Færsluflokkur: Dægurmál
4.8.2023 | 21:20
Enn og aftur missi ég af að sjá gosið !!!
En ekki er öll von úti enn, eftir því sem Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir, enda Reykjanesið lifnað við. Þorvaldur segir að gosið geti aftur á sama stað, eða fært sig, til dæmis í Brennisteinsfjöllin.
Hins vegar er komin Verslunarmannahelgi og fram hjá okkur í Eldstó Art Café (margir stoppa þó og koma við að fá sér veitingar) streymir fólk á Þjóðhátíð í Eyjum, sem og annað sem að hugurinn girnist út úr höfuðborginni.
Ennþá er sumar, þó svo að líðið sé á seinni hlutann og eftir helgina munum við hjónin taka fram Hondurnar okkar (mótorhjólin) og leggja af stað vestur á land. Gott að fara eftir þessa miklu umferðarhelgi, vonum að umferðin verði ekki of þung þá og veður þurrt að mestu. Ég hlakka virkilega til, alltaf gaman að fara á þessum mótorfákum og upplifa þetta frelsi sem mótorhjólafólk kannast við. Sjálf tók ég mótorhjóla prófið í fyrra, en maðurinn minn er búin að vera með sitt próf í áratugi. Finn að ég bý að því að hafa ferðast á fjallahjólum á eigin orku og því tengi ég vel við mótorhjólið og nýt þess að hafa þetta nýja sport.
Þannig - framundan er að heilsa kumpánlega öllu því mótorhjóla fólki sem við komum til með að mæta á ferð okkar um landið á næstunni.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 21:28 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.1.2021 | 19:04
Árið 2020 - árið sem allir þurftu að þrauka er farið og 2021 er ár vonar um betri tíð!
Svona er nú líf okkar á litla Íslandi núna, bið eftir björginni. Bóluefnið frá Pfizer byrjuðu Bretar að nota 9. eða 10.des 2020 og þurftu því ekki samþykki ESB fyrir því, en samþykki ESB kom ekki fyrr en 21.des. 2020.
Evrópska reglukerfið varðandi lyf byggist á tengslaneti um það bil 50 eftirlitsyfirvalda frá öllum löndum EES, 31 að tölu, (28 aðildarríki ESB auk Íslands, Liechtenstein og Noregs), Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og Lyfjastofnunar Evrópu (EMA) en þar sem að Bretar eru nú gengnir út úr ESB þá er greinilegt að þeir töldu sig ekki þurfa að bíða og drifu í að byrja að bólusetja. Hvað um það, Bretar eru nú samt ekki komnir fyrir hornið ennþá hvað varðar smit á Covid 19.
Við höfum verið dugleg í að reyna að halda veirufjandanum niðri og erum ennþá að, því eru hér kjöraðstæður til að skapa hjarðónæmi fyrir Covid 19 og því er það von mín og örugglega margra annarra, að samningar náist við Pfizer um næga skammta í einni sendingu fyrir alla þjóðina, svo rannsaka megi fljótt og vel hversu hratt þetta hjarðónæmi geti myndast.
2020 var árið sem að allt var ófyrirsjáanlegt, en kannski er það bara lífið í hnotskurn. Ekkert er í raun alveg fyrirsjáanlegt, allt er breytingum háð. Hins vegar þarf kjark og þor til að vera hreyfanlegur og tilbúin til að takast á við breytingar í lífinu.
Stjórnvöld hafa staðið sig þokkalega, alltaf má gagnrýna, en þetta eru ekki auðveldar aðstæður. Hins vegar er það nú eins og alltaf, að þeir sem sýst mega við áföllum fjárhagslega, fá síðastir hjálpina og það er sorglegt.
Enn og aftur vil ég nefna lítil og meðalstór fyrirtæki í ferðaþjónustu um allt land, já og einnig bara öll þau smáu fyrirtæki sem að hafa orðið fyrir barðinu á Covid 19 og misst sína innkomu. Tekjufallsstyrkirnir sem að áttu að vera tilbúnir til umsóknar í desember ´20 eru ekki ennþá tilbúnir til að sækja í, hvað þá viðspyrnustyrkirnir. Þar sem að sú krafa er um að vera hæfur styrkþegi, er að viðkomandi fyrirtæki sé í skilum við lánadrottna og yfirvöld, verður það æ snúnara fyrir þessa aðila að halda sér skilum, þegar að hjálina tefur svona endalaust. Skatturinn gefur sér allt að tvo mánuði í að greiða svo út styrkina, eftir að sótt eru um þá. Þetta er því mikið réttlætismál að horft sé til ársins 2020 með að þau vanskil sem safnast hafa upp þá, séu ekki með í þeim skilapakka, hvað það varðar að vera styrkhæft fyrirtæki.
Eins má hugleiða að skuldasöfnun fyrirtækja í Kóvinu er ekki eitthvað sem var inni á teikniborðinu hjá rekstraaðilum og því mun það taka nokkur ár að endurreisa það sem hrundi. Því munu þessir aðilar þurfa bæði svigrúm og meiri hjálp til framtíðar, eitthvað sem að heitir þolinmótt fé, lán sem að ekki þarf að greiða af í hvelli og á þolanlegum lágum vöxtum. Stuðningslánin sem að veitt voru á árinu eru ekki slík lán. Því þarf að breyta.
En mikið er ég þakklát fyrir hversu hratt hefur tekist að þróa bóluefni og ég bara verð að segja, að ég er mun bjartsýnni en síðustu mánuði.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
7.5.2020 | 11:32
Bréf ti Ferðamálaráðherra "Eigum við að taka á okkur allar skuldbindingar vegna Covid 19"
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 13:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)