Eins og sauðir leiddir til slátrunar eru þeir sem einskis spyrja eða efast

Það er einkennilegt hvernig fólk misskilur skrifin mín, en í síðustu færslu er ég er að tala um íþyngjandi innanlands aðgerðir, en ekki hvað varða reglur um sóttkví í komu til landsins. Vil ég því skerpa á því hér með. 
 
Það er hins vegar staðreynd í mínum huga að fyrirtækjum er mismunað og það að óþörfu. Ég sé ekki hvers vegna það ætti að vera meiri hætta á smitum á veitingastað en í verslun, þar sem að á veitingastaðnum eru mun strangari reglur um sótthreinsanir á milli gesta en t.d. í verslunum.  Í verslunum er enginn er að skipta sér að því hvað kúnnarnir snerta, enda ekki mannskapur í það að elta hvern einasta kúnna.
 
Þar sem að ég rek sjálf veitingastað og kaffihús, þá tala ég af reynslu og við lögðum mikið á okkur við að halda öllu sótthreinsuðu og eins öruggu og okkur var unnt. Sóttvarnarreglur innan lands eru alltof hamlandi nú, þar sem að smitum er náð niður og strangar reglur fyrir komufarþega eru við landamærin.
 
Að fólk telji það löst að spyrja gagnrýnis spurninga og leyfa sér að efast um að aðgerðir séu til þess fallnar að vermda almenning án þess að fullnægjandi rök séu til staðar, er skortur á sjálfstæðri hugsun. Það eru lýðræðisleg mannréttindi að fá að hafa skoðun og láta hana í ljós, án þess að menn telji sig þurfa að skammast yfir því.
 
Ég er ekki ein af þeim sem set á mig skjöldinn - Ég hlýði Víði, en ég er ekki þar með að segja að ég hlýði honum ekki, enda löghlýðin með afdrifum. Hins vegar finnst mér að mönnum sé hollt að spyrja spurninga og leifa sér að efast um réttmæti aðgerðanna, ef ekki fullnægjandi svör og rök eru til staðar. Í mínum huga eru þau ekki til staðar nú. 
 

Íþyngjandi sóttvarnarlög - en lítið að smitum

Ég velti fyrir mér stundum hvort þessar miklu takmarkanir á frelsi til athafna standist lög um mannréttindi. Nú hefur í nokkuð langan tíma verið lítið sem ekkert um innanlands smit af Covid 19 og takmarkanir á landamærum miklar, þannig að í ljósi þess ætti lífið að geta verið á mun eðlilegri nótum en nú er. 

Það að ekki megi sitja inni á veitingastað fleiri en 20 gestir og ekki megi afgreiða fólk um veitingar eftir kl. 21 finnst mér vera svo mikil forræðishyggja - að ég velti fyrir mér hvort hér sé að verða til Fasisma þjóðfélag, þar sem menn verði að hlíða, þó svo rökin sé veik eða engin. 

Það vekur mér óhug hvað fólk virðist vera lítið meðvitað um persónuréttindi fullorðinna einstaklinga, sem eiga að hafa vit á að taka sjálft upplýstar ákvarðanir og tökum því sem sjálfsögðum hlut að láta segja okkur hvenær við megum fara út að borða og eða á mannamót, þar sem að fleiri en 20 manns koma saman.

Ég sé ekki rökin fyrir því að reglur séu svona stífar núna, ef að heilbrigðisyfirvöld telja að á þessu ári 2021 verði þjóðin bólusett. Nú þegar er búið að bólusetja stærstan hluta af viðkvæmustu hópunum og því eru engin rök fyrir því að létta ekki á miklum hluta þessara takmarkanna, en nei, höldum bara áfram að taka við fyrirskipunum frá Sóttvarnarlækni og yfirvöldum.

Nú var jú verið að auka við fjölda fólks sem að má fara á leiksýningar, tónleika og í verslanir að kaupa sér ýmsan varninginn, en ennþá mega veitingahús og barir þola miklar hömlur, sem að eiga ekki við rök að styðjast, nema þá helst forræðishyggju.

Í verslunum er fólk að snerta sömu hlutina og þar er engin starfsmaður sem að hleypur á eftir fólki með sprittbrúsann, en á veitingastöðum er því öðruvísi farið. Ég tala af reynslu minna starfsmanna, sem spritta allt í bak og fyrir og vakta að gestir spritti sig, áður en þeir setjast. Matseðillinn er á netinu, þannig að menn kíkja bara í sína eigin síma. Passað er að hafa rétta fjarlægð á milli borða og reynt að fara eftir ýtrustu sóttvarnarreglum. En engu síður er okkur ekki treyst fyrir nema takmörkuðum fjölda gesta -  20 mann í einu og opnunartíma sem að sæmir ekki fullorðnu fólki, að stjórna því á þennan hátt.  Þetta er óásættanlegt. 

Svona höfðum við það í sumar sem leið, pössuðum allt til hins ýtrasta. Það er ekki við okkur að sakast að smitum fór að fjölga aftur.

Fólk gat alveg eins hafa borði milli sín smit í verslunarferðum í Smáralindinni eða Kringlunni þar sem að menn voru á ferðinni, eins og inni á veitingastöðum og því frekar, þar sem erfitt var að stjórna hvar fólk var statt inn í verslunum. 

En nú eru aðstæður betri en í sumar sem leið, en þá var ekki einu sinni tilbúið bóluefnið, en nú erum við byrjuð að bólusetja og því er komin tíminn til að að þessum íþyngjandi boðum og bönnum linni.  

Niðurlag - Tek fram að það eru aðgerðir Ríkisstjórnarinnar og Sóttvarnarlæknis innanlands sem ég er ósátt við - en ekki aðgerðir á landamærum, eins og málum er háttað í Evrópu nú. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband