Enn og aftur missi ég af að sjá gosið !!!

En ekki er öll von úti enn, eftir því sem Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingur segir, enda Reykjanesið lifnað við. Þorvaldur segir að gosið geti aftur á sama stað, eða fært sig, til dæmis í Brennisteinsfjöllin.

Hins vegar er komin Verslunarmannahelgi og fram hjá okkur í Eldstó Art Café (margir stoppa þó og koma við að fá sér veitingar) streymir fólk á Þjóðhátíð í Eyjum, sem og annað sem að hugurinn girnist út úr höfuðborginni. 

Ennþá er sumar, þó svo að líðið sé á seinni hlutann og eftir helgina munum við hjónin taka fram Hondurnar okkar (mótorhjólin) og leggja af stað vestur á land. Gott að fara eftir þessa miklu umferðarhelgi, vonum að umferðin verði ekki of þung þá og veður þurrt að mestu. Ég hlakka virkilega til, alltaf gaman að fara á þessum mótorfákum og upplifa þetta frelsi sem mótorhjólafólk kannast við. Sjálf tók ég mótorhjóla prófið í fyrra, en maðurinn minn er búin að vera með sitt próf í áratugi. Finn að ég bý að því að hafa ferðast á fjallahjólum á eigin orku og því tengi ég vel við mótorhjólið og nýt þess að hafa þetta nýja sport. 

Þannig - framundan er að heilsa kumpánlega öllu því mótorhjóla fólki sem við komum til með að mæta á ferð okkar um landið á næstunni. 


Opið bréf til Stjórnvalda - ein bara að springa af gremju

Komið þið sæl, ég velti fyrir mér hvernig vextir stuðningslána til fyrirtækja fóru á innan við þremur árum úr 1% í 8.75%

Ég tók þetta lán fyrir mitt fyrirtæki í góðri trú að þetta væri sérstakur stuðningur með vöxtum sem að héldust fastir á lánstíma. Mér fannst reyndar að þetta hefði frekar átt að vera styrkur, en ekki lán, þar sem að reglur Stjórnvalda gerðu fyrirtækjum í minni stöðu ómögulegt að reka sig. Hins vegar það, að ef ég hefði ekki tekið lánið, þá hefði mitt fyrirtæki ekki verið styrkhæft, þegar að þær aðgerðir loksins tóku að kræla á sér upp undir ári eftir að Covid skall á í marz 2020 og allir viðskiptavinir hurfu í einum vettvangi, þ.e. ekki fyrr en í jan – feb 2021 til umsóknar, voru ekki greiddir út fyrr en í marz – maí 2021.

Ég rek ferðaþjónustufyrirtæki úti á landsbyggðinni – veitingastað sem að þarf mikið af starfsfólki í þjónustu og eldamennsku. Við höfum tekið á okkur þvílíkar hækkanir frá birgjum, launakostnað og glæpsamlegar vaxtahækkanir bankastofnana studdar dyggilega af stjórnvöldum.

Ég hreinlega botna ekkert í því á hvaða plánetu þið búið sem eigið að heita hæf til að stjórna þessu landi og þjóna almenningi. Ef að ekki væri fyrir einkaframtakið, þá væri ekkert Ríkisbákn til, því ekki er það sjálfbært sem rekstrareining.

Hvað er það sem að vakir fyrir ykkur, ef einungis fjármálafyrirtæki eru tryggð fyrir öllu tapi, en við hinir litlu og meðalstóru vesalingar megum bara rúlla. Bankarnir tapa engu, þið borgið þeim, allt Ríkistryggt vegna þeirra, en síðan má ekki skattleggja þá of skart, ekki skera niður hagnaðinn, svo að þeir geti nú áfram byggt sínar hallir og lifað sínu lífi. Þeir vaða áfram með ofurvöxtum og þjónustugjöldum, ef þeir svo mikið sem prumpa, þá skal almenningur og litlu fyrirtækin rekin af venjulegu fólki en ekki fjármála gúrúum, bara borga eða rúlla.  

Ég er reið, já ÆVAREIÐ !!! ´

Í einfeldni minni hélt ég að ég gæti bara endurfjármagnað þetta svokallaða stuðningslán og komið því í það form að mitt fyrirtæki gæti greitt það, en NEI, þá var mér tjáð að það mætti ekki, bankinn endurfjármagnar ekki þessi lán og tapar Ríkisábyrgðinni, alveg sama þó að allt sé í skilum hjá fyrirtækinu – engar svartar syndir. Það bara má ekki.

Hvað á það að þýða að láta sem að Covid hafi aldrei skeð og gleyma okkur, sem erum að reyna að standa í lappirnar og reka okkur áfram, láta sem við séum ekki til.

Nánast aldrei minnst á það í þingsal að enn séu byrgðar á okkar herðum. Við erum ekki búin að ná jafnvægi korteri eftir Covid. Við getum ekki og eigum ekki að bera aftur alla ábyrgð á því að þetta land jafni sig aftur efnahagslega. Ferðaþjónustan gerði það eftir hrunið og enn og aftur er sú krafa að við eigum bara að redda þessu. Ég segi NEI – við eigum ekkert að redda þessu, við eigum öll að taka þá ábyrgð og ekki síst Stjórnvöld. Ég vil samtal og ég vil að okkur sé gert það raunverulega kleift að geta greitt til baka þessi lán og þeim sé breitt í þolinmótt fé, að hægt sé að semja á forsendum fyrirtækjanna á þann hátt sem að hægt er, en ekki sem snara að hengja okkur í. Eins að vextirnir séu lægri á þessum lánum, en ég var svo vitlaus að halda að þeir yrðu það áfram, en svo er bara alls ekki.

Ég verð að segja að ég upplifi að ég sé í viðskiptum við Mafíuna en ekki lög verndaðar fjármálastofnanir, þeim leyfist að blóðmjólka almenning með gjaldtökum fyrir minnsta viðvik og vaxtaokri, sem að er engu líkt, allt með blessun Stjórnvalda.

 

Með kv. G. Helga Ingadóttir


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband