17.11.2020 | 16:42
Tekjufallsstyrkir, sem ætlaðir voru litlum fyrirtækjum og einyrkjum opnir fyrir alla!
Nú í endann nóvember munu mörg fyrirtæki fara á gapastokkinn, fjölda-eignaupptaka mun eiga sér stað. Lán sem að fóru í frystingu i marz síðastliðinn, duttu inn aftur í byrjun október og bankarnir fengu frjálsar hendur með hvað gera ætti við þessa skuldara.
Ennþá eru úrræði Ríkisstjórnarinnar á hraða snigilsins, ennþá er verið að föndra saman leiðir, ennþá verða minnstu rekstraraðilarnir í ferðaþjónustunni fyrir barðinu á þessari bið, sem mun kosta marga allt.
Útlit er fyrir að þeir fjármunir sem ætlaðir eru í væntanlega tekjufalls-styrki fara að mestu í vasa þeirra sem ekki flokkast sem litlir rekstraaðilar, þar sem að ekkert þak er á hversu stórt fyrirtækið er, né er neitt þak á ársveltu fyrirtækisins. Því munu fyrirtæki sem hafa kannski 200 starfsmenn, geta sótt um tekjufalls-styrki fyrir allt að 5 starfsmenn, hafi fyrirtækið orðið fyrir því að velta hafi minnkað milli ára, allt að 40%.
Þar sem að fjármunir þeir sem að ætlað er í þessa styrki eru takmarkaðir, þá munu örugglega færri fá en þurfa og líkur á að það verði þeir sem að minnst hafa, eins og virðist tíðkast svo gjarnan á okkar ástkæra landi.
Lítil fyrirtæki og einyrkjar gerðu ákall um að á þá yrði hlustað, að skjótt yrði gripið til aðgerða, en þetta óp virðist hljóma eins og aumlegt væl í eyrum þeirra sem hafa afdrif almennings í sínum höndum. Ekki verður opnað fyrr en í desember fyrir umsóknir um tekjufalls-styrki, það passar, því að þá verður búið að keyra nokkra vel útvalda í gjaldþrot. Síðan taka menn sér allt að tvo mánuði til að afgreiða þessi mál, því að vissulega þurfa þau að halda jólin og fá gott frí, í það minnsta tvær vikur, til að safna kröftum í þessi krefjandi verkefni. Ekki er búið að hanna viðspyrnu-styrkina, ætli þeir verði tilbúnir til umsóknar undir vorið 2021?
Þetta eru staðreyndir, en ekki finnst samt Ríkisstjórninni nein þörf á að koma þessum aðilum í skuldaskjól og beina tilmælum sínum til fjármálafyrirtækja að frysta áframhaldandi skuldir þessara fyrirtækja, meðan verið er að vinna í þeirra málum. Einkennileg afstaða, verð ég að segja, eða kannski ekki. Kannski er það stefnan að keyra sem flesta í þrot, þá þarf ekki að styðja við þau fyrirtæki, þau eru ekki lengur til.
Síðan er það önnur saga hvernig þessir styrkir líta út;
Þetta segir Bjarni Ben í viðtali 16 okt 2020.
Eins og áður segir er frumvarpinu ætlað að aðstoða einyrkja og litla rekstraraðila sem hafa orðið fyrir verulegum tekjumissi og er liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til að draga úr tjóni vegna faraldursins og leggja grunn fyrir öfluga viðspyrnu í kjölfar hans.
Tekjufallsstyrkjum er m.a. ætlað að styðja minni rekstraraðila sem starfa í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni aðila í rekstri. Styrkirnir munu jafngilda rekstrarkostnaði (þ.m.t. reiknuðu endurgjaldi) á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en geta þó ekki orðið hærri en 400 þús. kr. fyrir hvert stöðugildi á mánuði hjá rekstraraðila á tímabilinu.
Þetta er það sem samþykkt hefur verið, er þó ekki tilbúið til umsóknar
Stöðugildi verði skilgreint sem starfshlutfall er jafngildi fullu starfi launamanns í einn mánuð. Í þessu felst að einn launamaður getur í hæsta lagi jafngilt einu stöðugildi enda starfi hann í fullu starfi hjá rekstraraðila í heilan mánuð. Tveir launamenn í hálfu starfi í einn mánuð jafngilda samtals einu stöðugildi. Að sama skapi jafngildir launamaður sem starfar í heilu starfi hjá rekstraraðila hálfan mánuð 50% stöðugildi. Ekki verður talið að einn launamaður geti numið meira en einu stöðugildi í skilningi laganna enda þótt hann vinni í einum mánuði fullt starf auk yfirvinnu.
Með stöðugildi er átt við starfshlutfall sem jafngildir fullu starfi launamanns í einn mánuð, sbr. umfjöllun hér að framan um 3. gr. frumvarpsins. Því er ekki endilega samhengi á milli fjölda launamanna, sbr. lög um fjárstuðning við minni rekstraraðila vegna heimsfaraldurs kórónuveiru, nr. 38/2020, og fjölda stöðugilda. Rekstraraðili getur t.d. haft fimm launamenn en einungis tvö stöðugildi ef fjórir þeirra eru í 25% starfshlutfalli.
Það að tengja Rekstrarstyrki einungis við stöðugildi, hentar afar illa Ferðaþjónustuaðilum, sem að hafa sagt upp sínu starfsfólki og lokað tímabundið til að bíða af sér Covid. Við erum að tala um fyrirtæki sem að lifa af ferðamanninum og nú eins og allir vita, eru fáir eða bara engir ferðamenn. Það er því engin innkoma, en engu síður er enn þá ákveðinn rekstrakostnaður til staðar. Það sem að þessir aðilar þurfa er áframhaldandi frysting lána fram að opnun og einhverja fasta upphæð á mánuði til að þreyja Þorrann. Sem sagt fyrirgreiðslur hjá lánastofnunum og ákveðin styrk á mánuði fyrir föstum kostnaði. Hjá litlum aðilum og einyrkjum þarf það ekki að vera svo mikið, en engu síður kostar mikið að skulda, ef að ekkert kemur inn. Enn og aftur vil ég taka fram að þessu fólki er ekki um að kenna þessi faraldur, né eru þau ábyrg fyrir sóttvarnaraðgerðum Ríkisstjórnarinnar, sem að kemur hvað harðast niður á þessu fólki. Ríkið er fast í að hanna aðgerðir sem að henta ekki litlum fyrirtækjum og einyrkjum í ferðaþjónustu. Það er enginn vilji til að hlusta á þessa aðila, sem hafa þó unnið það starf að þarfagreina þessi fyrirtæki og einyrkja og afhent það Ríkisstjórninni með á þriðja hundrað undirskriftum lítilla rekstraraðila.
Fyrirtæki sem að þarf að hafa lokað, er í 100% tekjufalli, það kemur ekkert inn. Menn spyrja kannski, af hverju að hafa ekki opið þá? Svar: Það eru engir viðskiptavinir. Af hverju ertu þá að streða þetta, láttu þetta bara rúlla! Jamm, en það þýðir gjaldþrot fyrir marga persónulega og var það ekki það sem menn töluðu um að forðast, að fólk missti allt sitt, heimili sín og afkomu. Við erum að tala um örfyrirtæki, einyrkja sem að eru í persónulegum ábyrgðum. Ríkið er ábyrgt fyrir þeim aðgerðum sem að rændu þetta fólk afkomunni. Það á rétt á bótum. Taka ber fram að rekstrarstöðvunartryggingar sem sum að þessum fyrirtækjum borga fyrir dýrum dómum, dekka þetta ekki, þú getur ekki tryggt þitt fyrirtæki fyrir heimsfaraldri, frekar en náttúruhamförum. Þar er það alltaf ríkisstjórn hvers lands fyrir sig, sem á að axla þá ábyrgð, ekki einstaklingurinn, eða atvinnulífið eitt og sér.
ENN OG AFTUR AÐGERÐIR FYRIR EINYRKJA OG LÍTIL FYRIRTÆKI SEM HJÁLPA ÞEIM Í GEGN UM COVID, FRAMUNDAN ERU BETRI TÍMAR, ÞANGAÐ TIL ÞURFUM VIÐ AÐ HALDA LÍFI.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 16:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)