29.11.2020 | 14:29
Samkeppniseftirlitið deilir sjónarmiðum lítilla og meðalstórra fyrirtækja í Ferðaþjónustu til Stjórnvalda
Má segja að í þessu bréfi fari sjónarmið smærri ferðaþjónustuaðila og samkeppniseftirlitsins vel saman.
Bjarnheiður Jóhannsdóttir skrifar í pistli inni á facebook grúppu
"Samstaða smærri fyrirtækja og einyrkja í ferðaþjónustu"
"Staða ferðaþjónustunnar og stuðningur hins opinbera
Mig langar að koma fram með sjónarhorn sem mér finnst hafa farið fyrir ofan garð og neðan hjá bæði Samtök ferðaþjónustunnar og Ferðamálastofa / Icelandic Tourist Board í þeirra umfjöllun um stöðuna og framtíðina í greininni.
Þær aðgerðir sem ríkið hefur staðið fyrir vegna covid og gagnast ferðaþjónustu, eins og öðrum greinum, hafa stutt við nokkurn hóp ferðaþjónustufyrirtækja, mestmegnis miðlungs stór fyrirtæki (á íslenskan mælikvarða), ein einnig nýst þeim stærstu, Þau hafa stærðar sinnar vegna óneitanlega fleiri bjargráð en þau minni, varðandi fjármögnun.
Litlu fyrirtækin hafa setið dálítið eftir. Stuðningslán hafa eflaust nýst einhverjum þeirra, en þó tæplega ráðið úrslitum, því ekki var um stóra mögulega upphæð að ræða, miðað við veltu fyrirtækjanna.
Tekjufalls- og viðspyrnustyrkirnir hafa verið útfærðir á dálítið ósanngjarnan máta, að því leyti að þak á stuðning á að miða við laun og reiknað endurgjald á hverjum tíma, en mörg minnstu fyrirtækin eru með talsvert af útvistuðum verkefnum, s.s. bókhald, markaðsmál og fleira, á meðan stærri fyrirtæki eru með þessi störf innan dyra. Þannig myndast skekkja. Eins er umhugsunarefni hvort endilega eigi yfirleitt að hengja stuðninginn við störf, en kannski meira við tekjufall almennt. Tæknilega eru þessar lausnir þannig að það þarf að verja talsverðum tíma í að lesa sig í gegnum reglurnar til að skilja þær. Skatturinn hefur m.a. misskilið og oftúlkað/rangtúlkað lög sem fram hafa komið, en sem betur fer hafa þingmenn veitt aðhald og komið í veg fyrir mistök Skattsins. Gott og vel, kannski ágætt að hafa tekjufallsstyrkinn af þessum toga, en hvers vegna líka viðspyrnuna?
Ég hef ekki séð góðan rökstuðning fyrir því að það þurfi endilega að miða við laun eða reiknað endurgjald, en ekki annan rekstrarkostnað, við styrkveitingar. Það er nefnilega ekki lengur verið að verja störf, þau eru feykilega mörg farin í bili og það þarf að einbeita sér að því að verja innviði fyrirtækjanna næst, þannig að þeir hverfi ekki líka. Kannski hefði þessi aðferð virkað betur fyrr í faraldrinum, en það lifir ekkert fyrirtæki í nærri ár með fólk á launaskrá, en engar tekjur.
Sértæku aðgerðirnar fyrir ferðaþjónustuna hafa ekki verið ýkja margar, en þó nokkrar, í formi markaðssetningar og ímyndarmála. Ekki með beinum stuðningi við fyrirtækin, heldur undir hatti Íslandsstofu og markaðastofanna. Sumt heppnast vel og skilað sér, en annað kannski ekki eins vel, enda erfitt að skipuleggja markaðsstarf í miðjum heimsfaraldri.
En hvaða áhrif hefur það að láta litlu aðilana sitja eftir?
Það eru allskonar fyrirtæki í ferðaþjónustu, allt frá gistingu í heimahúsum, veitingum, menningarstarfsemi og flúðasiglingum, til alls lags sérhæfðrar þjónustu við einstaklinga og hópa á ferðinni. Eðlilega eru hlutfallslega fleiri af aðilunum á landsbyggðinni litlir og jafnvel ekki opið alveg allt árið, á meðan öfugri aðilarnir eru frekar í þéttbýli og tengdir fjölförnum stöðum, s.s. Gullna hringnum. Ef aðilum í dreifðari byggðum fækkar vegna ástandsins og skorts á heppilegum stuðningi, þá má búast við að nokkrir hlutir gerist samhliða.
1. Fjölförnu leiðirnar verða fyrir meiri ágangi, þar sem valkostum fækkar, sem þýðir að fleiri ferðamenn fá ekki þá upplifun af landinu sem þeir eru að leita að.
2. Einn aðal markhópur í ferðaþjónustunni, sjálfstæði landkönnuðurinn kemst ekki ferða sinna, nema yfir stutt tímabil á árinu og ekki eins víða um landið og áður. Jafnvel þótt hann finni gistingu, er hætta á því að hann skilji líka minna eftir sig, þar sem þjónusta við hann að öðru leyti er minni.
3. Sérstaða og þjónustufjölbreytni í ferðaþjónustu á Íslandi minnkar verulega og þannig tapast verðmætar syllur á markaði, sem jafnvel hefur tekið langan tíma að byggja upp.
4. Færri gestir sem hingað koma kynnast venjulegum Íslendingum, sem geta boðið persónulega þjónustu, smæðar sinnar vegna.
5. Annars konar þjónusta á landsbyggðinni, sem hefur talsverðar tekjur af ferðamönnum, þótt hún þjóni einnig heimamönnum, mun þurfa að draga saman seglin. (t.d. bílaverkstæði og matvöruverslanir).
6. Með mikilli fækkun fyrirtækja í ferðaþjónustu tapast viðskiptasambönd og þekking í miklum mæli, sem mun taka langan tíma að byggja upp aftur.
Þeir sem starfa í hefðbundnum greinum, þar sem innviðirnir eru fasteignir og tæki eiga kannski erfitt með að átta sig á því hvar verðmætin liggja í ferðaþjónustunni. Félagslynt fólk, persónuleg tengsl, markaðsefni, sérstaða, þekking á menningarheimum, gott skipulag, reynsla af akstri í ófærð, húmor, hlýja, þekking á náttúrunni og sögunni, þetta eru allt perlurnar sem skapa verðmætin, en ekki rúturnar og hótelin, sem slík.
Ég varð satt að segja ansi hissa þegar ég sá viðtal við ferðamálastjóra í síðustu viku, þar sem hann taldi greinina geta hrokkið hratt í gang aftur. Það er gríðarmikið horfið af viðskiptatengslum, mikið horfið af hæfni í formi starfsfólks og það er nánast búið haustið, sem er jú tíminn til að markaðssetja næsta ár. Tengslin eru ekki aðeins brotin hér á landi, heldur hafa ferðaskrifstofur erlendis misst mikið af sínu fólki og ekki sjálfgefið að nýtt starfsfólk þeirra kaupi Ísland við fyrsta símtal.
Ég held að það sé kominn tími til að taka niður rósrauðu gleraugun. Auðvitað tökum við sem á annað borð lifum þetta af á honum stóra okkar þegar allt fer í gang, en það verður eitthvað svolítið fátæklegra um að litast. Hið opinbera má líka virkilega fara að bretta upp ermarnar og fara að beita fleiri meðulum. Eins má gjarnan fara að horfa til bankanna, þeir hafa setið svolítið hjá í þessu öllu. Nema reyndar að þeir hafa verið að leysa til sín fyrirtæki
sem er ekki að hjálpa greininni neitt."
Birt með leifi Bjarnheiðar Jóhannsdóttur og hefur hún kæra þökk fyrir
Meginflokkur: Bloggar | Aukaflokkar: Kjaramál, Stjórnmál og samfélag, Vefurinn | Breytt s.d. kl. 14:56 | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.