.
Það er algjörlega afleitt að ekki sé spítt í lófana með þessi mál, en byrjað var að tala um nauðsyn þessara aðgerða strax um áramótin og nú er komið fram í marz. Enginn að flýta sér, eða þannig.
Í SELFF (Samstöðuhópur smærri fyrirtækja og einyrkja í ferðaþjónustu) hafa menn miklar áhyggjur af því að ef þessir styrkir komi ekki til afgreiðslu núna í marz, þá eigi margir eftir að detta út sem styrkhæfir, vegna þess
Birt með leifi SELFF
"að 1. apríl, þá er komið að því að skila inn gögnum vegna endurmats tryggingafjárhæða, þar er m.a. krafist vottorðs um skuldleysi opinberra gjalda og við lífeyrissjóði!!! ... nú erum við að tala um aðila í ferðaþjónustu, sem vegna aðgerða stjórnvalda eru að lenda í skuld á opinberum gjöldum og við lífeyrissjóði... skili fyrirtæki þessu ekki inn er hætta á að þau missi ferðaskrifstofuleyfi sín... ERUÐ ÞIÐ AÐ ÁTTA YKKUR Á ÞVÍ HVERSU ALVARLEGT ÞAÐ ER!"
Því eru allar þessar tafir á að koma þessum styrkjum í umsóknarlegt ferli skelfilegar fyrir rekstaraðila.
Úr tölvupósti Ferðamálastofu, sendur til leyfishafa 3. mars 2022
"Skilafrestur gagna vegna endurmats tryggingafjárhæða er til 1. apríl
Opnað hefur verið fyrir skil á gögnum vegna endurmats tryggingafjárhæða ferðaskrifstofa (Árleg skil). Frestur til skila er 1. apríl n.k. Það er því mikilvægt að ferðaskrifstofur fari að huga að skilum og að gera ráðstafanir þar sem ársreikningur þarf að vera tilbúinn 1. apríl n.k.
Ársreikningar
Minnt er á að frestur til skila ársreiknings til Ferðamálastofu er annar en frestur til skila til ársreikningaskrár. Það gilda sérreglur um skil ársreikninga ferðaskrifstofa til Ferðamálastofu sem ber að fara eftir og ganga sérreglurnar framar almennum lögum um skil ársreikninga.
Vottorð um skuldleysi vegna opinberra gjalda og við lífeyrissjóði
Ferðatryggingasjóði ber að tryggja hagsmuni sjóðsins og sjóðsaðila, ákveða hlutfall iðgjalda ár hvert og meta mögulega áhættu á útgreiðslum úr sjóðnum með því að horfa til rekstraráhættu ferðaskrifstofa. Til að Ferðatryggingasjóður geti með sem bestum hætti gegnt hlutverki sínu fer sjóðurinn fram á að ferðaskrifstofur leggi fram eftirfarandi vottorð:
- Skuldleysisvottorðvegna opinberra gjalda,
- Vottorð frá lífeyrissjóði/-sjóðunum greiðslustöðu gagnvart lífeyrissjóði/-sjóðum.
...
Ekki veittir frestir
Ekki er unnt að verða við beiðnum um fresti eða undanþágur þar sem skilafrestur árlegra gagna er lögbundinn. Ferðatryggingasjóður er samtryggingarkerfi ferðaskrifstofa. Jafnræði þarf að gilda og allar að lúta sömu reglum.
Leiðbeiningar og ný eyðublöð má finna á . Ef eitthvað er óljóst er hægt að hafa samband við Ferðamálastofu á símatíma stofnunarinnar milli 10 og 12 alla virka daga eða senda fyrirspurn á arlegskil@ferdamalastofa.is." (tilvitnun lýkur)
Af þessu má vera ljóst, að margir aðilar í ferðaþjónustu hafa ekkert meiri tíma til ráðstöfunar til þess að stöðva skuldasöfnun, 1. apríl er dagurinn sem Ferðamálastofa gefur og eins og hér kemur fram þá eru ekki veittir neinir frestir... og ef Skattinum og yfirboðurum Skattsins finnst það í lagi að þetta taki þennan tíma þá er ljóst að hér er pottur brotinn. Sé skuldleysi ekki til staðar 1. apríl.... hvað þá? Bendum á að meginhluti viðspyrnustyrkja fer í rekstarkostnað er viðkemur sköttum og gjöldum ríkis og sveitarfélaga og greiðslu til lífeyrissjóða!
Skuldir safnast upp þar sem ekki er hægt að komast í úrræðin sem félög og fyrirtæki eiga rétt á! Séu þessar skuldir orðnar uppsafnaðar í lok mars... og krafan frá Ferðamálastofu er um skuldleysi við opinberar stofnanir... hvað eiga fyrirtæki þá til bragðs að taka! ... hér hefur verið hent út björgunarhring en það er búið að setja vaselín á hann svo enginn nær að grípa í hann og halda sér til þess að komast að landi... þetta er bara verulega illa gert gagnvart þessum aðilum." tilvitnun lýkur
Sjálf stend ég ekki í rekstri á ferðaskrifstofu, en fyrir okkur sem að erum með rekstur úti á landi, hangir þetta allt á sömu spýtunni, öll ferðaþjónustan, við styðjum hvort við annað. Fákeppni er ekki góð í stóra samhenginu, fjölbreytni og val er mun meira aðlaðandi en ein sjoppa, eða þannig. Það er því einlæg ósk mín að öll sú fjölbreytni sem hefur orðið til á síðasta áratug í ferðaþjónustu, lifi þetta af. Lítil og meðalstór fyrirtæki skipta máli og gera lífið fjölbreyttara og fallegra. Ég skora því á Stjórnvöld að beita sér við RSK að setja okkar mál í þann forgang sem lofað var.
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.